01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég vildi koma hér að, sem fallið hafa orð um hér í umr. Í fyrstu er það eitt atriði, sem ég gleymdi varðandi frumræðu hv. 5. þm. Vestf. í þessari utandagskrárumr., í sambandi við samningana um nýja landsvirkjun, sem hann gerði nokkrar aths. við.

Það atriði sem skiptir miklu í sambandi við orkuverð og tryggt er með þeim samningum er að heildsöluverð raforku í landinu verði eitt og hið sama framvegis til allra landshluta. Auðvitað gagnar það ákvæði takmarkað ef það heildsöluverð er svo skert og allt úr lagi fært í heildina litið, en ég vænti þess að við berum gæfu til að snúa þeirri þróun við, sem svo mjög hefur verið til umr. hér í dag varðandi þróun raforkuverðsins og þær átögur sem nú eru lagðar á almenningsveitur. Þetta ákvæði í sameignarsamningnum um nýja landsvirkjun gagnar ekki síst — og raunar nú þegar — kjördæmi hv. 5. þm. Vestf., Vestfjörðum, og þeirra orkuveitufyrirtæki, Orkubúi Vestfjarða.

Hér hefur mikið verið rætt um orkuverð til stóriðju og sérstaklega til Íslenska álfélagsins og mætti þar ýmsu við bæta. Hv. 6. þm. Reykv. gerði allmikið úr því að ekki væri rétt frá staðreyndum máls skýrt, m.a. í Þjóðviljanum, á undanförnum dögum og vikum í sambandi við þróun þess verðs, m.a. vegna þess að það væri goldið í Bandaríkjadölum og tæki breytingum á gengi og því segði það ekki alla söguna þegar verið væri að bera saman verðlagið til almenningsveitna annars vegar og til ÍSALs hins vegar.

Ég andmæli því að þarna sé um nokkrar rangfærslur að ræða eða tilraunir til að skekkja þessa mynd. Hún er nógu glæfraleg samt. Það þarf ekki neitt til að ýkja hana, og hv. 5. þm. Vestf. kom einmitt að því rétt áðan, þar sem um er að ræða mat manna á því hvað teljist eðlilegur verðmunur í orkusölu til stórnotenda annars vegar og hins vegar til almenningsveitna, og er þá í senn tekið mið af íslenskum aðstæðum og alþjóðlegum aðstæðum. Þessi verðmunur er talinn eðlilegur nálægt 50%, en ekki nálægt 500% eins og þróunin stefnir í nú og jafnvel þaðan af meira.

Þetta bil hefur sífellt verið að breikka. Um haustið 1969, þegar álverið tók til starf, var þessi munur milli orkuverðsins til þess og almenningsveitnanna 80%. Í dag hefur þetta bil breikkað nærri því fimmfalt. Það er þessi háskalega þróun sem við verðum að bregðast við og rökin eru þar svo einhlít og auðsæ, að mér þykir skjóta nokkuð skökku við þegar hagsmunagæslumaður Landsvirkjunar, sem ég hlýt að telja hv. 6. þm. Reykv. sem stjórnarmann í Landsvirkjun, heldur ekki til haga þeim röksemdum, sem við hljótum að tefla fram í sókn okkar til leiðréttingar á þessu orkuverði, heldur er sífellt að bera í bætifláka fyrir þá öfugþróun, sem orðið hefur frá því að þessi samningur var gerður, og mátti þó margt gagnrýna þegar við gerð hans.

Hér mætti mjög margt segja frekar um þetta efni. Ég skal til þess að skýra hvað ég á við með þessu breikkandi bili nefna tölur sem dæmi. Á gengi 1980, miðað við verðlag og gengi þá, var verðið til Íslenska álfélagsins 2.45 kr. á kwst., en til almenningsveitna 7.48 kr. Ári síðar er þetta komið í 4.05 aura til ÍSALs, en 14.27 aura til almenningsveitna. Í byrjun árs 1982 var þetta verð 6.11 aurar til ÍSALs, en 23.70 aurar til almenningsveitna. Síðan kemur hið geysilega stökk, sem orðið hefur á s.l. ári í þessum efnum, þar sem verðið til ÍSALs er 11.77 aurar, en hefur þróast í 50.70 aura til almenningsveitna á árinu 1982. Þetta tek ég hér sem dæmi. Endurspeglunin af þessu er engin rangfærsla. Þetta blasir við hverjum sem sjá vill.

