31.01.1983
Neðri deild: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. S.l. föstudag, þegar þetta mál var til umr., gerði ég grein fyrir því, hvers vegna ég talaði ekki fyrir nál. og hvers vegna nál. væri ekki fram komið. Eins og kom fram hjá hæstv. forseta höfum við í 3. minni hl. fjh.- og viðskn. nýlega lokið gerð nál. Á því nál. eru auk mín hv. 3. þm. Reykv. Albert Guðmundsson og hv. 1. þm. Vestf. Sigurlaug Bjarnadóttir.

Þegar þessar umr. fóru hér fram á föstudaginn vék ég að þeim mikla hraða sem væri viðhafður við afgreiðslu þessa máls. Ég lýsti því þar þá, að ekki væri enn búið að ljúka athugun á ýmsum atriðum varðandi láglaunabætur, sér í lagi lagastoð til greiðslu á láglaunabótum árið 1983. Það kom ennfremur þar fram, að enn væri ekki búið að fá gögn sem óskað hafði verið eftir og það stendur enn. Þess vegna var haldinn fundur í fjh.- og viðskn. þessarar deildar í morgun. Þar var m.a. gengið frá bréfi til prófessors Sigurðar Líndals, þar sem leitað var álits hans á vissum atriðum í þessum efnum. Auk þess kom þar til fundar sá fulltrúi sem komið hefur frá Framkvæmdastofnun og vikið að þeim gögnum sem nm. töldu að vantaði til þess að þeir hefðu þær upplýsingar sem þeir þyrftu vegna m.a. þeirrar brtt. sem flutt hefur verið hér í þessari hv. deild af hæstv. sjútvrh. Það var hins vegar ekki að okkar dómi ástæða til þess að draga umr. fram yfir það sem gert hafði verið og ég lauk því gerð nál., sem enn er í vélritun og ég mun leggja hér fram við lok ræðu minnar, en hæstv. forseti hefur nú leitað afbrigða fyrir að hér geti verið til umr.

Ég held að það sem ég nú hef sagt sýni hversu mikill hraði hefur verið á afgreiðslu þessa máls. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, þegar talað er um að báðar nefndir þingsins, þ.e. nefndir beggja deilda þingsins, hafi starfað saman — eða störfuðu saman eftir að málið var flutt í Ed. — og mönnum þótti að það ætti að geta flýtt fyrir afgreiðslu þessa máls í þessari hv. deild. Það gerist að sjálfsögðu. Hins vegar vek ég athygli á því, að í þessari hv. deild sitja 40 þm. Ég vek jafnframt athygli á því, að það eru gerðar tillögur um breytingar á þessu frv. í síðari deild. Allt þetta gerir það að verkum, að mér,sýnist að sá tími sem nú hefur farið til þess að skoða þetta mál, farið í að gera athuganir á þeirri gagnrýni sem fram hefur komið, sé síður en svo um of. Miklu frekar sýnist mér að það hafi ekki veitt af, og ég vonast til þess á milli 2. og 3. umr., ef samþ verður, að menn fái tækifæri til að skoða þessa hluti. Ég vænti þess þá að fram komi nánari skýringar og svör við spurningum, sem ég trúi að komi fram hér, þegar 2. umr. fer fram.

Þetta stafar allt af því, að þegar við 2. umr. málsins í Ed., eftir áramótin, hafði komið fram mjög mikil gagnrýni á afgreiðslu og framkvæmd láglaunabóta. Auk þess hafði hæstv. sjútvrh. gert grein fyrir því í fjölmiðlum að hann hygðist flytja brtt. við frv., þar sem gert væri ráð fyrir annarri ráðstöfun á hluta gengishagnaðar en frv. gerir ráð fyrir. Eins og ég gat um á föstudaginn var mjög óskað eftir því við hæstv. ráðh. að hann flytti þessa brtt. strax við 2. umr. í Ed., þegar hún fór þar fram, en ráðh. virtist þá ekki reiðubúinn til þess, enda kom í ljós, þegar till. var flutt í Nd. við 1. umr., að orðalag till. hafði breyst frá því að ráðh. hafði gert grein fyrir henni í fjölmiðlum. Hins vegar kom fram í þeirri ræðu, sem hann flutti fyrir till., að ríkisstj. hafði samþykkt að því fjármagni sem um væri að ræða skyldi ráðstafað með sama hætti og fram hafði komið hjá hæstv. ráðh. í sjónvarpinu. Þessi breyting er fólgin í því, að rn. er ættað í samráði við sjútvn. beggja deilda að ráðstafa þessum afgangi eða því sem eftir verður af gengismun frá því í sumar, en það fylgir sá böggull skammrifi að ríkisstj. sjálf hefur ákvarðað, eins og kom fram hjá ráðh., hvar og hvernig þessum gengismun skyldi ráðstafað.

