02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

Þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég a. m. k. sem stjórnarandstæðingur frábið mig því að ég hafi átt hlut að því að tefja með einum eða neinum hætti störf Alþingis. Þetta á að vísu við um stjórnarandstöðuarm Sjálfstfl. að mínu viti, en ég held að enginn geti með neinum rökum eða sanngirni haldið því fram, að þm. Alþfl. hafi hér tafið mál þannig að þau gætu ekki gengið fram með eðlilegum hætti. Því hefur verið lýst yfir af hálfu fulltrúa Alþfl. að hann væri reiðubúinn til þess að greiða fyrir lausn mála hér, þinglegri meðferð, þannig að ég frábið mig því að a. m. k. ég hafi átt hlut að því sem stjórnarandstöðuþm. að þingstörf hafi hér fram farið með þeim hætti sem raun ber vitni. En ég tek undir það, að það er vægast sagt hlálegt að þurfa að sitja undir því og við það að búa með hverjum hætti hér er stjórnað þingstörfum. En það er ekki með tilstilli Alþfl. Þar ráða aðrir ferðinni, hvernig með mál er farið og hvernig stjórn þingsins er fram komin og henni er fram haldið.