02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

91. mál, hvalveiðibann

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að tefja ekki mjög umr. um þetta brýna mál, sem við verðum að afgreiða hér innan tíðar, en þar sem umr. um það hefur verið mjög skrykkjótt, svo að vægt sé til orða tekið, kýs ég samt að fá að benda á nokkur meginatriði.

Fyrst af öllu er það nokkurt umhugsunarefni hvernig ákvarðanataka fer fram hér á hinu háa Alþingi. Ætla mætti að undirstaða skynsamlegra ákvarðana væri annars vegar söfnun nauðsynlegra gagna og hins vegar vandleg yfirferð hv. alþm. og skoðun þeirra á þeim gögnum sem fyrir liggja. Ekki síst eru þessi vinnubrögð nauðsynleg þegar um er að ræða viðkvæm milliríkjamál og umdeild vísindaleg atriði, auk þess sem miklir hagsmunir þjóðarinnar kunna að vera í húfi. Ákvörðun um hvort mótmæla skuli ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins spannar öll þessi atriði. Og eins og svo oft áður hafa fyrrnefnd vinnubrögð verið vanrækt með öllu lengi vel eða þar til allra síðustu daga. Gagnasöfnun í þessu mikilvæga máli hefur verið svo til eingöngu komin undir áhuga einstakra þm. Umfjöllun um málið hefur verið sáralítil hér á hinu háa Alþingi, enda bar umr. í síðustu viku þess nokkur merki.

Ég vil aðeins taka nokkur dæmi hér um. Þau gögn sem borist hafa frá m. a. sjútvrn., og ég veit ekki raunar hvar sökin liggur, eru í hæsta máta ófullnægjandi. Sem dæmi um það er skýrsla frá 24. jan. 1983. Hún hefst á kafla sem ber yfirskriftina „Þróun mála innan Alþjóðahvalveiðiráðsins“ og er ein vélrituð síða í tveim liðum. Þar er sagt frá ársfundi ráðsins í sex línum, ársfundinum 1982, og frá 90 daga reglunni um mótmæli við banninu í 14 línum. Þessi skýrsla fjallar sem sagt ekki um þróun málsins, heldur einungis um allra síðustu atburði. Þeir sem nokkuð hafa fylgst með þessum málum vita þó að saga þessa máls er miklu lengri og afstaða Íslendinga frá 1972, eða frá fyrstu alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Stokkhólmi, er í hæsta máta ruglingsleg, en að því verður komið ögn síðar.

Annað dæmi um haldleysi gagna, sem okkur alþm. berast, er að í skýrslu til sjútvrh. frá einum fulltrúa hans á 34. þingi Alþjóðahvalveiðiráðsins er friðunartillagan svokallaða birt orðrétt, en á enskri tungu. Hana er ekki að finna á íslenskri tungu. Við skoðun kemur svo í ljós að hún er ekki rétt. Heilli setningu er þar ofaukið og það er setning sem skiptir verulegu máli. Hv. alþm. mega hafa sig alla við í störfum sínum ef þeir geta ekki treyst gögnum sem koma frá æðstu stjórnstofnunum landsins.

Reyndar kom einnig í ljós að skýrsla þessi, sem er frá 29. júlí 1982, hafði aldrei borist í hendur annars fulltrúa Íslands á sömu ráðstefnu. Ónákvæmni á borð við þetta er auðvitað ekki farsæl til góðra vinnubragða hér á hinu háa Alþingi. Ég hlýt að koma þessum áminningum á framfæri.

Notkun orða í þessu sambandi er einnig afar mikilvæg og þess vegna er mjög nauðsynlegt að þskj. liggi fyrir á íslensku. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa mjög talað um allsherjarbann án frekari skýringar á því hugtaki. Í till. er gert ráð fyrir að veiðikvóti allra hvalastofna verði núll frá og með veiðitímabilinu 1986 varðandi strandveiðar, en frá og með tímabilinu 1985–1986 fyrir úthafsveiðar. Síðan — og það er mikilvægt — verði þessi ákvörðun stöðugt til endurskoðunar á grundvelli bestu vísindalegra athugana, og eigi síðar en 1990 er áskilið að ráðið leggi mat á áhrif stöðvunarinnar og breyti henni e. t. v. ef eitthvað nýtt hefur komið í ljós. Fólk skilur þessa ákvörðun töluvert öðruvísi en þegar talað er um allsherjarbann. Engir vita betur en færustu vísindamenn sjálfir hversu lítið er vitað um líf og háttu hvalanna. Það er þess vegna alveg tómt mál að vera að tala um hér hvort hvalastofnarnir séu í hættu eða ekki. Það liggur ekkert afgerandi fyrir um að hvalastofnarnir séu í raunverulegri hættu. Það eru einungis uppi grunsemdir um það og tillögur um að fara beri varlegar en áður hefur verið farið.