Það er eitt atriði sem ég vil einnig nefna hér varðandi málflutning hv. 6. þm. Reykv., þegar hann ræðst að mér fyrir meðferð mína á Alusuissemálinu svokallaða. Það hafa margir haft um það stór orð, m.a. hann og málgagn hans flokks. Ég hef enga þörf fyrir að vera að verja mig héðan úr þessum ræðustól. Ég tel að staðreyndir málsins tali og eigi kannske eftir að gera það enn skýrar en orðið er. En það er nokkuð langt gengið hjá þessum hv. alþm. þegar hann segir úr þessum ræðustól og færir í letur í greinargerð með þáltill. varðandi Alusuisse, þáltill. sem liggur hér fyrir hv. Sþ., að ég hafi ekki staðið mig sem skyldi með því að gera ekki almennilegar kröfur á hendur Alusuisse til hækkunar raforkuverðs árið 1980 þegar aðstæður í áliðnaði voru góðar og verðlag hátt. Ég get vísað til ræðna minna frá 1980 hér úr þessum stól. Þær sanna að ekki var dregið af í sambandi við nauðsynina á því að fá hækkun raforkuverðs — ekki af minni hálfu. En ég bað þennan hv. þm. hér fyrr í vetur um að benda mér á staði í þingtíðindum þess árs, og hann mætti gjarnan fara fram á árið 1981 til að finna því stað, að hann hafi tekið undir þessi sjónarmið og borið hér fram kröfur um að það þyrfti að stórhækka raforkuverðið til álversins í Straumsvík. Ég hef ekki fundið þá staði, en þessi stóli stendur hv. 6. þm. Reykv. opinn til að vitna til ummæla sinna í þá átt.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson lýsti yfir andstöðu við verðlagseftirlit í sambandi við orkuveitur og þá till. sem ég hef boðað, frv. til I. þar að lútandi. Og hann vitnaði sérstaklega til Hitaveitu Reykjavíkur, sem hefði verið farið illa með í þeim efnum á liðnum árum. Það er rétt, að Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki fengið þær hækkanir sem hún hefur beðið um hverju sinni. Þar hefur verið andæft af hálfu verðgæsluaðila og stjórnvalda, en á árinu 1982, svo að dæmi sé tekið, fékk þó Hitaveita Reykjavíkur hækkun sem svaraði 93% eða 30% umfram almennar verðlagshækkanir í landinu. Þarna þykir hv. 6. þm. Reykv. greinilega allt of lítið að gert. Núna 1. febr. var svo bætt við röskum 7% umfram hækkun byggingarvísitölu á viðmiðunartímabilinu. Hitaveitan fékk 18.5% hækkun sinnar gjaldskrár, en hafði raunar óskað eftir tvöfaldri þeirri upphæð.

Hér erum við hv. 6. þm. Reykv. ósammála eins og um sitthvað fleira í þessum efnum og verður ekki við því gert. Hitt er annað mál, að ég er honum alveg sammála um það atriði að við þurfum að gæta þess að orkuveiturnar geti á heildina litið staðið fjárhagslega sem traustustum fótum. Á því þurfa stjórnvöld vissulega og þeir sem hafa verðlagseftirlit með höndum einnig að hafa auga og gefa gætur.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson kom hér í þennan stól og ég hafði satt að segja saknað þess að heyra ekki í hv. þm. Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef heyrt til hans. Hann kom með nokkur atriði sem ástæða væri til að víkja að.

Hann var með varnaðarorð í sambandi við verðlagningu til einstakra veitna, að það þyrfti að gæta þess að það skapaðist ekki óeðlileg samkeppni. Þetta er út af fyrir sig réttmæt áhending, sem þarf að gefa gætur. En í sambandi við niðurgreiðslu á raforku og samkeppni við hitaveitur höfum við fylgst með því, sem á þessi mál höfum litið, og að vísu heyrt varnaðarorð, en ekki háværar kvartanir, frá sveitarfélögum, sem eru að koma upp hitaveitu, vegna samkeppni við raforku. T.d. hafa menn á Hellu og Hvolsvelli, þar sem nú er hitaveita í uppbyggingu, þrátt fyrir að verðið á raforkunni er ámóta eða óverulega hærra en hjá hitaveitunni og menn þurfa að taka á sig kostnað til þess að breyta um, breytt yfir á jarðvarmann hiklaust og í rauninni miklu hraðar en menn höfðu gert sér vonir um að yrði — þeir sem fyrir veitunni standa.

Hv. 12. þm. Reykv. vék einnig að Alusuissemálinu. Við höfum nú skipst svo rækilega á skoðunum um þau efni að tæpast er ástæða til að bæta þar miklu við, enda ekki tími til.

Ég sé að hann hefur nú flutt sinn umræðuvettvang yfir í þjóðlegt fjós, eins og hann orðaði það, úr öðru ónefndu gripahúsi, sem hann nefndi eitt sinn í þessum stól, og ég ætla ekki að fara að kljást við hann á þeim vettvangi. En hann sagði það ítrekað í sínu máli að hann teldi að ekki væri reynt til þrautar að ná samningum um leiðréttingu sem viðunandi væri við Alusuisse. Ég tek eftir því að þetta viðhorf kemur ítrekað fram hjá þm. Reykv. En einmitt í desembermánuði öndverðum, þegar hann kaus sér það hlutskipti að stökkva frá samráði og rjúfa samráð um þessi mál, var það einmitt óþolinmæðin að einhver árangur næðist sem var meginskýringin á hans afstöðu. Þarna skýtur mjög skökku við í málflutningi og röksemdafærslu, að nú sé í rauninni nógur tími til þess að þæfa um þetta mál í algerri óvissu um árangur.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði síðast í sínu máli, að hann hvetti til þess, að ef áfram þyrfti að skattleggja fólk í þessu landi vegna stóriðjunnar þyrfti að láta þá skattlagningu koma sem réttlátast niður. Ég tek undir það sjónarmið, en einnig fagna ég því mjög, sem fram kom í hans máli, að menn þyrftu að beita sér að því verkefni og leggjast saman á árar til að ná fram eðlilegri leiðréttingu mála í sambandi við verðlagningu raforku til stórnotenda, sem hér hafa allt of lengi hagnast á fráleitt lágu orkuverði.