27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

28. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er hér fram komið og vil lýsa stuðningi við að það verði gert að lögum fyrir áramót, en þá með vissum breytingum.

Ég tel að það fari ekki milli mála að Framkvæmdasjóður aldraðra hlýtur að vera ætlaður til uppbyggingar á mannvirkjum sem þjóna öldruðum vítt og breitt um landið. Það ber keim af nýlendustefnu að skattleggja allt landið til að veita fjármagni í byggingar á aðeins örlitlu svæði af landinu. Og sú ákvörðun, sem tekin var um dreifingu fjármagnsins fyrir þann skatt sem þegar er á lagður, er í sjálfu sér stórkostlegt hneyksli. Það liggur við að það megi segja að fjmrh. og félmrh. hafi stolið sjóðnum og fært hann inn á fjárlög undir lið til sjúkrahúsa. Það gerði enginn maður, sem samþykkti þessi lög úr hópi almennra þm., ráð fyrir að þessir peningar yrðu settir undir þann lið í framkvæmd. Að það skuli geta gerst, að menn taki sér það vald að ætla að fara að úthluta 5 ár fram í tímann þessum fjármunum og dreifa þeim eins og tillögurnar gera ráð fyrir, finnst mér alveg forkostulegt. Í ljósi þeirrar reynslu tel ég að sjóðsstjórnin, eins og gert er ráð fyrir hér í 11. gr., eigi engan rétt á sér. Persónulega teldi ég langeðlilegast að það væri fjvn. Alþingis sem sæi um dreifingu á þessu fjármagni. Þá er það í samræmi við dreifingu á öðrum sköttum sem við erum að innheimta. Það er Alþingi sem ber ábyrgð á hvernig þeim er dreift, en ekki gefið að það verði eitthvert geðþóttavald ráðh. og billegt kjördæmapot sem komi þar inn í málið, eins og virðist hafa orðið með þessa fjármuni, sem búið er að úthluta.

Ég vil taka undir það, sem hv. 6. landsk. þm. sagði um þetta mál, og jafnframt taka undir það, sem 1. þm. Vestf. sagði áðan um þetta mál, en ég vil bæta því við, af því að það kom sérstaklega fram hjá ráðh. að hann legði á það höfuðkapp að fjármögnun húsnæðis til aldraðra ætti að vera einföld og skýr, það voru hans óbreyttu orð úr ræðustól rétt áðan, að mér finnst að hann ætti að svara því þá á einfaldan og skýran hátt hvernig hann telur að fjármagna eigi íbúðabyggingar þær sem Ísafjarðarbær hefur látið byggja fyrir aldraða og í annan stað, hversu hátt hlutfall hann telur að eigi að koma af opinberu fé undir slíkum kringumstæðum.