Hins vegar liggur ekkert fyrir heldur um að réttmætt sé að halda veiðunum áfram, og menn telja brýna nauðsyn bera til þess að rannsaka ástand stofnanna betur og stöðva veiðar á meðan, því að skaðinn verður auðvitað ekki bættur þegar hann er orðinn. Með síaukinni þekkingu á náttúru og lífríki jarðarinnar verður mönnum æ ljósari nauðsyn þess að vernda auðlindir hennar. Það verður sífellt skýrara að þær eru ekki óþrjótandi. Það er alkunna, að nú þegar eru fjölmargir dýrastofnar í bráðri hættu fyrir algerri útrýmingu og einungis til af sumum þeirra fáein dýr. Menn ganga miskunnarlaust á frumskóga jarðarinnar þótt vitað sé að sjálft loftið sem við öndum að okkur sé þar með í hættu.

Slík mál eru auðvitað ekki mál einnar þjóðar fremur en annarrar. Þau eru ekki frekar vandamál þeirra þjóða sem búa við skóga en þeirra sem enga skóga hafa. Þau eru mál okkar allra. Hvalastofnarnir voru ofveiddir að allra dómi áður á tíðum eða allt þar til Alþingi bannaði allar veiðar vegna greinilegrar ofnýtingar allt aftur til 1915, svo að veiðar féllu niður þá í næstum 20 ár. Á seinni árum hafa menn sem betur fer stjórnað þessum veiðum, enda löngu viðurkennt að fara skyldi þar með gát. Friðun hvalastofna á sér því langa sögu að baki.

Þegar um er að ræða svo alvarlegar áhyggjur manna sem viðhald lífsins á jörðunni getur eitt íslenskt fyrirtæki og afdrif þess ekki vegið þungt í umr. Mér er fullljóst að ákvörðun um friðun kemur hart niður á því, þó að hlutur þess hafi enga úrslitaþýðingu á afkomu þjóðarbúsins. Jafnvel er okkur ljóst að um er að ræða atvinnu nokkur hundruð Íslendinga, en stjórnmálamenn hljóta að hafa þá yfirsýn að þeim má ljóst vera að annað vegur þyngra en hitt í þessu tilviki. Þar eð nokkur tími er enn til ársins 1986 og verði um stöðvun hvalveiða að ræða verður vitanlega að leysa vanda fyrirtækisins og starfsmanna þess og vinna að uppbyggingu atvinnulífs í þessum landshluta með tilliti til hugsanlegrar stöðvunar hvalveiða þangað til. Geti færustu vísindamenn heimsbyggðarinnar ekki fullyrt nú að óhætt sé að halda hvalveiðum áfram er meira en hæpið að forstjóri Hvals hf. treysti sér til að axla þá ábyrgð, og er með ólíkindum að hann og stjórn hans óski eftir því. Jafnfráleitt er að hv. alþm. láti önnur sjónarmið, svo sem landshlutasjónarmið, ráða gerðum sínum þar um. Hér er um margfalt mikilvægara mál en svo að ræða.

Ástæða er til að fara nokkrum orðum um afstöðu íslenskra fulltrúa á alþjóðaráðstefnum um umhverfismál frá upphafi. Skal einungis rætt um þetta ákveðna mál, sem hér er til umr., þó að verðugt væri að kynna sér hvernig afstaða í öðrum málum hefur verið mótuð, og nægir þar að nefna þing Sameinuðu þjóðanna.

