27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

91. mál, hvalveiðibann

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mér skilst að segja megi að það sé algerlega á síðustu stundu og jafnvel of seint að ræða þessa till. Samkv. upplýsingum sem hæstv. sjútvrh. gaf hér áðan hefði það þegar verið tekið fyrir í ríkisstj. að hvalveiðibanni yrði mótmælt. Yfirlýsingar um það hvort menn séu með eða á móti till. séu því frekar gagnslitlar og einnig litlar líkur á að tími vinnist til að afgreiða till. úr n., hvað þá að koma áfram atkvgr. hér í þinginu, áður en að þeim degi kemur sem þarf að vera búið að taka ákvörðun í málinu, og málið raunverulega í höndum sjútvrh.

Eins og hv. 3. þm. Vesturl. upplýsti hér áðan leitaði flm. till., hv. 5. þm. Vesturl., til okkar Vesturlandsþingmanna um það að við flyttum till. með honum. Ég hafnaði því þá, reyndar ekki á þeirri forsendu að ég væri á móti því að hvalveiðibanninu væri mótmælt, heldur frekar vegna þess að ég taldi varla tímabært að flytja till. á þingi meðan þessi mál væru frekar skoðuð. Ég er reyndar kominn á þá skoðun nú, ekki síst eftir þær umr. sem hér hafa átt sér stað í þinginu, að vera mótfallinn till. Mér finnst þau rök sem notuð eru til þess að mæla með samþykkt hennar engan veginn geta staðist. Aðalrökin fyrir því að við eigum að mótmæla banninu séu efnahagslegar aðstæður, rekstur fyrirtækisins Hvals hf. í Hvalfirði, mannfjöldinn sem vinnur þar og hlutdeild hvalafurða í útflutningstekjum okkar. Ég fæ ekki séð að það standist raunverulega að bera þetta fram sem rök í málinu, vegna þess að hættan á skaða á öðrum vettvangi við það að mótmæta banninu er jafnvel meiri, eins og hv. 9. landsk. þm. benti hér á áðan. Það eru aðrir efnahagslegir þættir sem eru veigameiri og okkur hættulegri en sá að þessi atvinnugrein leggist niður um einhvern tíma, því ekki liggur beint fyrir að það sé nema um ákveðinn árafjölda sem bannið gildir.

Hv. flm. benti á það í framsöguræðu sinni að upphaflega hefði Alþjóðahvalveiðiráðið verið myndað af þjóðum sem stunduðu hvalveiðar og áttu hagsmuna að gæta á því sviði. Á undanförnum árum hefðu aftur á móti komið inn í ráðið aðrar þjóðir, sem hefðu lítilla hagsmuna að gæta, og beitt þar atkvæðisrétti sínum gegn þeim þjóðum sem enn veiða hval. Á móti þessu verður ekki mælt. Staðreyndin er sú að upphaflega voru þjóðirnar 14 sem stóðu að Alþjóðahvatveiðiráðinu og allar hvalveiðiþjóðir. Nú eru aðeins eftir sjö og samkv. upplýsingum hæstv. sjútvrh. áðan og þeim plöggum sem hér var dreift í gær blasir við að þær verði brátt ekki fleiri en fimm. Ég tel einmitt að atkvæði þeirra þjóða, sem í ráðinu eru og voru áður veiðiþjóðir, en styðja nú bannið, séu gildari, en atkvæði þeirra sem vilja veiða áfram. Sá félagsskapur sem við stöndum eftir í nú er Noregur, Sovétríkin, Japan og Perú.

Hv. 9. landsk. þm. sýndi hér mynd, sem dreift hefur verið um Bandaríkin þar sem íslenski fáninn er í bland við þennan hóp. Mér finnst ekki ótrúlegt að þeir sem ber]ast gegn hvalveiðum hugsi sem svo þegar þeir hugsa til Íslendinga — og sjálfsagt hugsa þeir margir hverjir enn vel til þeirra: Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert. Ef við eigum að fylkja liði með þessum hóp í sambandi við mál sem þessi, þá held ég að við séum ekki á réttri braut.

Ég tel að atkvæði þeirra sem veiddu og eru hættir því vegna þess að ofveiði hefur átt sér stað séu þyngri á metunum heldur en þeirra sem vilja halda áfram ofveiði, en líklegast eru ekki aðrar þjóðir drýgri við þá iðju en stórfiskiveiðiþjóðirnar Japan og Sovétríkin.

