27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

28. mál, málefni aldraðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. gat um það í umr. um þetta mál, sem virtist nú dálítið langsótt, að stórvirkjanir væru í flestum hreppum á Íslandi nema á Vestfjörðum og Vesturlandi. Taldi þar af leiðandi að það væri ekki skrýtið þó að við værum farnir af stað, sem værum þm. fyrir þetta svæði. Það væri fróðlegt umhugsunarefni fyrir viðkomandi þm. að hugleiða hvers vegna stórvirkjanirnar eru ekki hér í Reykjavik. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það vanti fossana. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á hennar skerf til þessara umr.

Hins vegar er bæði rétt og skylt að ræða málefnalega það sem hæstv. heilbrmrh. hafði að segja um þessi mál. Honum fannst ég springa út með undarlegum hætti og lái honum það hver sem vill. En hitt sagði ráðh., að honum hefði verið ljóst þegar hann leit á till. n. að engum ráðh. væri stætt á þeirri skiptingu. Og hvað gerist, hæstv. ráðh., þegar mönnum er ekki stætt? Þá falla menn. Því skyldu menn gera sér grein fyrir. Ef mönnum er ekki stætt falla menn. Og hvers vegna áttaði ráðh. sig á því að engum ráðh. væri stætt á umræddum tillögum? Honum var ljóst í fyrsta lagi að skiptingin á þessu fjármagni, sem var skattfé af landinu öllu, var þannig, að ekkert réttlæti var í því nema nauðungarflutningar á gömlu fólki væri markmið laganna. Í annan stað hlaut honum að vera ljóst að andi laganna um hvað ætti að gera við þetta fjármagn felst að sjálfsögðu í 1. gr. í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal sérstakan sjóð til að stuðla að byggingum húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Sjóðurinn skal bera heitið Framkvæmdasjóður aldraðra.“

Hér neðar er það útskýrt alveg sérstaklega hvað dvalarstofnanir merkja. En lagasmiðirnir hafa ekki talið þörf á því að útskýra sérstaklega hvað væri átt við með orðinu „húsnæði“. Það hlaut, ef menn vildu skilja mælt mál, að vera um íbúðir að ræða. Það gat ekki legið nein önnur hugsun á bak við það orðalag, ef verið er að tala um húsnæði fyrir fólk.

Lesum þetta aftur. Hér stendur „byggingum húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða“. Aðalatriðið er venjulega sett á undan og aukaatriðið á eftir. Hver sem las þessi lög hlaut að líta á það sem aðalatriði þeirra að það ætti að veita fjármagn úr sjóðnum til að byggja húsnæðið fyrir aldraða, þ.e. íbúðir fyrir aldraða. Það þýðir að eðlileg skipting hefði verið að meira en 50% af fjármagninu hefði farið í þennan lið. Aðalatriðið er á undan og aukaatriðið á eftir — eða er það ekki reglan í allri uppsetningu? Í reynd varð þetta þannig, að sjúkrastofnanir urðu nr. eitt, elliheimili nr. tvö og húsnæðið fékk 1/10.

Það fer ekkert milli mála hvað gert var í skjóli breytinga á þessum lögum sem eru samþykkt 18. des. 1981. Það stendur í 3. gr. þeirra laga og er breyting við 5. gr. upprunalegu laganna: „að greiða hlutdeild ríkisins, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 57/1978, í byggingum sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 3. gr. stafliði a) og b), enda greiði ríkissjóður framlag beint í Framkvæmdasjóð, sbr. 2. tölul. 2. gr.

Ég held að það dyljist ekki að í fyrsta lagi er sjóðurinn, sem var hugsaður að meiri hluta til að byggja íbúðir fyrir aldraða, tekinn og færður til að létta á öðrum greiðslum ríkissjóðs til byggingarframkvæmda, m.a. við byggingu Borgarspítalans. Þetta liggur alveg ljóst fyrir.

Í annan stað var farið í að skipta þeim peningum sem afgangs urðu á svo forkostulegan hátt að það hlaut að vekja reiði manna. Hvað er nýlendustefna, hæstv. ráðh.? Er það ekki flutningur fjármagns frá ákveðnum svæðum númer eitt, er það ekki það sem felst í orðinu? Er ekki verið að flytja fjármagn utan af landi með þessu móti til að byggja upp ákveðnar byggingar hér á höfuðborgarsvæðinu?

Ég vænti að hæstv. ráðh. sé þrátt fyrir allt þakklátur fyrir að ég fór ekki að ræða þetta persónulega við hann, því að það hefði illa verið hægt án þess að lesa honum pistilinn fyrir þessa framkomu. Hins vegar mun ég taka það til greina að leita á hans fund með viss atriði sem snúa að okkur Vestfirðingum og okkur er þörf á að tekið sé tillit til. En ég harma þegar æðstu menn heilbrigðismála bregðast svo því trausti sem þeim er sýnt og hafa ekki almenna yfirsýn yfir landið allt og falla fyrir billegu kjördæmapoti, eins og hér hefur átt sér stað.