Sumarið 1972 var haldin í Stokkhólmi fyrsta alþjóðaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál og tóku 113 ríki þátt í henni. Á ráðstefnunni var rætt um helstu vandamál í samskiptum mannsins og náttúru jarðarinnar. Þar á meðal var ítarlega rætt um skort á rannsóknum á lífi hvalanna. Tilmæli nr. 33 á ráðstefnunni voru um að alþjóðahvalveiðinefndinni væri falið að beita sér fyrir auknum rannsóknum og nauðsyn þess að gerður yrði alþjóðlegur sáttmáli um að fresta hvalveiðum. Tilmælin hlutu góðar undirtektir og fulltrúar Íslands greiddu þeim atkv. sitt. Þar með höfðu Íslendingar tekið ábyrgð á viljayfirlýsingu um stöðvun hvalveiða um sinn.

24. ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins var haldinn tveimur vikum eftir að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk, og þar voru tilmæli nr. 33 auðvitað lögð fram. Aðalritari Stokkhólmsráðstefnunnar kynnti þau fyrir hönd allra aðildarríkjanna. Till. var borin fram um 10 ára stöðvun hvalveiða í ábataskyni. Þá greiddu Íslendingar atkv. gegn till. og aftur á 25. ársfundi ráðsins og æ síðan hafa Íslendingar skipað sér, því miður, á bekk með þeim þjóðum sem hafa sýnst vilja veiða hval.

Engin raunveruleg umræða hefur farið fram fyrr en nú á allra síðustu dögum, en það ber að fagna því að hún er þó komin í gang.

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umr. meira. Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram. Ég er því miður hrædd um að afstaða okkar hingað til hafi nokkuð skaðað alþjóðaálit okkar. T. d. bárust fréttir um það í helstu útvarpsstöðvum Evrópu um hádegið að Íslendingar hefðu þegar mótmælt banninu, en ég ætla að vona að áður en þessi dagur er liðinn verði það dregið til baka.

Varðandi þetta mál, sem eflaust á oft eftir að minnast á á næstunni, eru hótanir annarra þjóða um að hætta að kaupa íslenskan fisk. Það atriði málsins er auðvitað ekki meginkjarni þess, þó að vissulega geti skipt okkur máli. Hins vegar eru það vægast sagt heldur óvenjuleg skilaboð, sem við höfum fengið úr þeirri átt, og er full ástæða til að tala um það síðar. Ég minnist þess ekki að stjórnvöldum hafi borist slík bréf um langa hríð.

Að lokum, herra forseti, vil ég aðeins víkja að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem við Íslendingar höfum svo mjög stuðst við í baráttumálum okkar og nægir að nefna landhelgismálin. Ég vil vekja athygli á því, að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem undirritaður var s. l. ár, er ekki til á íslensku. Hann hefur ekki enn verið þýddur. Menn þurfa að vera harla góðir í enskri tungu til þess að brjótast í gegnum þann texta hjálparlaust. Ég vil því mælast til þess, að hæstv. utanrrh. beiti sér fyrir því að alþm. geti fengið hafréttarsáttmálann á íslensku. Í honum eru einmitt ákvæði sem vert er að vekja athygli á, sem eru 64. og 65. gr. hans, þar sem fjallað er sérstaklega um að engin ein þjóð megi standa í vegi fyrir takmörkun, stjórnun eða eftirliti á veiðum hafdýra sem ástæða er til að ætla að séu ofnýtt. 65. gr. fjallar sérstaklega um spendýr hafsins og í 120. gr. er aftur ítrekað að báðar greinarnar eigi við þau. Til þessara ákvæða verður eflaust óspart vitnað þegar um er að ræða laxastofnana við Færeyjar. Alþjóðasáttmálar hljóta auðvitað ævinlega að byggjast á gagnkvæmri virðingu, skilningi og drengskap. Ef á að túlka þá eftir eigin geðþótta hverju sinni eru þeir harla lítils virði.

Að lokum, herra forseti. Það er ekkert sem knýr okkur Íslendinga til að mótmæla ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það er ekki til annars en að skaða álit okkar um heim allan. Ég skora á hið háa Alþingi að fella þáltill. þá, sem liggur hér fyrir á þskj. 93, og jafnframt brtt. minni hl. hv. utanrmn., sem liggur fyrir á þskj. 295. — [Fundarhlé.]