Þegar 2. umr. fór fram í Ed. kom fram, eins og ég gat um áðan, að mikil gagnrýni hafði átt sér stað og verið flutt af ýmsum aðilum, sem höfðu með einum eða öðrum hætti forsvar fyrir láglaunafólki. Það var þess vegna mjög eðlilegt að eftir því yrði leitað í Ed. hvaða breytingar það væru sem fyrirhugaðar væru af hálfu fjmrn. til að mæta þeirri gagnrýni varðandi ráðstöfun láglaunabótanna á s.l. ári og ennfremur hvaða breytingar rn. hyggist gera í sambandi við þær láglaunabætur sem gert er ráð fyrir að úthlutað verði á þessu ári. Þegar sú gagnrýni kom fram af hálfu þm. þeirra sem í Ed. sitja og óskað var eftir að þm. fengju tækifæri til að skoða þessi mál þar betur, þá var því svarað til, að miklu eðlilegra væri að báðar nefndir þingsins störfuðu saman þá þegar og eftir 1. umr. í Nd. um málið. Þar yrði svo hægt að gera grein fyrir því sem óskað var eftir þegar umr. fóru fram í Ed. Ennfremur er þess getið, að þá yrði till. sjútvrh. flutt og þá fengju nefndir tækifæri til að skoða málið betur.

Öllum hlaut að vera ljóst að slík vinnubrögð tefja fyrir framgangi eins máls. Að sjálfsögðu hefði verið eðlilegast að í Ed. hefði fengist umr. um málið eins og það þá stóð í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem fram hafði komið og að fenginni þeirri vitneskju sem fram kom í sjónvarpi þegar sjútvrh. lýsti sinni hugmynd varðandi ráðstöfun á gengismun frá því í ágúst s.l. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að málið skyldi ítarlegar skoðað þegar það væri til meðferðar hér hjá hv. deild og að sjálfsögðu yrði þá gerð grein fyrir þeim breytingum, sem væru í farvatninu hjá hæstv. fjmrh. varðandi láglaunabætur, og svo að sjálfsögðu hjá hæstv. sjútvrh., þegar hann flytti sína till.

Við umfjöllun þessa máls í fjh.- og viðskn. komu fjölmargir aðilar, sem unnið höfðu að gerð þessa frv. og náið samráð hafði verið haft við og hagsmuna höfðu að gæta, til viðræðna við nm. Það verður út af fyrir sig ekki sagt að þær upplýsingar eða þær hugmyndir, sem þar komu fram, hafi verið þess hvetjandi að þeir sem áður höfðu lýst andstöðu sinni við frv. yrðu frekar til þess að samþykkja það, nema þá síður væri. Fulltrúar fjmrn., sem á fundi n. komu, gerðu grein fyrir hvernig að þessu máli hafði verið staðið, þ.e. láglaunabótunum, og létu nm. í té þær upplýsingar sem þeir þá þegar höfðu. M.a. var nm. afhentur tölvulisti þar sem fram kom hversu margir höfðu hlotið þessar bætur, hvernig þær skiptust í tekjuflokka, hvernig þær skiptust á milli einstaklinga og hjóna. Þegar óskað var eftir frekari skilgreiningu varð mjög erfitt um svör, en þegar síðar dró fengust m.a. upplýsingar um einn hóp manna, en það voru sérstaklega bændur sem upplýsingar gátu fengist um. Ég ætla þessum ágætu mönnum, sem til viðræðna komu, ekki að hafa svarað öðru en því sem þeir best vissu, og höfðu þeir að sjálfsögðu ekki möguleika á því að svara þeirri gagnrýni. Þeir leituðust hins vegar við að gera mönnum grein fyrir í hverju m.a. þessi gagnrýni væri fólgin. Ég efast ekki um að þeir draga af því ákveðinn lærdóm og hafa vilja til þess að ná fram lagfæringu þegar fram í sækir. En það var einhvern veginn þannig, að þegar málið var rætt í Ed. reiknuðu menn með því þegar 1. umr. væri lokið hér og málið væri til meðferðar í n. deildarinnar yrðu þessar upplýsingar fyrir hendi, þ.e. þá lægi fyrir hvaða breytingar fjmrh. eða ríkisstj. hygðust gera á þeirri reglugerð sem láglaunabæturnar voru greiddar eftir. Það er að vísu ekki mikið sem sagt er í brbl. um greiðslu láglaunabóta annað en það er tekið fram hver upphæðin skuli vera, en að engu leyti vikið að því með hvaða hætti eða hvernig þær skulu greiddar.