Það er ekki langt síðan ég og hv. 5. þm. Vesturl. stóðum að því að undirbúa verksmiðjubyggingu vestur í Búðardal til að nýta selskinn. Við höfðum öll trú á því, sem stóðum að því, að þarna væri verkefni fyrir Dalamenn að nýta selinn við Breiðafjörð og súta og vinna skinn af selnum. Við tókum ekki mikið mark á því, sem þá var verið að segja í fjölmiðlunum, að hópar úti í löndum væru að byrja að berjast gegn þessum veiðum. Bjartsýni var ríkjandi um það að þarna væri hægt að byggja upp atvinnufyrirtæki. Nú er staðreyndin aftur á móti sú, að selveiðar sem atvinnuþáttur á Íslandi er úr sögunni.

Ég geri ráð fyrir því að svipuð þróun eigi sér stað hver sem okkar mótmæli verða í sambandi við hvalveiðibann í dag, að þeir aðilar sem nú berjast fyrir hvalveiðibanni hafi eftir nokkur ár þá stöðu t.d. í Bandaríkjunum sem eru okkur viðkvæmust, að viðskipti okkar við það land með sjávarafurðir fari minnkandi. Þá geri ég ráð fyrir að þeir sem nú mæla með því að við höldum áfram hvalveiðum vildu allir hafa verið á hinni skoðuninni í dag.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði hér áðan að við töpuðum rétti með því að gera núna ekki neitt. Ég tel að með því að mótmæla hvalveiðibanninu nú munum við stíga það skref sem við gerum okkur ekki grein fyrir hvaða afleiðingar getur haft. Ég tel miklu farsælla fyrir okkur að tapa þeim rétti, sem við ímyndum okkur að við getum haft til að veiða hval eftir 1986, en að halda þessu striki sem hér er lagt til að verði gert.

Hæstv. sjútvrh. og fleiri hv. ræðumenn hafa nefnt það að hvalastofninn geri mikið af því að éta fisk og hafa nefnt háar tölur í sambandi við það. Við höfum ekki heyrt annað en að loðnustofninn á norðlægum slóðum hafi verið hér frá alda öðli. Þó vitum við að hvalastofninn í norðurhöfum var áður miklu, miklu stærri en núna. Rök á þessa vísu tel ég vera mjög léttvæg og ættu helst ekki að heyrast í umræðum sem þessari. Að tala um það meðan dýrastofn er í lægð, eins og hvalastofninn er nú, að hann ógni öðrum fiskistofnum eða öðrum náttúruþáttum, það finnst mér að tala út í hött. (Gripið fram í.) Það er ekki neinn vafi á því.

Svo virðist sem það sé þegar ákveðið að hvalveiðibanninu verði mótmælt. Ég tel að fyrst svo er gert þá eigi að hverfa frá þeirri braut að leggja málin fyrir eins og gert hefur verið að miklu leyti hér í dag, að efnahagslegum þætti sé stillt upp eins og hv. flm. gerði, sérstaklega að þetta séu ákveðin bolabrögð þjóða sem ekki koma þessi mál neitt við. Ég tel að gagnrýni okkar á þessu banni eigi frekar og eingöngu, ef henni verður haldið áfram, að byggjast á því sem reyndar kemur að nokkru fram í grg. hv. flm., að aðalatriðið eigi að vera það að veiðin fari öll fram innan okkar íslensku landhelgi, þ.e. innan 200 mílnanna, og í öðru lagi að fyrir liggi að þeim hvalastofnum sem veiddir eru á Íslandsmiðum verði ekki ógnað af ofveiðum. (Gripið fram í.) Já, þetta liggur fyrir og þessu getum við haldið áfram. Og svo að veiðarnar séu stundaðar undir eftirliti og miklar og auknar rannsóknir fari fram í sambandi við þetta. En að blanda efnahagslega spursmálinu inn í þetta tel ég að sé okkur neikvætt. Við eigum að halda fram okkar líffræðilegu rökum í sambandi við þetta, en að stilla upp efnahagsþættinum í þessu, eins og hér hefur verið gert meira og minna, það tel ég vera rangt. Ekki aðeins vegna þess að sá þáttur hlýtur að vera mjög lítils metinn hjá öðrum þjóðum, heldur líka af hinu, að gegn hvalveiðibanni. 1590 með því að stilla upp þessum efnahagslega þætti er raunverulega verið að stilla íslenskum atvinnugreinum upp hverri á móti annarri. Sú ógnun í sambandi við fiskveiðar og fisksölu til Bandaríkjanna sem er tengd þessu máli á ekki að vera til umr. hér og ekki heldur sá skaði sem við verðum fyrir ef hvalveiðarnar verði stöðvaðar, heldur fyrst og fremst hinn siðferðislegi eða náttúrufræðilegi grundvöllur sem við getum bent á að við séum ekki að skerða.