31.01.1983
Efri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

173. mál, umferðarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl. og 4. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir við þetta litla frv. mitt um lagfæringu á umferðarlögunum. Ég get tekið undir það, að þýðingarmikið er að heildarendurskoðun umferðarlaganna fari að sjá dagsins ljós. Við höfum fengið hér staðfestingu hæstv. dómsmrh. á að henni muni ljúka á þessu ári, en hugsanlega ekki fyrr en á því miðju. Það er einmitt með það í huga sem ég flutti þetta einfalda frv. og með það sama í huga og hv. 4. þm. Norðurl. e. varðandi það frv. sem þeir félagar hafa flutt hér um breytingu á umferðarlögum og hann nefndi. Það er það að taka út úr einfalda þætti, sem er í raun og veru auðvelt að koma í framkvæmd. Þetta er ekki kostnaður á nokkurn hátt til þess að tala um a.m.k., en það má vænta þess að slík breyting á umferðarlögunum beri strax árangur.

Ég verð að segja fyrir mig, að strax þegar umfjöllunin á síðasta þingi var um lögleiðingu bílbeltanna, eins og hv. þm. væntanlega muna, þá var ég á móti lögfestin unni, þó að ég hafi ekki verið á móti notkun þeirra. Ég taldi að það ætti ekki að þurfa að lögfesta slíkt. En frá þessum tíma byrjaði ég strax sjálf að nota bílbeltin og jafnframt að venja mig á að aka með ljósum á hvaða tíma dags sem ég var á ferðinni. Ég hef þess vegna lagt mig fram um að gera mér grein fyrir hvaða áhrif það hefur í umferðinni að nota ljósin, þótt um bjartan dag sé. Mér finnst það skipta mjög miklu máli þegar bílar koma á móti, sérstaklega þegar ekið er úti á þjóðvegum og maður hefur nokkuð langar vegalengdir fram undan, að sjá bíla með ljósum. Þetta skiptir mjög miklu máli og það vekur hjá ökumanni vissa öryggistilfinningu.

Ég vænti þess að þetta frv. fái góða og skjóta umfjöllun í hv. allshn. og það verði ekki farið að tefja þetta mál með því að fara að fjalla um umferðarlöggjöfina í heild, vegna þess að þetta einfalda mál getur verið áhrifaríkt. Ef þetta frv. yrði fljótlega að lögum gætum við vissulega fagnað, því þótt við fækkuðum ekki nema kannske um eitt slys væri tilganginum náð.