28.01.1983
Neðri deild: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. vildi meina að hér væru menn með málþófi að gera þessa málsmeðferð að einsdæmi. Ég vísa þessu aftur heim til föðurhúsanna og bendi hæstv. forsrh. á það m.a., að ég er að tala í fyrsta skipti í þessu máli hér á Alþingi í dag. Ég vil líka benda honum á, þar sem hann orðaði það svo að ég hefði ásamt nokkrum samflokksmönnum mínum upphafið hér málþóf, að ef hann á við umræðurnar á miðvikudaginn í síðastliðinni viku og nefnir þær málþóf, ef það er þannig, þá tók ég ekki þátt í þeim umr. Það sem hann annars sagði um málsmeðferð og vék að mér dæmir sig náttúrlega eftir því sem hér hefur verið sagt.

Ég bendi á að það skiptir ekki máli hvort um eins, tveggja eða þriggja daga töf er að ræða á Alþingi á afgreiðslu brbl., en þýðingarmikið að síðari deild þingsins, sem er að fjalla um málið og óskar eftir því — eða þm. innan hennar — að fá upplýsingar áður en málið kemur til endanlegrar afgreiðslu fái þær upplýsingar. Málið fór frá fyrri deild þannig að allir voru um það sammála og gerðu um það samkomulag að þetta mál yrði skoðað betur í þessari hv. deild. Við skulum líka átta okkur á því, að ríkisstjórnin gerir með málflutningi brtt. hæstv. sjútvrh. ráð fyrir að málið, nái það ekki fram að ganga, fari til Ed. aftur. Hvers vegna var ekki till. hæstv. sjútvrh. flutt í Ed. til þess að tefja ekki fyrir málinu? Menn sjá af þessu hvað hér er um að vera. Umr. frestað.