Aðrir sem til viðræðna komu, þ.e. fulltrúr þeirra aðila sem þarna höfðu mestra hagsmuna að gæta, fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, höfðu sumir hverjir ekki ýkjamikið um málið að segja, en það kom glögglega fram að samstarf það sem lögin gera ráð fyrir, t.d. við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, var ekki ýkjamikið. Upp úr hafði þar slitnað. Að mér skildist hafði stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ekki einu sinni fjallað í sjálfu sér um brbl. eða um láglaunabótareglugerðina, heldur aðeins, eins og fram kom á fundum n., formlega mótmælt setningu brbl. Að mínum dómi var hér ekki um ýkjamikla hagsmunagæslu að ræða. Formleg mótmæli eða skoðun á reglugerð, þaðan af síður samráð, höfðu ekki verið fyrir hendi. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands virtust hins vegar hafa haft töluvert miklu meira með málið að gera þegar það var á undirbúningsstigi. Það kom fram hér í ræðu hv. 3. þm. Vestf., þegar hann talaði fyrir sínu nál., hvernig þessar umr. þar fóru fram, og það er vikið að þeim í hans nál. Það mátti glöggt heyra og skilja að fulltrúr Alþýðusambandsins höfðu haft viss áhrif. (Gripið fram í: Alþb.menn.) Fulltrúar Alþýðusambandsins, hvaðan svo sem þeir koma úr flokki, höfðu haft áhrif. (Gripið fram í.) Hvaðan svo sem þeir komu úr flokki, sagði ég. Þeir voru fulltrúar Alþýðusambandsins. Þeir höfðu haft þar viss áhrif, t.d. varðandi hvaða lægstu tekjur skyldi við miða. Þegar rn. hafði talað um 10–15 þús. kr. fékkst það hækkað í 25 þús. Þegar rn. hafði talað um 51 þús. sem hámark mun áhrifa þessara aðila hafa gætt og hækkunin orðið 75 þús. Vel má vera að það sem hér var gert hafi haft ýmis þau áhrif sem síðar hafi valdið hluta þeirrar gagnrýni sem fram kom.

Mér fannst hins vegar, á fundunum sem þessir aðilar mættu á, eins og þessir aðilar vildu sem allra minnst um sín samráð tala og vildu helst láta líta út sem upp úr hefði slitnað. Ég skal ekki dæma um hvað rétt er í þeim efnum, en þegar þeir voru hins vegar spurðir að því á þessum fundum hvort þeir hefðu sjálfir einhverjar tillögur til úrbóta eða hefðu tillögur sem þeir teldu að gætu lagfært það sem úrskeiðis hafði farið við greiðslu láglaunabótanna á s.l. ári, þá var nú fátt um svör í þeim efnum og þeir höfðu ekki heldur neinar tillögur um hvernig þeir teldu réttast að með skyldi fara þegar til láglaunagreiðslna kæmi á árinu 1983, þ.e. á þessu ári. Mér virtist að þessir aðilar hefðu ekki heldur áhyggjur af því, hvort ríkisstj. hefði aflað sér lagaheimildar til greiðslu láglaunabóta 1983, en það kom hins vegar fram í fjh.- og viðskn. að nm. efuðust um að svo væri.

Ég gat þess hér áðan að við hefðum viljað skoða þetta mál nokkru betur þegar störfum í fjh.- og viðskn. lauk. M.a. gerðum við fsp. til fjmrn. um hverjar væru skoðanir þess. Hæstv. fjmrh. hefur svarað þessu sjálfur og lítur svo á, að í 4. gr. fjárl., að mig minnir lið 09 990, þar sem eru 130 millj. kr. til efnahagsaðgerða, sé um að ræða heimild til greiðslu láglaunabóta. Vissulega er þar um að ræða heimild til greiðslu láglaunabóta. Vissulega er þar um að ræða 130 millj. kr. til ráðstafana í efnahagsmálum, en einhvern veginn held ég að það hljóti að mega gera ráð fyrir að nánari till. þurfi að koma til að það fé verði notað til greiðslu þessara bóta og auðveldasti leikurinn, ef samþykkt verður hér frv. til brbl., fyrir ráðh. að afla sér slíkrar heimildar. Féð er fyrir hendi. Það hefur enginn efast um það.

Á fyrri stigum þessa máls var leitað til prófessors Sigurðar Líndals um það, hvernig skilja bæri ákveðin ákvæði brbl. Niðurstaða hans varð til þess að gerð var breyting á brbl. í Ed. varðandi tímasetningu á skerðingu launavísitölunnar. Í grg., sem Sigurður Líndal prófessor lét frá sér fara, víkur hann sérstaklega að því hvernig með brbl. er verið að framselja vald Alþingis til framkvæmdavaldsins. Mér fannst eðlilegast að leita álits prófessors Sigurðar á þessu máli og honum var í morgun ritað bréf þar sem leitað var eftir skoðun hans, eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Sú ósk hefur verið borin fram í fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis, að þér, í framhaldi af greinargerð yðar frá 9. des. s.l., létuð nefndinni í té skoðun yðar á því, hvort fyrir hendi séu næg lagafyrirmæli til greiðslu bóta til láglaunafólks á árinu 1983 að upphæð 125 millj. kr., en lagafyrirmælin um greiðslu láglaunabóta 1982 er að finna í 2. gr. brbl. frá 21. ágúst 1982.

Ákvæði um láglaunabætur 1983 er ekki að finna að dómi fyrirspyrjanda, en á hefur verið bent, að í fjárlögum 1983, 4. gr., lið 09 990, er greiðsluheimild til efnahagsaðgerða að upphæð 130 millj. kr. Nm. eru að sjálfsögðu reiðubúnir til viðræðna um þetta atriði og nánari útskýringa, ef þörf er á að yðar dómi.

