31.01.1983
Efri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

173. mál, umferðarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 264 hef ég leyft mér að bera fram frv. til l. um breytingu á umferðarlögum nr. 40 23. apríl 1968, með síðari breytingum. Hér er um að ræða breytingu á niðurlagi 2. gr. umferðarlaga, sem orðist svo með leyfi forseta:

„Ljósatími: a) Bifreiðar, bifhjól og vélhjól skulu aka með ljósum allan sólarhringinn árið um kring. b) Önnur ökutæki, sem talin eru upp í þessari grein. Ljósatími frá hálfri klukkustund eftir sólarlag til hálfrar klukkustundar fyrir sólarupprás. Jafnan skal aka með ljósum séu birtuskilyrði slæm.“

Frv. þessu, ef að lögum verður, er ætlað að hafa nokkur áhrif til bóta á öryggi í umferðinni.

Um alllangt skeið hefur umferðaróhöppum fjölgað hér á landi ár frá ári. Meiðslum og dauðaslysum hefur fjölgað og eignatjón er geysilegt. Þrátt fyrir aukna löggæslu og bætta umferðarlöggjöf næst ekki sá árangur sem vænst var.

Oft verða óhöppin vegna þess að gangandi vegfarandi verður þess ökutækis, sem óhappinu veldur, ekki var í tæka tíð eða stjórnendur ökutækja, sem rekast á, gera sér ekki hættuna ljósa fyrr en of seint.

Í nokkrum löndum hefur ökutækjum verið gert að aka með ljósum allan sólarhringinn árið um kring. Víða — eru ökumenn hvattir til þess að aka með ljósum á daginn ef skyggni er ekki gott og það þekkjum við einnig hér á landi. Umferðarráð sendir oft frá sér slíka áskorun. Margir verða við þeirri áskorun, en aðrir ekki. Þá verður jafnvel enn erfiðara að forðast hættu, þegar á eftir 3–4 bifreiðum með ljósum kemur ein ljóslaus.

Allir, sem reynslu hafa af akstri, vita að t.d. þeirrar bifreiðar, sem kemur á móti í umferðinni, verður mun fyrr vart, ef hún ekur með ljósum, þó albjartur dagur sé. Af þessum ástæðum hafa t.d. „Greyhound“ langferðabifreiðarnar í Bandaríkjum Norður-Ameríku ekið með ljósum allan sólarhringinn í meira en hálfa öld.

Svíar hafa ekið með ljósum allan sólarhringinn í allmörg ár og eru eina Norðurlandaþjóðin sem náð hefur því marki að fækka umferðaróhöppum. Finnar hafa fylgt fast á eftir með mjög góðum árangri. Bifreiðar framleiddar í Svíþjóð eru nú þannig gerðar, að þar koma ljósin á um leið og bifreiðin er ræst.

Öldruðum í umferðinni fer fjölgandi, og þótt kannanir sýni að aldraðir ökumenn valdi ekki slysum öðrum fremur, nema síður sé, þá er þó ljóst að þetta ákvæði í umferðarlögum mundi auka öryggi allra sjóndapurra í umferðinni, bæði ökumanna, en þó einkum gangandi vegfarenda.

Einn af hverjum 14 körlum sem aka bifreið er samkv. erlendum skýrslum haldinn svonefndri „rautt-grænt“ litblindu, þannig að þessir ökumenn eiga erfitt með að greina rauða og græna hluti við vissar aðstæður, en bifreið með ljósum sjá þeir vel.

Í skýrslu, sem landlæknisembættið hefur tekið saman um slys í umferð, kemur fram sú hörmulega staðreynd, að í ungu aldurshópunum, 7–20 ára, eru slysin algengasta dánarorsökin hjá okkur og á aldrinum 17–25 ára eru umferðarslysin ein algengari dánarorsök en nokkur önnur.

Vitað er að umferðarlögin eru í heildarendurskoðun, en ástandið hjá okkur er svo slæmt að við megum ekki bíða. Ákvæðið, sem þetta frv. fjallar um, er einfalt, getur tekið gildi strax eftir samþykkt laganna og það má vænta árangurs.

Nú er norrænt umferðaröryggisár. Ljósatími allan sólarhringinn, allt árið, væri verðugt byrjunarákvæði. Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að mælast til að þessu frv. verði vísað til allshn. að lokinni umr.