02.02.1983
Sameinað þing: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

91. mál, hvalveiðibann

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tel að Íslendingum beri að kappkosta að lifa af þeim gæðum sem land og sjór geta veitt og lifa í sátt við umhverfið og vinna ekki á því varanlegt tjón. Okkur ber að nýta af hófsemi gæði sjávarins. Nú ber talsverðan vanda að höndum. Flestar þjóðir heims hafa lagst gegn hvalveiðum. Hér er um það að ræða hvort við eigum að búa okkur undir það að stöðva hvalveiðar um nokkurra ára skeið a. m. k. Ég vil ekki gera því skóna að um ofveiði sé að ræða hjá okkur Íslendingum, en ég get heldur ekki með öryggi fullyrt að svo sé ekki og allt sé í lagi, enda eru rannsóknir á hvölum, a. m. k. sumum stofnum, ekki á því stigi að af þeim verði dregnar afdráttarlausar ályktanir. Ég vil ekki gera lítið úr hagsmunum Hvals hf. Ég vil ekki gera lítið úr hagsmunum starfsmanna fyrirtækisins eða viðkomandi sveitarfélags. En ég tel þó, að athuguðu máli, að við setjum í alvarlega hættu miklu meiri hagsmuni með því að mótmæla nú hvalveiðibanni. Ég á ekki bara við viðskiptahagsmuni okkar, heldur þar að auki það sem er fjármunum dýrara, álit Íslands í augum heimsins. Ég segi já.