01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Þessi ítarlega umr., sem hv. 5. þm. Vestf. hóf hér um rafmagnsverð, er utandagskrárumr. Ég hefði kosið að vita af þessari umr. fyrir fram, þannig að ég hefði getað haft með mér frekari gögn til að gefa nánari skýringar á afkomu og verðlagningu Landsvirkjunar á rafmagni, en ég tel mér það nokkuð skylt þar sem ég á sæti í stjórn þessa fyrirtækis.

Þessar umr. hafa að vísu farið nokkuð vítt og breitt. Menn hafa rætt um verðlagningu þjónustufyrirtækja almennt, menn hafa rætt um álsamningana og áhrif þeirra á afkomu Landsvirkjunar og fleiri atriði hafa spunnist inn í þessar umr., sem vissulega væri ástæða til að gera að umtalsefni.

Ég ætla hins vegar að byrja á að ræða nokkuð um verðlagsþróun á gjaldskrá Landsvirkjunar, þ.e. hver hefur verið þróun á rafmagnsverði í heildsölu til almenningsveitna frá Landsvirkjun.

Landsvirkjun hefur undanfarin ár verið rekin með halla og það er löng saga, sem á engan hátt verður eingöngu rakin til hæstv. ríkisstj. sem nú situr. Ég rifja það upp, að þegar áætlanir voru uppi um að byggja Sigölduvirkjun og þegar áætlanir voru uppi um að byggja Hrauneyjafossvirkjun gerði stjórn Landsvirkjunar þá eindregnu tillögu að verðlagningu raforku og fjármálum fyrirtækisins skyldi hagað á þann veg að 20% af fjárfestingarkostnaði þessara virkjana yrðu greidd úr rekstri, þ.e. yrðu greidd með eigin fjármögnun. Ástæðan var auðvitað sú, sem menn sáu fyrir, að ef sú yrði þróunin að taka þyrfti erlend lán til þess að greiða byggingarkostnað þessara virkjana 100%, eins og reyndar varð raunin með Búrfellsvirkjun, mundi það, þegar fram liðu stundir, skapa mikil og illleysanleg vandamál varðandi fjárhag þessa fyrirtækis. Á þetta var hins vegar ekki hlustað. Gjaldskrá Landsvirkjunar var ár eftir ár haldið niðri á sama hátt og gjaldskrám annarra þjónustufyrirtækja, sem bæði ríki og sveitarfélög eiga og reka, og í stað þess var fyrirtækinu bent á að fjármagna allan sinn framkvæmdakostnað með erlendum lánum.

Þessar erlendu lántökur hafa að sjálfsögðu leitt til þess, að rafmagnsverðið hefur þurft að hækka til almenningsveitna nokkurn veginn í samræmi við gengisþróunina á hverjum tíma. Það er eðli raforkuvera, að langstærsti hlutinn af reksturskostnaði þeirra er fjármagnskostnaður. Þegar slíkt fyrirtæki þarf að taka 100% lán til að greiða með sínar framkvæmdir liggur í augum uppi að útgjöld fyrirtækisins verða nokkurn veginn í samræmi við gengisþróunina. Við vitum öll hvernig gengisþróunin hefur verið á síðasta ári. Hæstv. ríkisstj. hefur haldið þannig á efnahagsmálum þessa lands að hækkun dollarans á síðasta ári var um 103% og ef við tökum eðlilega vexti af hinum erlendum lánum er hér um að ræða um það bil 115% vexti sem þetta fyrirtæki þurfti að greiða á síðasta ári. Það gefur auga leið að ekkert fyrirtæki stenst það til lengdar án þess að fá að uppi borið í sínum gjaldskrám.