Þá er yður sent bréf fjmrn., dags. 28. júní s.l., varðandi efnisatriði þetta með ósk um skriflegt svar yðar við fyrsta hentugt tækifæri.

Virðingarfyllst,

f. h. fjárhags- og viðskiptanefndar“.

Og undir það ritar Guðmundur J. Guðmundsson, varaformaður n., sem stýrði fundinum.

Mér finnst eðlilegt að úr þessu fáist skorið. Að vísu kveður hér ekki upp dóm neinn háskólaprófessor, það er mér ljóst. Hitt er ljóst, að skoðun hans á málinu er að mínum dómi óvilhöll. Eins og oft áður er leitað til þeirra manna sem þessi vísindi kenna og það hafði verið leitað til Sigurðar áður og því fannst mér eðlilegast að á því yrði framhald.

Þegar unnið var að þessu frv. var leitað til þeirra aðila annarra sem hagsmuna höfðu og hafa að gæta. Þá komu til fundar við fjh.- og viðskn. fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna og Sambands skreiðarframleiðenda og var sérstaklega rætt við þá um þá brtt. sem sjútvrh. hafði gert varðandi ráðstöfun gengismunar. Það var enginn vafi á hver var afstaða þessara manna. Formaður Landssambands ísl. útvegsmanna lýsti andstöðu sinni við þessa brtt. Hann benti m.a. á, að búið hefði verið að ganga frá því hvernig ráðstafa skyldi þessum gengismun og hann leit svo á, að hér væri um að ræða brigð á því sem samkomulag hefði náðst um. Hann gat þess að hann hefði látið hæstv. sjútvrh. heyra sína skoðun á þessu máli. Framkvæmdastjóri Skreiðarsamlagsins benti réttilega á, að sú upphæð af gengismun, sem ríkisstj. hygðist ráðstafa samkv. till., væri svipuð upphæð og allur gengismunurinn af skreiðarbirgðunum, milli 50–60 millj. kr. Hann benti réttilega á þá gífurlegu erfiðleika sem skreiðarframleiðendur hefðu við að glíma vegna söluerfiðleika og taldi að meiri ástæða væri fyrir stjórnvöld að bregðast við með öðrum hætti en þessum. Hann benti þá á m.a. hvað nágrannaríkisstjórnir okkar hefðu gert til að létta undir með skreiðarframleiðendum, tryggja skreiðarframleiðslu og koma í vega fyrir erfiðleika á skreiðarmörkuðum.

Á fundum nefndarinnar höfðu áður gert grein fyrir stöðu þessara mála fulltrúar frá Seðlabankanum. Þar hafði komið fram heildarupphæðin, sem gert var ráð fyrir að gengismunurinn frá í ágúst væri 20. jan. 1983 ásamt með vöxtum fyrir árið 1982, og þar var um að ræða 208 millj. kr. Síðan var gerð grein fyrir hvernig ráðstöfun hefði farið fram miðað við sama dag, og þar var gerð grein fyrir ráðstöfun upp á 110 millj. kr. Það var líka gerð grein fyrir því, hvað væri áættað óinnkomið, 85 millj. kr. Af þeim 85 millj. eru það 54 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að þær skreiðarbirgðir sem í landinu eru í dag gefi.

Hér er miðað við birgðirnar í magni. Hér er ekki hægt að miða við birgðir í verðmæti. Að sjálfsögðu er reynt að finna út verðmæti skreiðarbirgðanna, en það liggur alveg ljóst fyrir að það getur enginn um það dæmt í dag eða metið hvað fyrir skreiðina fæst. Hér er því um að ræða reikningsaðferð, en ekki raunveruleika sem hægt er að festa hendur á til þess að gera þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstj. hyggst nota í þær 50–60 millj. kr. sem hún hefur áætlað. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hæstv. sjútvrh. í þessu sambandi: Það er vitað að mjög tregt er um útflutning á skreið og það er enn verið að flytja út skreið frá árinu 1982. Ef fer sem horfir í þessum efnum verða þessir fjármunir ekki til fyrr en í fyrsta lagi seint á þessu ári, ef þeir verða þá til fyrr en á næsta ári, og þá er spurningin, hversu mikið? Ég hef því velt fyrir mér og vildi gjarnan spyrja ráðh. að því, hvort hann væri búinn að tryggja lánsfjármagn á meðan til þess að hægt væri að framkvæma það sem hann hyggst láta gera með þeirri upphæð sem hér er rætt um, hvort hann hefur tryggt sér fjármagn upp á 50–60 millj. kr. til að láta Byggðasjóði í té svo að hann geti lánað það fyrirtækjum þeim sem í miklum erfiðleikum eiga um þessar mundir. Mér sýnist ekki hér vera annað hægt að gera en prenta seðla. Það má vel vera að það verði gert og það sé hugsun hæstv. sjútvrh. að haldið verði áfram á þeirri leið sem núv. ríkisstj. hefur gengið í seðlaprentun með einum eða öðrum hætti.

