27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

28. mál, málefni aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. heilbrrh. flutti frv. þetta seint á s.l. vori hér í þessari hv. deild lýsti ég því yfir að ég væri samþykkur frv., enda hafði ég þegar samþykkt það á öðrum stað sem einn af höfundum þess, en því var skilað frá þeim sem sömdu það til hæstv. ríkisstj. í janúarmánuði á þessu ári. Það hefur verið unnið að þessu frv. í sumar. Það er ár aldraðra og það hefur verið leitast við á hinum ýmsu ráðstefnum og fundum, sem haldnir hafa verið, að kynna frv.

Með samþykkt þessa frv. verður í fyrsta sinn samþykkt samræmd heildarlöggjöf um málefni aldraðra svo langt sem þetta frv. nær, en vissulega má segja að það séu fleiri þættir sem lög þyrftu að spanna yfir. Skal ég ekki fara nánar út í það, en vil þó taka undir það með hæstv. ráðh. að fjármögnun til rekstrar þeirra heimila sem hýsa aldraða á ekki heima í þeirri umræðu sem fer fram um þetta frv. Ég mun því ekki efna til slíkrar umr. nú um það mál, þótt ærið mætti um það segja.

Frv. hefur verið til umsagnar í sumar meðal ýmissa aðila. Öldrunarráð Íslands fékk frv. til umsagnar og sendi mörgum aðilum frv. til athugunar og lét fylgja með sínar athugasemdir. Það eru í sjálfu sér ekki þýðingarmiklar athugasemdir eða mikilsverðar sem hafa komið. Ég held að þær sem kannske eru fyrirferðarmestar og mestar í orðum manna séu byggðar á misskilningi. Síðasta athugasemdin sem ég hef heyrt er t.d. varðandi 5. gr., um að þar sé stefnt í átt mikillar miðstýringar. Ég kannast ekki við þetta, en tel hins vegar að þarna sé verið að leitast við að benda á hvaða þjónustu þurfi undir vissum kringumstæðum. Í sambandi við sveitarfélögin og sveitarstjórnirnar t.d. er ekki verið að hrúga upp á þau neinum skyldum frá því opinbera í þessu tilfelli því að valdið er hjá þeim að lokum. Ég álít einmitt, að það sem komi fram í þessu frv. sé hið gagnstæða við það sem var í frv. sem lagt var fram af ríkisstj. áður og hér kom til umr. með hæstv. ráðh. um heilbrigðis- og félagslega þjónustu fyrir aldraða. Ég held að það hafi verið snúið alveg frá þeirri miðstýringarleið sem mótaði það frv. og með þessu frv. sé reynt að koma á móti skoðunum sem flestra, sem láta sig þessi mál skipta og hafa að þeim unnið.

Persónulega vil ég láta koma fram, eins og á s.l. vori, að það er að sjálfsögðu margt í þessu frv. sem ég hefði viljað hafa öðruvísi, en ég hef gengið til samstarfs um að þetta frv. nái fram að ganga og mun styðja það. Ég mun þó að sjálfsögðu áskilja mér rétt til þess að fylgja ákveðnum brtt., sem fram kunna að koma, og geri ég ráð fyrir að ég og mínir flokksbræður hér á þingi höfum t.d. einhverjar athugasemdir fram að færa við orðalagið í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra, eins og ég reyndar hafði þegar í nefndinni sem samdi frv. — En ég styð það að þetta frv. nái fram að ganga og ég styð þá ósk hæstv. ráðh. líka að við reynum að afgreiða frv. áður en þessu ári lýkur.