Ég hef hér í höndunum línurit sem sýnir þróun rafmagnsverðs hjá Landsvirkjun, þ.e. heildsölugjaldskrár, frá árinu 1971 til 1982 miðað við vísitölu byggingarkostnaðar. 1971 er fyrsta heila árið eftir að Búrfellsvirkjun tók til starfa. Við getum séð á þessari mynd að öll árin er heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar langt fyrir neðan byggingarvísitöluna, þannig að öll þessi ár hefur Landsvirkjun þurft að bera uppi á annan hátt en í gjaldskrá þann kostnað sem hún hefur þurft að leggja í. Meira að segja allt síðasta ár, þó að menn hafi sýnt hér fram á í prósentum að gjaldskrá Landsvirkjunar hafi hækkað allmikið, var rafmagnsverð að tiltölu lægra árið 1982 en það var árið 1971. Það er fyrst með hækkun í lok ársins 1982 sem rafmagnsverðið fer nokkurn veginn í línu við byggingarvísitöluna eins og hún var 1971, og með hækkuninni í ársbyrjun 1983 fer þetta aftur nokkurn veginn í sama farveg. Það er mjög eðlilegt að miða við byggingarvísitölu einmitt hjá fyrirtæki eins og Landsvirkjun, vegna þess að þetta fyrirtæki hefur staðið í stöðugum framkvæmdum allt þetta tímabil, byggt hverja virkjunina á fætur annarri, þannig að þróun byggingarkostnaðar eða byggingarvísitalan er að sjálfsögðu sá mælikvarði sem helst verður miðað við þegar rætt er um kostnað Landsvirkjunar.

Það er þess vegna rangt, þegar menn halda því fram, og í því eru fólgnar miklar blekkingar, að hið háa rafmagnsverð eigi rætur að rekja til þess að stór hluti af rafmagninu sé seldur til stóriðju hér á landi. Ég hef sýnt hér fram á með þessu línuriti, að rafmagnið frá Landsvirkjun var allt síðastliðið ár lægra en það var árið 1971, og þegar menn tala um að hér sé verið að greiða einhvern sérstakan skatt til niðurgreiðslu á rafmagni til stóriðju er það auðvitað blekking.

Við skulum alveg átta okkur á því, að tekjur Landsvirkjunar af rafmagnssölunni til ÍSALs hækka að sjálfsögðu líka í samræmi við gengisþróun. Þegar talað er um að heildsöluverð Landsvirkjunar hafi hækkað á árinu 1982 um 119% skulum við líka hafa í huga að tekjur Landsvirkjunar, gjaldskrá til ÍSALs í íslenskum krónum, hækka um 103% á s.l. ári. Það eru því ótrúlegar blekkingar þegar menn eru að bera saman hækkun innanlands, sem stafar að mestu leyti af gengislækkun, og segja svo að á móti hafi verðið til ÍSALs staðið í stað. Það er ekki hægt að bera annars vegar saman dollara og svo íslenskar krónur að þessu leyti. Það er ekki hægt að bera saman gjaldskrá í dollurum til ÍSALs og gjaldskrá í íslenskum krónum til almenningsveitna. Það verður að fá sambærilegar tölur og eðlilegan samanburð til að hægt sé að finna út hvað þarna hefur raunverulega verið að gerast.

Skrif Þjóðviljans um þessi mál, um gjaldskrármál Landsvirkjunar og þróunina eins og hún hefur verið undanfarin ár, eru með ólíkindum og í þeim eru fólgnar miklar blekkingar. Þar eru bornar saman alls ósambærilegar tölur, alls ósambærilegar gjaldskrár, ýmist í dollurum eða íslenskum krónum, allt vísvitandi til þess að rugla fyrir fólki. Og ég segi: Sá hæstv. iðnrh., hver sem hann er, sem þarf að styðjast við svo óheiðarlegan málflutning, eins og fram hefur komið um þessi mál í Þjóðviljanum undanfarna daga, hefur ekki góðan málstað að verja.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að skýra hér með nokkrum orðum hver raunveruleg þróun hefur orðið í gjaldskrármálum Landsvirkjunar undanfarin ár. Mér er að sjálfsögðu fullkomlega ljóst að hækkun á rafmagnsverði til álversins mundi færa Landsvirkjun miklar og kærkomnar tekjur, enda hefur ekki verið ágreiningur um það, og það hefur margoft verið fram tekið hér á hv. Alþingi, að endurskoða beri rafmagnssamningana við ÍSAL eða við svissneska álfélagið. Það mál hefur oft verið rætt hér og um það hefur verið mikill og harður ágreiningur hér á hv. Alþingi. En um hvað hefur ágreiningurinn staðið? Hann hefur fyrst og fremst staðið um hvernig hæstv. iðnrh. hefur haldið á þessum málum.