Eins og ég sagði áðan höfðu mætt á fundum nefndarinnar fulltrúar Seðlabankans og Framkvæmdastofnunarinnar. Fulltrúar Seðlabankans mættu til að gera grein fyrir stöðu gengismunarsjóðs frá því í ágústmánuði. Fulltrúar Framkvæmdastofnunarinnar mættu hins vegar til að ræða við nm. um það, með hvaða hætti hugsað væri í sambandi við ráðstöfun á gengismun sem hér var vikið að áðan.

Það kom fram hjá fulltrúa Seðlabankans, það vil ég mjög gjarnan undirstrika, að yrði framkvæmd á ráðstöfun gengismunar samkv. því sem sjútvrh. leggur til og ríkisstj. hefur samþykkt væri um einsdæmi að ræða. Ráðstöfun gengismunar út fyrir sjóði og stofnanir sjávarútvegsins og fiskframleiðslunnar hefur ekki áður gerst. Vissulega gáfu þessar umr., sem fram fóru á nefndarfundi fjh.- og viðskn., ástæðu til ítarlegrar umfjöllunar og athugunar og hefði verið ástæða til að fá þar fram af hálfu ríkisstj. eða fulltrúa hennar tillögur til breytinga, en eins og þar var sagt og áður er hér fram komið var ekki um neitt slíkt að ræða.

Allar ráðstafanir núv. ríkisstj. í efnahags- og atvinnumálum hafa verið bráðabirgðaráðstafanir og meira að segja engar ráðstafanir verið gerðar öðruvísi en með brbl. Gjarnan hafa fylgt yfirlýsingar ríkisstj. og einstakra ráðh. um betri tíð og blóm í haga, þegar tími hefði gefist til að vinna að heildartillögum til lausnar aðsteðjandi vandamálum. Nú er svo komið, að þegar nálgast alþingiskosningar og þegar ríkisstj. heldur á næstu dögum upp á þriggja ára afmælið hefur útlitið aldrei verið jafndökkleitt og nú. Enda þótt ytri aðstæður hafi verið okkur óhagstæðar að undanförnu er öllum ljóst að stefnuleysi og fálmkenndar bráðabirgðaráðstafanir ríkisstj. eru höfuðorsök þess hvernig komið er. Frá því að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við völdum í sept. 1978 hafa efnahagsráðstafanir ríkisstjórna verið launaskerðing, skattahækkanir, erlendar lántökur, aukin ríkisumsvif. Núv. ríkisstj. hefur ekkert legið á liði sínu í þessum efnum og nú blasir við yfir 70% verðbólga og talið að erlendar skuldir muni nema í árslok um 55% af þjóðarframleiðslu yfirstandandi árs vegna óhóflegrar notkunar stjórnvalda á erlendu lánsfé.

Eins og áður segir hefur ríkisstj. með bráðabirgðaráðstöfunum sínum reynt að bjarga einhverju, en það hefur, eins og ráðh. sjálfir hafa sagt ævinlega, verið of lítið, komið of seint og skakkt verið að farið. Mergurinn málsins er hins vegar sá, að engar raunhæfar tillögur hafa verið lagðar fram, einfaldlega vegna þess að um það hefur ekki náðst nein samstaða. Og beri menn saman þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið á undanförnum árum, þá geta menn auðveldlega séð að ekkert af þeim fyrirheitum sem þar voru birt hafa komið til framkvæmda.

Það skorti ekki heldur á fyrirheitin, upptalningu þeirra, þegar þau brbl. sem hér eru til umr. voru sett.

Það var hvorki meira né minna en 21 atriði sem skyldi nú tekið til sérstakrar meðferðar og átti að sjálfsögðu að verða til þess að koma á betri skikkan í atvinnumálum og efnahagsmálum. Reynslan sýnir okkur að við stöndum ekki aðeins í stað eftir sex mánuði, heldur hefur okkur miðað nokkuð aftur á bak. Hvað staðfestir betur stjórnleysi og stefnuleysi núv. hæstv. ríkisstj. en þær staðreyndir sem við blasa?

Í brbl. var skerðing verðbótavísitölu. Það var skerðing verðbótavísitölu í þrettánda sinn frá því að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við 1978. Þeir aðilar sem hvað hæst höfðu 1978 um samningana í gildi hafa nú staðið fyrir um 50% verðbótaskerðingu frá árinu 1978, enda þótt grunnkaupshækkanir hafi numið um 30%.

Því hefur verið haldið fram af stjórnarsinnum, að ráðstafanir brbl. væru svipaðs eðlis og þær ráðstafanir sem ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar beitti sér fyrir vorið 1978. Því fer víðs fjarri, því að þær ráðstafanir voru samræmdar efnahagsráðstafanir og það skiptir auðvitað öllu máli. Þegar liða tók á árið 1978 sýndi sig að þær báru árangur, en þegar stjórnarskipti urðu var dæminu snúið við, enda komin vinstri stjórn í landinu.

