02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

91. mál, hvalveiðibann

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Mér þótti þetta merkileg ræða sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir flutti hér áðan. Hún sagði okkur frá skoðun sinni og innstu hjartans sannfæringu um það, að samviska hennar segði henni að við ættum að mótmæla þessu banni, við ættum ekki að una hótunum. Engu að síður sagði þessi hv. þm. að hún hefði heykst á því að greiða atkv. eins og samviska hennar byði, hún hefði heykst á því og mundi mæla með því að við mótmæltum ekki, vegna þess að okkur væri hótað. Þetta er kjarni þess máls sem hér er um að ræða.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með því hér undanfarna daga hvernig hver hv. þm. á fætur öðrum hefur heykst í afstöðu sinni til þessa máls vegna hótana þrýstihópa og vegna ósmekklegra hótana erlends stórveldis, sem virðist þeirrar skoðunar að Ísland sé einhvers konar þriðja flokks bananalýðveldi, hvers skoðanir séu falar fyrir fáeina fiska. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með fulltrúum þrýstihópa, sem á vondu máli eru kallaðir „lobbyistar“, sem hafa verið hér tíðir gestir og hafa greinilega haft árangur sem erfiði. Fulltrúar þeirra þrýstihópa sem nú beita Íslendinga viðskiptalegum hótunum, hóta að taka okkur efnahagslegu kverkataki ef við ekki förum að þeirra óskum. Mér sýnist margt benda til að nú sé meiri hl. þm. á þeirri skoðun að okkur beri ekki að mótmæla samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins og það sé vegna þess að við erum beitt hótunum.

Hafa skulum við það í huga að fleiri þjóðir hafa mótmælt. Norðmenn hafa mótmælt, Sovétmenn hafa mótmælt, Japanir hafa mótmælt og Perúmenn hafa mótmælt. En þessir þrýstihópar ráðast ekki á þessar þjóðir. Þetta eru stærri þjóðir og voldugri en við. Þeir ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og þar sem þeir telja sig eiga auðveldast með að koma sínum skoðunum fram. Þetta er vert að hafa í huga.

Mér þykir það miður að utanrmn. skyldi ekki hafa náð samstöðu um þá till. sem ég lagði hér fram um miðjan nóv. Ég lýsi stuðningi við þá till. sem minni hl. n. hefur hér lagt fram. Ég vil hins vegar víkja fáeinum orðum að hlut ríkisstj. í þessu máli.

Hæstv. iðnrh. kom hér í ræðustól áðan og sagði að ríkisstj. hefði enga ályktun gert í gær. Hann las síðan þingheimi bókun, sem hann hafði gert á fundi ríkisstj. í morgun, að mér skildist. Í Morgunblaðinu í dag, sem er nú kannske ekki algild heimild um störf ríkisstj. stendur — og því hefur ekki verið mótmælt hér í umr. í dag: „Ríkisstjórnin samþykkti samhljóða á fundi sínum í gærmorgun að mótmæla og varð samþykktin til þess að þm. Alþb. réðust harkalega á ríkisstj. og ráðh. á Alþingi í gær.“

Hér var í umr. í dag vitnað til samþykktar — eða niðurstöðu skulum við kalla, það er í rauninni leikur að orðum að gera mikið mál úr því, — ríkisstj. í gær sem vitnað var til hér í ræðu frsm. minni hl. utanrmn., hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. Þar sagði með leyfi forseta:

„Afstaða til samþykktar Alþjóðahvalveiðiráðsins um stöðvun hvalveiða var til umræðu á fundi ríkisstj. í dag.“ Þetta er frá í gær. „Á grundvelli þeirra skoðanaskipta, sem þar fóru fram, varð niðurstaðan að sjútvrh. mun bera fram mótmæli af Íslands hálfu við ályktuninni um stöðvun hvalveiða.“

Varð niðurstaðan, stendur þar. Menn geta kallað það hvað sem þeir vilja, samþykkt eða ályktun, en þetta varð niðurstaðan af fundi ríkisstj. í gær. Það er kannske ekki ástæða til að fara mjög mörgum orðum um þetta sérstaklega, en engu að síður er ástæða til að ræða þetta mál nokkuð efnislega svo sem aðrir hv. þm. hafa hér gert.

