02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

91. mál, hvalveiðibann

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur að undanförnu fjallað um þáltill. um mótmæli gegn hvalveiðum. Einnig hefur n. fjallað um afgreiðslu ríkisstj. á því máli og hefur meðferð á þessum málum nokkuð blandast saman. Niðurstaða n. er sú, að meiri hl. utanrmn. leggur til að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða verði ekki mótmælt af Íslands hálfu, en minni hl. leggur til að banninu verði mótmælt.

Á undanförnum árum og áratugum hafa Íslendingar verið forustuþjóð í hafréttarmálum og nýtingu auðlinda hafsins. Í þeim hafréttarsáttmála, sem nú liggur fyrir til undirskriftar, er gert ráð fyrir að allar þjóðir heims hlíti alþjóðasamþykktum um nýtingu auðlinda hafsins, en þar kemur einnig fram að þjóðum heimsins er skylt að nýta allar þær auðlindir sem í hafinu eru. Það hlýtur að vera kappsmál okkar Íslendinga að virða allar samþykktir, sem gerðar eru á alþjóðavettvangi, en freista þess jafnframt að hafa áhrif á gang mála þar okkur og öðrum í hag.

Utanrmn. hefur kallað til fjölmarga aðila til upplýsinga um þetta mál. Það hafa verið lögð margvísleg gögn fram í málinu þessari þáltill. og mótmælum til stuðnings og gegn slíkri ákvörðun, og það er mjög ljóst að mál þetta er viðkvæmt og það skiptir miklu máli að réttar ákvarðanir verði teknar.

Hitt er svo annað mál, að það eru mjög skiptar skoðanir meðal þjóðarinnar og hér á þingi í máli þessu, og þegar svo er er að mínu mati og meiri hl. n. ekki skynsamlegt að bera fram sterk mótmæli. Það horfir öðruvísi við ef sameinað afl býr þar að baki, og menn hljóta að meta málið að einhverju leyti með hliðsjón af því.

Eins og ég sagði áðan kallaði nefndin fyrir sig fjölmarga aðila, og er ekki ástæða til að rekja það hér að öllu leyti nema ástæða gefist til þess síðar í umr. Við kölluðum m. a. fyrir okkur fulltrúa Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem er hagsmunaaðili margra í sjávarútvegi, þar á meðal þess fyrirtækis sem vinnur hvalafurðir á Íslandi og flytur þær á erlendan markað. Hagsmunasamtök þessa fyrirtækis og að vísu annarra fyrirtækja, sem eru 67 talsins, lögðu það eindregið til að mótmæli þessi yrðu ekki viðhöfð. Við, sem sitjum í utanrmn., hljótum að sjálfsögðu að taka tillit til slíks álits, því að ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi hagsmunasamtök hafa ekki síður tilhneigingu til að bera hag þessa fyrirtækis fyrir brjósti. En þetta var þeirra mat.

Það kom fram í n., að sú stofnun, Alþjóðahvalveiðiráðið, sem tók þessa ákvörðun, er, svo að ekki sé meira sagt, afar undarleg stofnun. Það kom fram að ekki var ljóst í lok fundar ráðsins hvað hafði verið samþykkt nákvæmlega og endanlegur texti lá ekki fyrir fyrr en 2. sept. Það má vera að þetta sé ekki mjög mikilvægt mál, en það lýsir að nokkru hvers konar samkunda þetta Alþjóðahvalveiðiráð er.

Ég vil leggja áherslu á að það þarf að sjálfsögðu að taka afstöðu til þess á hverjum tíma hvernig við stöndum að aðild okkar að alþjóðastofnunum. Eins og ég sagði áðan hefur það verið merki okkar Íslendinga að hlíta slíkum alþjóðasamþykktum, en við hljótum hins vegar að vinna að því af fullri hörku á alþjóðavettvangi að vinna því stuðning að við getum nýtt þær auðlindir sem við teljum okkur henta.

Þessi auðlind hefur verið nýtt um langt skeið og það hafa margir haft af þessari vinnslu góðar tekjur og svo er um ýmsar aðrar auðlindir sem við höfum nýtt í gegnum tíðina. Svo var um síldina á sínum tíma og loðnuna. Við höfum alltaf reynt að haga okkur af skynsemi í slíkum málum og reynt að byggja upp slíka stofna, semja við aðra um þessar veiðar. Ég minni á samningana um loðnuna. Svo hlýtur einnig að verða um hvalinn. En við, sem undirritum meirihlutaálit hér, erum algerlega mótfallnir því að við göngum gegn samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Okkur er ljóst að rannsóknir á hvalstofnunum eru ekki fullnægjandi og þær þarf enn að auka. Það hefur komið í ljós að flest það, sem gert hefur verið, er dregið í efa á alþjóðavettvangi. Það hlýtur að vera nauðsynlegt til þess að slíkar rannsóknir séu teknar gildar og tekið á þeim mark, að þær séu þannig úr garði gerðar og það trúverðugar að það sé mark á þeim takandi. Þess vegna leggjum við til í okkar nál. og kemur fram í okkar nál. eftirfarandi:

„Undirritaðir nefndarmenn telja að mikilvægt sé að auka enn rannsóknir á hvalastofnunum, þannig að ávallt sé til staðar besta möguleg vísindaleg þekking, sem liggi til grundvallar umræðum og ákvörðunum um veiðar í framtíðinni.“

Með þessu viljum við gefa til kynna, að við teljum alls ekki loku fyrir það skotið að hvalveiðar geti átt sér stað um langa framtíð. En við viljum leggja á það áherslu, að til þess að við getum sótt mál okkar sem best í þessu sambandi liggi ávallt besta möguleg vísindaleg þekking fyrir.

Herra forseti. Mér er ljóst að mikilvægt er að þetta mál hljóti afgreiðslu í dag og það sem allra fyrst. Þess vegna mun ég ekki hafa orð mín fleiri og vænti þess að menn taki tillit til aðstæðna og hagi máli sínu þannig að umr. dragist ekki úr hófi fram. Ég vil að lokum geta þess, að við í meiri hl. n. leggjum til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða sem kunngerð var með bréfi til ríkisstj. dags. 2. sept. 1982, verði ekki mótmælt af Íslands hálfu.“