01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er af minni hálfu ekki þörf á að svara þeirri ræðu sem hér var flutt nú síðast. Ég hlýt að votta hv. 12. þm. Reykv. samúð og hluttekningu með að hafa fest það inn í þingtíðindi sem hann mætti hér úr þessum ræðustóli. Efni hans máls var þess eðlis að það talar afar skýru máli. Ég held að þegar fram í sækir eigi menn eftir að átta sig á því, hversu víðs fjarri það stöðumat er sem hv. þm. hefur lagt á þetta mál. Sjálfur viðurkenndi hann hér í orðum sínum að hann hefði sprungið á limminu í sambandi við þetta. Nú lætur hann eins og ekkert hafi gerst síðan og flytur mönnum þann boðskap, að þetta sé aðeins ódugnaður, klaufska og þaðan af verra, að ekki skuli hafa verið skilað árangri fyrir Íslands hönd í þessu máli.