03.02.1983
Efri deild: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

89. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. sjútvn. Ed. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 4 1. febr. 1980 og lögum nr. 29 3. maí 1982, um breytingu á lögum nr. 80 16. sept. 1971, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Meginefni brtt. sem sjútvn. leggur hér til en hún var sammála um afgreiðslu þessa máls, er í því fólgið að breyta því marki sem var sett í sambandi við bótaskyldu á grásleppuveiðum. Það var bundið við 10 tunnu lágmarksafla á vertíð. En þannig fór á síðustu vertíð, árið 1982, að aflabrestur varð svo alger á heilu veiðisvæðunum og í heilu verstöðvunum að mjög margir náðu ekki því marki sem sett hafði verið. Því er það óeðlilegt, að okkar mati, að breyta hér ekki um. Það er okkar mat að fella beri niður þessa viðmiðun, 10 tunnu lágmarksafla, og við leggjum einnig til í sambandi við 4. gr., að þessi bótaákvæði falli undir 12. gr. laga um Aflatryggingasjóð og hann sjái um bótagreiðslurnar. Þetta rúmast þar eðlilega. Þeir hafa tjáð okkur hjá Aflatryggingasjóði að þeir gætu vel með sínu trúnaðarmannakerfi fylgst með því, hvernig að þessum veiðum væri staðið þannig að bótagreiðslur færu fram á eðlilegan og réttlátan hátt.

Við sem undirritum þetta nál. erum: Stefán Guðmundsson, Guðmundur Bjarnason, Karl Steinar Guðnason, Geir Gunnarsson og Guðmundur Karlsson.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru þeir Egill Jónsson og Gunnar Thoroddsen.

Við leggjum sem sagt til að þetta verði samþykkt nú með þessum breytingum sem ég hef gert grein fyrir.