02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

Þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan, ef menn hafa misskilið mig, að það sem hér er auðvitað að gerast er einfaldlega það, að menn eru að þráast við að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Það sem stendur upp úr þessu máli er það, að við stöndum ekki við skyldu okkar vegna myndunar nýrrar ríkisstj. til að taka við efnahagsmálunum. Svo einfalt er þetta mál. Það er alveg ljóst að það dánarbú þessarar ríkisstj., sem nú er að myndast við að halda þingstörfum áfram, þráast við að hluta til og tefur mál hér inni í þinginu þannig að þau komist ekki til afgreiðslu. Ég lýsi líka um leið ábyrgð á hendur stjórnarandstöðunni í þessu máli, þannig að við skulum ekkert vera að draga okkur út einn og einn og skjóta okkur undan ábyrgð á þessu. Fyrst og fremst stendur þessi umr. um það sem hefur verið að gerast hér síðustu daga, um það að taka ákvörðun um þingrof og nýjar kosningar. Þetta vil ég að komi skýrt fram. (HBl: Ræður stjórnarandstaðan því?)