Auðvitað er það ljóst að það eru miklir hagsmunir hér í húfi, ef það reynist rétt að þessi þrýstihópasamtök, þessir náttúruverndarmenn, sem eru hér að misnota þann góða málstað sem náttúruvernd almennt er, ef þeir hafa það vald yfir bandarískum neytendum að þeir geta tekið okkur efnahagslegu kverkataki. Auðvitað er það alvarlegt mál. En hver segir að svo muni verða? Hver segir að bandarískir fiskkaupendur og neytendur láti segja sér fyrir verkum með þeim hætti?

Ég man ekki betur en vestur í Kaliforníu í Bandaríkjunum væri langvinnt verkfali í fyrra eða hitteðfyrra, kannske aðeins lengra síðan, þar sem ávaxtatínslumenn fóru í verkfall sem stóð í meira en eitt ár. Bandarísku verkalýðssamtökin hugðust beita sér fyrir víðtækum mótmælaaðgerðum og vörðu m. a. til þess ærnu fjármagni að hvetja fólk til að kaupa ekki vínber og ávexti frá Kaliforníu, sem verkfallsbrjótar höfðu tínt. En hvaða áhrif hafði það? Það hafði engin áhrif. Þessir ávextir héldu áfram að seljast eftir sem áður, dró kannske eitthvað lítillega úr, en varla svo að marktækt væri.

Ég held að menn mikli mjög fyrir sér — þó ég skuli að vísu ekki draga úr því, að þessir hópar hafa bæði peninga og tíma til að sinna sínum áhugamálum — ég held að menn mikli mjög fyrir sér hver áhrif þessir hópar muni hafa á sölu á íslenskum fiskafurðum vestan hafs. En mergurinn málsins er bara sá, að við eigum að láta á það reyna. Við eigum ekki að beygja okkur fyrir hótunum. Ef þessir aðilar eru þess umkomnir að taka okkur efnahagslegu kverkataki, þá skulum við láta það koma í ljós og láta á það reyna. Við skulum þá gefast upp með heiðri og sóma. Enginn má við margnum, þegar við sjáum að við ofurefli er að etja. En við skulum ekki liggja hundflatir fyrir fram.

Það er aldeilis með ólíkindum hversu áberandi hið tvöfalda siðgæði er í þessum efnum. Það er verið að tala um það, að við séum að brjóta alþjóðareglur. Þetta er víðs fjarri. Með því að mótmæla erum við að fara eftir reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við erum að fara eftir leikreglum, sem það hefur sett, við erum að notfæra okkur þann rétt sem við eigum sem aðilar að þeirri samkomu Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, meira að segja þeir sem ekki vilja að mótmælt sé, lýsa sem hálfgerðri skrípasamkomu, að ekki sé sterkar til orða tekið. Við erum ekki að brjóta neinar reglur. Við erum að fara eftir reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins og við erum að tryggja okkar rétt í framtíðinni.

En hið tvöfalda siðgæði er á mörgum sviðum. Bandaríkjamenn, sem hvað harðast ganga fram í því að við mótmælum ekki þessari samþykkt og beita til þess vægast ósmekklegum aðferðum að mínum dómi, hafa ekki séð sér fært að undirrita alþjóðahafréttarsáttmálann. Hvers vegna ekki? Þeir telja það stríða gegn hagsmunum sínum. Eigum við að beita okkur fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Bandaríkjunum vegna þess að þau vilja ekki undirrita hafréttarsáttmálann, sem við höfum undirritað? Auðvitað getum við það í fyrsta lagi ekki og í öðru lagi er það fáránlegt. Það er jafn fáránlegt og að þeir séu að skipta sér af okkar málum.

