31.01.1983
Neðri deild: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til að lengja þessa umr. um frv. til l. um efnahagsaðgerðir, enda lýsti formaður þingflokks Alþfl. því yfir hér á föstudag, þegar þetta mál var til umfjöllunar, að við mundum ekkert gera, Alþfl.-menn, til að tefja afgreiðslu þessa máls. Ég kem hér upp í ræðustól að gefnu tilefni til að beina einni ákveðinni spurningu til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar.

Ég ætla ekki að ræða efnislega um frv. sjálft, en ég tel að það sé rétt að fram komi afstaða Guðmundar J. Guðmundssonar miðað við hans fyrri yfirlýsingar varðandi þetta frv. Fyrri yfirlýsingar hans frá því fyrir áramótin, sem hægt er að vitna til í fjölmiðlum, voru á þá leið að það væri ýmislegt sem þyrfti að koma fram hér á Alþingi og fást samþykkt ef hann ætti að greiða þessu frv. atkv. sitt. Hér höfum við á borðum okkar nál., sem m.a. hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson skrifar undir. Ekki er að finna í því nál. að hann hafi neinn fyrirvara á sinni afgreiðslu varðandi það mál sem ég sérstaklega vil gera hér að umtalsefni.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson talaði um það fyrr í vetur í fjölmiðlum, að það væri ýmislegt sem þyrfti að koma fram í sambandi við þessi brbl. Þar átti hv. þm. við m.a. frv. um orlof, sem nú hefur orðið að lögum, og eins minntist hv. þm. á lánskjaravísitöluna, þ.e. samræmingu kaupgjaldsvísitölu og lánskjaravísitölu, þannig að greiðslubyrði lána hækkaði ekki meira en sem nemur hækkun launa. Ég vil með leyfi forseta vitna hér í ummæli Guðmundar J. Guðmundssonar, sem komu fram í Þjóðviljanum. Fyrirsögnin er á þessa leið:

„Mun Guðmundur J. Guðmundsson styðja brbl.“ Síðan er haft eftir honum orðrétt, með leyfi forseta: „Ég set því það að skilyrði, að verði það meginatriði ekki virt, að meiri byrðar verði lagðar á aðra en láglaunafólk, mun ég standa fastur á því að greiða atkv. gegn brbl. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna það og ég geri það að stóru máli, að lánskjaravísitala verði látin fylgja kaupinu, þannig að verkafólk geti staðið undir þeim dýru lánum sem það neyðist nú til þess að taka.“

Það þarf ekki að orðlengja það, að það skiptir mjög verulegu máli fyrir launafólk, og húsbyggjendur kannske sérstaklega, að þetta mál verði leiðrétt. Fyrir Alþingi liggur nú frv. um þetta mál, sem var lagt hér fram í októbermánuði og hefur legið lengi fyrir fjh.- og viðskn. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson á sæti í fjh.- og viðskn. Það hefðu því átt að vera hæg heimatökin fyrir Guðmund J. Guðmundsson að spyrjast fyrir um þetta frv. í fjh.- og viðskn. um leið og fjh.og viðskn. fjallaði um brbl. Þar sem ég hef leitað fyrir mér í því máli hef ég frétt það, að hann hafi ekki gert tilraun til þess að fá málið afgreitt út úr nefnd. Það má vera að það sé rangt. Þá leiðréttir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson það hér á eftir. En ég vænti þess að hann svari minni spurningu.

Því er mín spurning til Guðmundar J. Guðmundssonar: Ætlar Guðmundur J. Guðmundsson að greiða atkv. með brbl. núna þegar þau koma til atkv. án þess að frv. varðandi lánskjaravísitöluna hafi verið samþykkt? Það er spurning um það, hvort Guðmundur J. Guðmundsson ætlar að standa við það sem hann hefur sagt í þessu máli hér áður.