Þessi ágreiningur hefur staðið um að langmestur meiri hluti Alþingis hefur smám saman verið að gera sér grein fyrir því, að hæstv. iðnrh. hefur ekki valdið þessu mikilvæga verkefni sínu. Hann hefur sýnt að hann hefur verið svo slakur samningamaður af Íslands hálfu að það hefur hvorki gengið né rekið í viðleitni hans til að ná nýjum samningum. Og ástæðan er einfaldlega sú, að þessi hæstv. ráðh. hefur haft rangar áherslur í þessum málum. Hann kaus það upphaflega á sínum tíma, þegar vel stóð á, þegar álverð í heiminum var hátt og á uppleið, um 2 000 dollara tonnið og orkuverð í heiminum var á uppleið og stefndi hátt, að fara í stríð við álfélagið um skattamál, sem auðvitað voru mikilvæg, en lagði megináhersluna á þann þátt málsins mánuðum og ég vil segja árum saman og keyrði þar með þessa samninga við svissneska álfélagið alveg í strand. — Og það eru ekkert ný sannindi sem ég er að segja um þetta hér á hv. Alþingi. Ég hef sagt þetta áður. Hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, 12. þm. Reykv., sem hefur starfað í þessum málum sem sérstakur fulltrúi Framsfl. með ráðh. og jafnvel fyrir ráðh. í þessum málum, ofbauð svo framkoma, getuleysi og vinnubrögð hæstv. ráðh. að hann sagði sig úr þeirri nefnd, svokallaðri álviðræðunefnd, sem átti að vera til stuðnings ráðh. í þessu máli.

Hæstv. ráðh. hefur kosið að gerast einfari í þessu máli. Hann hefur kosið að safna um sig þröngum hópi vina og flokksbræðra. Hann hefur hafnað samvinnu á breiðum grundvelli við stjórnarandstöðu og við aðra samstarfsaðila sína innan ríkisstj. Sjálfstfl. hefur t.d. hvað eftir annað boðið hæstv. ráðh. samstarf og samvinnu í þessu mikilvæga máli. Jafnoft hefur hæstv. ráðh. slegið á þau samningsboð og alls ekki viljað hafa nokkra samvinnu eða reyna í raun að efna til þjóðarsamstöðu eða þjóðarsamvinnu um þetta mikilvæga mál. Hann hefur gert slakar tilraunir einstaka sinnum til þess að efna til þjóðarsamstöðu um axarsköft sín, en að reyna að ná fram í breiðfylkingu stefnu í þessu mikilvæga máli það hefur ráðh. ekki gert. Því er komið sem komið er. Hann er nú af veikum mætti, fyrst og fremst í áróðursskyni, með vini sína og flokksbræður í þröngum hópi í kringum sig, að boða einhverjar einhliða aðgerðir, sem við vitum ekki hverjar eru, eru leyndarmál enn eins og annað sem frá þessum hæstv. ráðh. hefur komið í þessu máli.

Nú er hann að kalla enn einu sinni á nauðsyn þjóðarsamstöðu í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að enginn einn maður ber meiri sök á því að þjóðarsamstaða hefur ekki náðst í þessu máli en hæstv. iðnrh., og hans ábyrgð er þung og mikil í þessum efnum. Ég get vísað í þessu t.d. til ummæla hv. 12. þm. Reykv. hér á Alþingi og í blaðagreinum hvað eftir annað og kallað mér til vitnis marga fleiri aðila, sem hafa komið nálægt samvinnu við hæstv. ráðh. um þessi mál, en gefist upp á því vegna vinnubragðanna sem hann hefur viðhaft í þessu mikilvæga máli.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla öllu frekar um þetta. Ég skýrði frá því í upphafi, að ég hefði gjarnan viljað vita fyrir fram um þessa umr. til að geta skýrt betur með tölum og gögnum þróun í verðlagsmálum Landsvirkjunar og reyndar sýna betur fram á þá miklu blekkingu sem höfð er í frammi þegar verið er að bera saman annars vegar verð til almenningsveitna og hins vegar til stóriðjunnar. En við því er ekki að gera. Þessi umr. hófst án nokkurs aðdraganda.