Hið tvöfalda siðgæði kemur svo enn betur í ljós þegar að því er hugað, að á hverju ári eru drepnir 40–50 þús. höfrungar undan vesturströnd Bandaríkjanna. Þar eiga Bandaríkjamenn ekki alla sök, en bróðurpart sakar eiga þeir sannarlega þar. Hvernig eru þessir höfrungar drepnir og hvers vegna eru þeir drepnir? Þeir drepast þegar menn eru að veiða túnfisk í hringnót, 40–50 þús. höfrungar á ári. Alþjóðahvalveiðiráðið skiptir sér ekki af því. Höfrungar eru að vísu taldir, svo að ég víki að greindarvísitölu hvala eins og gert hefur verið hér, kannske greindastir þeirra dýra og þeir sem leiddu vísindamenn inn á þær brautir að fara að huga að greind þessara dýra. Nei, höfrungar koma Alþjóðahvalveiðiráðinu ekkert við vegna þess að þeir eru flokkaðir sem smáhveli. Þeir eiga þess vegna formælendur fáa í þeim hópum náttúruverndarmanna sem nú beita sér gegn okkur. Þetta er vissulega tvöfalt siðgæði.

Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta mál snýst um það, hvort við ætlum að standa uppréttir og horfa framan í fólk eða hvort við ætlum að láta kengbeygja okkur með hótunum einum saman, sem við vitum ekkert hvaða alvara fylgir. Ég vék að því hér áðan, að þrýstihópafulltrúarnir hefðu verið hér á fullri ferð í sölum þingsins og haft árangur sem erfiði. En þeir hafa komið víðar við sögu. Ég held að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins allar götur síðan í síðustu viku verði, þegar hann er skoðaður hlutlægt og metinn eftir á, skólabókardæmi um það hvernig ekki á að vinna og hvernig ekki á að fjalla um svona mál í hlutlausum ríkisfjölmiðli. Í gærkvöld var það haft eftir Bandaríkjamanni, fréttamaður útvarpsins í Bandaríkjunum hafði það eftir honum orðrétt, að Íslendingar hefðu aldrei skilað neinum gögnum til vísindanefndar hvalveiðiráðsins. Fleipur, ósannindi og bull. Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar leiðrétti þetta í fréttatíma í gærkvöldi, en e. t. v. hafa fleiri heyrt hinar röngu upplýsingar en leiðréttinguna sem kom þar á eftir.

Í íslenska ríkisútvarpinu hafa nær eingöngu heyrst sjónarmið bandarískra náttúruverndarmanna. Það hefur ekki verið talað við fólkið, sem vinnur að þessum störfum, þær 200–250 fjölskyldur, sem eiga sitt undir þessari starfsemi og sem þeir fulltrúar Alþb. sem hér hafa talað virðast ekki hafa sérstaklega miklar áhyggjur af, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur hér fyrr í kvöld. (GJG: Það vinna mörg þúsund manns í frystihúsunum.) Já, víst er um það, það vinna margir í frystihúsunum, sem betur fer, og hafa þar vinnu. Og það er ekkert um það vitað, hvort atvinnu þess fólks er stefnt í hættu með þeirri aðgerð sem talað er um. Það er ekkert um það vitað, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, og við höfum ærið svigrúm til þess að fylgjast með því hvað gerist, þótt svo við notfærum okkur allan okkar rétt í þessum efnum.

En ég ætla að víkja aftur að fréttaflutningi Ríkisútvarpsins sem hefur verið alveg með eindæmum. Mætti helst þá ályktun draga, að almenningur í Bandaríkjunum hugsaði ekki um annað, talaði ekki um annað og dreymdi ekki um annað þessa dagana en hvalveiðar við Ísland. Ég held að með þessum fréttaflutningi hafi verið gefin alröng mynd. Það hefur aldrei, svo að ég hafi heyrt, verið talað við heimamenn. Það hefur ekki verið talað við fulltrúa þess sveitarfélags, þar sem þessi starfsemi fer fram. Það hefur ekki verið talað við áhafnirnar á skipunum, það hefur ekki verið talað við fólkið sem vinnur að þessari vinnslu. Ríkisútvarpið hefur enga ástæðu séð til þess. Hins vegar hefur þótt ástæða til að flytja fréttir af afstöðu bandarískra náttúruverndarsamtaka og hótunum, sem yfir okkur dynja þaðan því sem næst á hverju kvöldi. Þetta er dæmi um það hvernig ekki á að vinna að svona málum og verður tekið upp síðar á þeim vettvangi sem það á kannske betur heima.

