01.02.1983
Sameinað þing: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

Þingsköp

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst tæpast að þær upplýsingar sem við fengum nú frá hæstv. forseta nægi okkur, sökum þess að við upphaf þessa fundar lágu fyrir tvær yfirlýsingar. Önnur af hálfu utanrmn. um það, að hún mundi freista þess að ljúka störfum og skila áliti á þessum degi. Hin frá hæstv. sjútvrh. um það, að hann mundi þegar í fyrramálið tilkynna erlendum aðilum niðurstöðu ríkisstj. í máli, sem hér er fjallað um á Alþingi, þar sem því hafi enn áður verið heitið að farið yrði að vilja Alþingis í þessu máli. Mér virðist að við séum annað tveggja að láta leiða okkur hér í gildru í meginmáli, ellegar við hljótum að gera kröfu til þess að þingfundur sitji áfram, þar til niðurstaða utanrmn. liggur fyrir með þeim hætti, að við getum gripið í taumana, ef sá er vilji Alþingis, í tæka tíð fyrir þennan úrslitatíma í fyrramálið.

Nú vildi ég gjarnan fá að vita hvort hæstv. forseti hefur gengið úr skugga um það, að ráðh. muni fresta því enn um sinn og þar til þingvilji liggur fyrir að senda fyrrnefnt skeyti um afstöðuna til hvalveiðibannsins.