Þær ráðstafanir, sem gripið var til 1978, voru afleiðingar af samningum um mjög miklar grunnkaupshækkanir á skömmum tíma. Því var ekki til að dreifa nú, þegar þessar ráðstafanir eru gerðar. Þegar í ljós kom þá að í óefni stefndi með slíkar grunnkaupshækkanir var gripið inn í af stjórnvöldum með takmarkaðri skerðingu vísitöluverðbóta. En það var ekki gert með brbl., heldur var málið lagt fyrir Alþingi og eðli málsins samkvæmt rætt þar, og komu þær ráðstafanir ekki til framkvæmda fyrr en Alþingi hafði haft þær til meðferðar og þm. fengið tækifæri til að afla allra gagna og tíma til umr.

Nú eru gefin út brbl., þegar ekkert knúði til þeirrar útgáfu og vitað var þar að auki að ríkisstj. hafði ekki lengur meiri hluta í Nd. Alþingis. Útgáfa brbl. í ágústmánuði um aðgerðir 1. des. sýnir allt og segir allt um hvers vegna gripið er til þessara ráðstafana. Það eðlilega hefði að sjálfsögðu verið, að fyrir Alþingi hefði verið lagt frv. þegar það kom saman 10. okt., það frv. verið rætt hér og þingið fengið tækifæri á því að láta skoðun sína í ljós áður en frv. kæmi til framkvæmda.

Ég vil ennfremur benda á að 1978 var í sambandi við vísitöluskerðingu verðbótaauki, sem var í gildi til viðbótar venjulegum verðbótum á laun. Nú hefur þróunin hins vegar leitt í ljós, að þrátt fyrir mótmæti launþegasamtakanna 1978 hafa launþegasamtökin nú sætt sig við niðurfellingu verðbótaauka, sætt sig við skerðingu á verðbótavísitölu samkv. efnahagslögunum frá 1979 með skerðingaráhrifum eða þrettán sinnum skerðingu á verðbótavísitölu frá 1978. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessa breyttu stefnu launþegasamtakanna sýnir sig að efnahagslífið, atvinnulífið var aldrei verr komið en nú.

Til þess að bæta þeim lægst launuðu þá skerðingu sem þeir urðu fyrir var ákveðið að verja 175 millj. kr. til láglaunabóta, 50 millj. á s.l. ári og 125 millj. á árinu 1983. Eins og fram kom fyrr í minni ræðu hefur komið upp mikil gagnrýni á þær reglur og þá framkvæmd, sem við hefur verið höfð á greiðslu láglaunabóta, og því mjög vafasamt að þær hafi komið að tilætluðu gagni, að þeir hafi fengið þær bætur sem þær þurftu helst að fá. Og það sem mér sýnist vera miklu verra er það að ekki eru uppi neinir tilburðir til að koma fram lagfæringu í þessum efnum. Það eru ekki uppi neinir tilburðir til að breyta þeirri reglugerð sem gildir um úthlutun láglaunabóta þannig að það megi við úthlutunina síðar á þessu ári taka mið af því og afla heimilda til þess að óyggjandi sé sú heimild sem fyrir hendi er.

Þetta er annar stærsti þáttur þessara efnahagsaðgerða, það er skerðing vísitölunnar 1. des., og það orðað í grg. með frv. að það sé þannig að farið til að draga úr víxlgangi kauplags og verðlags og þá til að ná árangri í efnahagsmálunum, til þess að draga úr verðbólgunni. Á sama tíma og þetta er gert, lögfest er helmingslækkun verðbóta 1. des. til þess að draga úr verðbólguhraðanum, hækkar ríkisstj. vörugjaldið, sem leiðir af sér vöruverðshækkun á ýmsum neysluvörum fólksins í landinu. Það er gert undir því yfirskini að afla tekna til greiðslu láglaunabóta. Hér er enn einu sinni á fölskum forsendum verið að afla ríkissjóði tekna til að auka enn á ríkisumsvifin. Sú fjárhæð, sem hækkun vörugjalds skilar ríkissjóði, mun á gildistímanum skila tvöfaldri þeirri upphæð sem brbl. og yfirlýsing ríkisstj. gera ráð fyrir að greidd verði í láglaunabætur á árunum 1982 og 1983. Þessi þáttur brbl. er að sjálfsögðu í algerri mótsögn við þann tilgang sem sagður er vera með lögunum, enda hefur árangurinn bersýnilega sýnt sig í því, eins og kom fram áðan, að horfurnar í dag eru metnar þannig að við stöndum verr en við stóðum í ágústmánuði, þegar þessi brbl. voru gefin út. Slíkar vinnuaðferðir, slíkar tillögur dæma sig því sjálfar.