Við skulum hafa það í huga, að þeir þrýstihópar sem hér er um að ræða hafa ekki aðeins beitt hæpnum fullyrðingum, þeir hafa beitt hreinum ósannindum hvað eftir annað, eins og ég rakti hér í ræðu fyrir fáeinum dögum, þegar um var að ræða þá auglýsingu sem birt var hér í blöðum. Sjálfsagt hafa þessir þrýstihópar menn á launum hér við að koma sínum málum á framfæri. Það er sjálfsagt þannig sem þessir hópar vinna og við því er ekkert að segja, en það verður að gera þær lágmarkskröfur að farið sé rétt með og ekki sé farið með fleipur og hrein ósannindi.

Nú horfir svo, að meiri hluti þm. muni beygja sig, muni heykjast og beygja sig fyrir kröfum þessara þrýstihópa. Við skulum hugsa málið svolítið lengra. Það er þetta í dag, það er hvalurinn í dag. Hvað kemur næst? Þetta er spurning um það, hverjir stjórna nýtingu okkar á þeim auðtindum sem við byggjum lífsafkomu okkar á. Ef samþykkt verður núna að mótmæla ekki þessari samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins og fara þar með að þeim reglum sem þar gilda, hvað kemur þá næst? Hverjir segja okkur fyrir verkum næst? Það eru alveg hreinar línur og augljóst að Alþingi er að láta þrýstihópa segja sér fyrir verkum. Þm. hafa viðurkennt það hér að þeir eru að heykjast á skoðunum sínum vegna þrýstings, vegna ótta um að íslenskum hagsmunum í Bandaríkjunum sé hætta búin á fisksölumarkaði þar. Ég get út af fyrir sig skitið þau sjónarmið. En við eigum að láta á það reyna, hvert afl þessara hótunarmanna er, og hvort þeir í raun og veru muni gera alvöru úr þessum hótunum sínum. Við eigum að láta á það reyna, hvort ríkisstjórn Bandaríkjanna gerir alvöru úr því að beita okkur efnahagslegum þvingunum. Við eigum ekki að beygja okkur fyrir þessum hótunum einum saman.

Sérstakur kafli þessa máls er það sem frá var greint í blöðum í gær, að Íslendingum væri boðið að veiða við Bandaríkin. Skilyrði að hvalveiðibanninu verði ekki mótmælt, segir í Morgunblaðinu, með leyfi forseta. Athyglisvert en óviðeigandi tilboð, segir Steingrímur Hermannsson sjútvrh. Það er vægt til orða tekið, að þetta sé óviðeigandi tilboð. Ég hefði satt að segja aldrei trúað því að ríkisstjórn Bandaríkjanna, að bandarískur ráðh. mundi voga sér að skrifa hingað slíkt bréf sem Morgunblaðið greinir frá að lagt hafi verið fram á fundi utanrmn. í gær. Þar segir með leyfi forseta:

„Í bréfinu voru m. a. reifaðar þær hugmyndir, að mótmæltu Íslendingar ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins gætu komið á móti veiðiheimildir íslenskra fiskiskipa innan bandarískrar lögsögu.“

Sem sagt, við viljum versla. Ég hélt að við værum ekki til sölu. En því miður sýnist mér að svo kunni að fara vegna hótana þessara þrýstihópa, að menn séu með nokkrum hætti til sölu. Það er mín persónuleg skoðun, að með því að láta undan hótunum með þessum hætti, og láta ekki á reyna, með því að láta undan hótunum með þessum hætti verði Alþingi Íslendinga sér til ævarandi skammar. Ég vona sannarlega að svo verði ekki.