Ég vil að lokum aðeins minnast á það, vegna þess að hæstv. ráðh. talar nú um nauðsyn þess að það sé haft opinbert eftirlit með verðlagningu orkufyrirtækja, að ég lýsi algerri andstöðu minni við það sjónarmið hæstv. ráðh. Ég er þeirrar skoðunar hvað varðar þessi mikilvægu þjónustufyrirtæki, hvort sem það eru rafmagnsveitur, hitaveitur eða önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaga eða þjónustufyrirtæki sem ríki og sveitarfélög reka í sameiningu, að þjónustu þeirra eigi að verðleggja af þeim sem ábyrgð bera á rekstri þeirra, sem eru fyrst og fremst sveitarfélögin. Það getur enginn ráðh. eða ekkert rn. haft betri yfirsýn yfir þau vandamál sem þessi fyrirtæki eiga við að glíma en þeir sem ábyrgð bera á sjálfum rekstrinum frá degi til dags. Þess vegna á það að vera svo, að þessir aðilar, sveitarfélögin, stjórnendur rafmagnsveitnanna, stjórnendur hitaveitnanna, fái að verðleggja sína orku eftir því sem þeir telja nauðsynlegt.

Ég nefni eitt dæmi til viðbótar því sem við höfum hér rætt um og það er Hitaveita Reykjavíkur. — Þetta glæsilega fyrirtæki sem hefur þjónað borgarbúum um áratuga skeið, hefur séð Reykjavíkurborg fyrir heitu vatni og ekki nóg með það, heldur hefur með sérstökum samningum við nágrannasveitarfélögin, Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ, lagt heitt vatn til þessara sveitarfélaga. Gjaldskrá þessa fyrirtækis hefur verið haldið niðri með aðgerðum stjórnvalda, sem hæstv. iðnrh. vissulega ber ábyrgð á. Fyrirtækið getur því ekki nú annast nauðsynlegar framkvæmdir til að sjá hitaveitunni fyrir nýju heitu vatni og þess vegna er nú yfirvofandi skortur á heitu vatni hér í Reykjavík. Hefði nú ekki verið nær að láta stjórnendur þessa fyrirtækis, í þessu tilfelli borgarstjórnina í Reykjavík, sjá um að annast þennan rekstur og verðleggja þjónustuna?

Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki í 20 ár staðið eins illa fjárhagslega og nú. Það á rætur að rekja til þess, að verð á heitu vatni hefur ekki fengist hækkað í samræmi við brýnustu þarfir fyrirtækisins. Það hefur verið reynt árum saman að láta enda ná saman með því að draga úr framkvæmdum, fresta aðgerðum, en þannig hefur rekstraröryggi hitaveitunnar verið skert. Það má nú lítið út af bera til þess að Hitaveita Reykjavíkur hætti að geta annast húshitun á svæðinu þegar verst gegnir, þ.e. þegar kaldast er í veðri. Við getum að sjálfsögðu ímyndað okkur hvert tjón yrði af því við slíkar aðstæður.

Þetta er eitt dæmið um afleiðingu þeirrar stefnu, sem hæstv. ráðh. boðar nú að hann vilji reyna að fylgja fram í ríkari mæli en verið hefur, að koma upp eftirliti með verðlagningu á orku frá hinum ýmsu orkufyrirtækjum landsmanna. Við höfum fengið smjörþefinn af þessari stefnu í langan tíma. Hún hefur ekki reynst vel. Þess vegna vonast ég til að hæstv. ráðh. hverfi frá henni og sé tilbúinn að ganga til samstarfs við aðra um að þeir sem ábyrgð bera á rekstri fyrirtækjanna fái að verðleggja þjónustu frá þeim.