02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

91. mál, hvalveiðibann

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Miðstjórn Bandalags jafnaðarmanna ályktaði svo um hvalveiðimál á fundi sínum á sunnudag:

Um allan heim er vaxandi skilningur almennings og ráðamanna á því, að stór hluti umhverfismála er ekki einkamál einstakra þjóða. Af slíkum toga eru hvalveiðimál. Menningar- og mannúðarsjónarmið eiga þar fullan rétt á sér.

Íslendingar hafa um árabil gegnt forustuhlutverki á sviði verndunar auðæfa hafsins. Þar er enn fjölmörg verkefni að vinna, svo sem vegna losunar úrgangsefna. Það yrði málstað okkar á þessum vettvangi mikil hneisa ef við gengjum í berhögg við yfirlýstan vilja ríkisstjórna, félagasamtaka og almennings um allan heim í hvalveiðimálum.

Gögn um hvalastofna eru af skornum skammti og ágreiningur er meðal vísindamanna um túlkun þeirra. Saga hvalveiða hvetur okkur til varkárni. Meðan við getum ekki sýnt fram á að veiðar okkar séu óyggjandi hættulausar væri rangt að halda þeim áfram.

Af framangreindum ástæðum felur miðstjórn Bandalags jafnaðarmanna einróma að rétt sé að láta samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins ómótmælt.“

Herra forseti. Með framangreindum rökum mun ég greiða atkv. með tillgr. meiri hl. hv. utanrmn.