Í sambandi við gengisbreytinguna, sem gerð var, var nú gengismunur, eins og stundum áður, gerður upptækur og honum ráðstafað sérstaklega. Hvort það er rétt eða röng ráðstöfun, hvort rétt getur verið í eitt skipti en rangt í annað skipti, skal ósagt látið. Það sem mestu máli skiptir er að slík ráðstöfun hefur allajafnan verið með sæmilegu samkomulagi við þá sem telja sig eiga tilkall til gengismunar.

Það er ljóst að ráðstöfun gengismunar hefur ætíð verið innan atvinnugreinarinnar, sjóða hennar eða stofnana, svo sem til Fiskveiðasjóðs, Stofnfjársjóðs, Verðjöfnunarsjóðs og Lífeyrissjóðs sjómanna. Í þessum brbl. er gert ráð fyrir að svo verði, þó með undantekningum sem aðilar sýnast hafa orðið sammála um. Þessir aðilar, sem hér um ræðir og brbl. gera ráð fyrir að njóta skuli gengismunar að þessu sinni, eru innan sjávarútvegsins og það er því með hefðbundnum hætti sem þessu fjármagni er ráðstafað eða tillögur gerðar þar að lútandi. Þegar málið er til umr. í Ed. gerir sjútvrh. grein fyrir hugmynd sinni og flytur brtt. við 1. umr. í síðari þd. Sjútvrh. lýsir þar samþykkt ríkisstj. á ráðstöfun hluta gengishagnaðar og flytur brtt. sem felur í sér að nokkrum hluta gengishagnaðar verði ráðstafað til Byggðasjóðs, um 50–60 millj. kr., er láni sjávarútvegsfyrirtækjum sem eiga í miklum erfiðleikum. Við endurgreiðslu lána renni helmingur lánanna til Fiskveiðasjóðs, en hinn helmingurinn til Byggðasjóðs til eignar.

Það er á allra vitorði, að Framkvæmdastofnun hefur að undanförnu, á s.l. ári, unnið að því að aðstoða ýmis fyrirtæki, sem hafa átt í miklum erfiðleikum. Ef ég man rétt, munu um 73 millj. kr. hafa verið lánaðar til fyrirtækja á s.l. ári og það af lántöku Byggðasjóðs eða Framkvæmdasjóðs. Hér er lagt til að þau fyrirtæki, sem sum hver hafa fengið fyrirgreiðslu, fái enn fyrirgreiðslu, en fjölmörg önnur fyrirtæki hafa ekki haft tækifæri til að fá þá aðstoð sem nú er lagt til að gengismunur verði notaður til.

Ég verð að segja að mér finnst nokkuð furðulegt að inn á þessa braut skuli farið. Í fyrsta lagi er deilt um hvort taka eigi gengismun, hvort ástæða er til að hreyfa þar við nokkru. Ég tala nú ekki um, eftir að mikill hluti lána sem sjávarútvegurinn hefur eru orðin verðtryggð. Það má vel vera að hér áður fyrr hafi mönnum fundist eðlilegt að hluti gengismunar rynni ekki til viðkomandi útflutningsgreinar, en eins og nú er komið er mjög vafasamt hvort slíkt er réttlætanlegt.

Það hefur þó verið fallist á þetta undir þeim kringumstæðum að fjármagnið renni til aðstoðar innan sjávarútvegsins, stundum til Verðjöfnunarsjóðs, til Fiskveiðasjóðs, til Stofnfjársjóðs eða til Lífeyrissjóðs sjómanna. Það að ætla sér að ráðstafa gengismun út fyrir atvinnugreinina eru ráðstafanir sem ég held að menn ættu mjög að endurskoða áður en þeir grípa til þeirra. Ég beitti mér fyrir því að fá skoðun á því í Seðlabankanum hver staða þessara fyrirtækja væri í sambandi við skreiðarbirgðir og hvort ekki væri í raun og veru verið að taka gengismun af fyrirtækjum til að láta Byggðasjóð hafa til að lána sömu fyrirtækjum í verðtryggðu láni. Þetta er, sýnist mér, skollaleikur sem ekki á að viðhafa. Væri ekki skynsamlegra, ef menn eru reiðubúnir til þess, að nýta 54 millj., eða það sem ætla má að komi af gengismun vegna skreiðarinnar, til þess að aðstoða skreiðarfyrirtækin? Okkur er ekkert nauðsynlegra en halda áfram skreiðarframleiðslu, halda mörkuðum. Það gerum við ekki öðruvísi en aðstoða þessa aðila þegar árar eins og nú.

Við fengum greinargerð frá Seðlabankanum, sem birtist með sem fskj. Við fengum ennfremur lista hjá Framkvæmdastofnuninni yfir fyrirtæki sem fengu lán þar á s.l. ári. Þar var nokkuð hægt að sjá hvað voru bein lán og hvað var breyting á lánum sem fyrirtækin höfðu fengið áður. Nú óskum við eftir að fá að sjá hver er staða þessara fyrirtækja, sem ætlað væri að lána gengismun vegna skreiðar. Eru fyrirtækin þannig stödd að búast megi við að þau geti endurgreitt verðtryggð lán, sem ætlað er að lána þeim, eða er í raun og veru verið að taka gengismun af skreið til þess að gefa einhverjum fyrirtækjum, sem vitað er að þau geta ekki greitt? Mér sýnist þetta vera í raun og veru. Þegar þetta er skoðað ofan í kjölinn hlýtur dæmið að vera þannig, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki gert sér grein fyrir hvað fylgdi þessu öllu.

