28.01.1983
Neðri deild: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Eins og fram kom í gær, var það þá hugmynd forseta deildarinnar að dagskrármálið, efnahagsaðgerðir, yrði tekið til umr. og afgreiðslu á þessum fundi. Augljóst er að það nær ekki fram að ganga. Ég gat þess, að vissulega hefði þetta mál verið alllengi í meðförum þingsins og hv. fjh.- og viðskn. starfað saman að úrvinnslu málsins. Af þeim sökum og ýmsum öðrum mætti ætla að mátið gæti fljótlega náð afgreiðslu í hv. deild. Ég hef til viðbótar fengið upplýsingar um að nokkrir nm. bíða enn eftir upplýsingum sem þeir telja sér mjög mikilvægt að fá áður en nál. eins minni hl. verður skilað.