Ég lýsi andstöðu við þessa brtt. Ég held að það skynsamlegasta væri að hún yrði dregin til baka og að hæstv. sjútvrh. reyndi að ná samstöðu við aðila innan sjávarútvegsins um það, með hvaða hætti ráðstafa skuli afgangi gengismunar, ef um afgang er að ræða, en samkv. brbl. er gert ráð fyrir að það sem eftir stendur, þegar upptalningu lýkur, renni til Stofnfjársjóðs. Hafði verið gert ráð fyrir því í ágústmánuði að um 30 millj. væri að ræða, en samkv. því sem nú hefur verið sagt er um að ræða 20 millj. kr. mismun á stofninum frá ágústmánuði, þannig að í staðinn fyrir 140 millj. hefði í raun og veru mátt ætla gengismun upp á 160 millj. kr. Með vöxtum eru það 20. jan., eins og ég sagði áðan, 208.5 millj. kr. Ég teldi mun skynsamlegra, ef menn vilja halda sér við það að Stofnfjársjóður fái 30 millj. eða það sem ætlað var á sínum tíma, að ráðh. beitti sér fyrir því að þessi upphæð verði notuð með einum eða öðrum hætti til að veita vissa tryggingu í sambandi við útflutning skreiðar, en enn þá er staðan þannig, að útflutningur skreiðar frá árinu 1982 er engan veginn hafinn.

Ég sé að hæstv. fjmrh. er ekki hér í salnum. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann hvort hann nú væri tilbúinn að gera grein fyrir einhverjum brtt. í sambandi við láglaunabætur og greiðslu láglaunabóta á þessu ári, hvort hann teldi að það væri ekki rétt að gera grein fyrir því hér, því vissulega hefur það starf, sem unnið hefur verið af hans rn. í þessu máli, fengið mikla gagnrýni. Meira að segja lét hann sjálfur hafa það eftir sér að honum kæmi ekkert á óvart þó eitthvað færi úrskeiðis þegar svo gífurlega stór hópur ætti í hlut. Þeir sem hafa látið í sér heyra eru fulltrúar launþegasamtakanna, ýmist frá Alþýðusambandinu, Verkamannasambandinu eða Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, og þetta eru forsvarsmenn þeirra aðila sem þessar bætur áttu helst að fá. Ekki er óeðlilegt þó að hann sé spurður að því hér hvort hann hafi nokkru við það að bæta sem fram kom hjá starfsmönnum hans á nefndarfundum, en þeir höfðu þar engar brtt. eða neinn boðskap frá ráðh. í sambandi við þá gagnrýni sem fram hafði komið.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fjölyrða meira um þetta frv. Ég tel að ég hafi hér gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem að vísu hafa áður komið fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Ég vék að því áðan að ég væri andvígur þeirri brtt. sem hæstv. sjútvrh. hefur flutt. Ég mæltist til þess að hann skoðaði það mál betur. Ég benti á, að það sem þar er verið að gera er einsdæmi, að sögn þeirra manna sem gerst þekkja hvað varðar ráðstöfun gengismunar í marga áratugi. Ég held að skynsamlegra væri að koma lagfæringum fram í sambandi við gengismun skreiðarinnar og láta þá, sem þar eiga í erfiðleikum, njóta þess.

Ég sagði áðan, hæstv. fjmrh., að ég teldi ekki óeðlilegt að við þessa umr. málsins fengju þm. að heyra hvort ráðh. hefur á prjónunum einhverjar breytingar í sambandi við láglaunabæturnar með tilliti til þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið. Eins og ég skýrði frá voru starfsmenn rn. inntir eftir því í n., þegar um málið var fjallað þar, en þeir tjáðu okkur að þeir hefðu ekki vitneskju um neinar slíkar breytingar. Mér finnst því eðlilegt að fá tækifæri til að heyra frá ráðh. hér, hvort á þessu hefur orðið nokkur breyting, um leið og ég ítreka þessa fsp. mína til hæstv. sjútvrh.: Ef hann hugsar sér að halda við þá ráðstöfun á gengismun, sem hann gerði till. um, og lagaheimildir fást til þess að það geti gerst, þá vantar fjármagn, því að ég á ekki von á því að gengismunur af skreið sé kominn inn á næstu vikum, en hefur ráðh. gert ráðstafanir til að útvega lánsfé eða er það annarra, sem bjarga á af hálfu Byggðasjóðs, að ganga með yfirlýsingu frá ríkisstj.,um að þegar skreiðin verður seld muni ríkisstj. senda tékka til Byggðasjóðs og af honum verði aðstoðin veitt, og út á þetta eigi fyrirtækin síðan að útvega sér fjármagn?