03.02.1983
Efri deild: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

174. mál, lyfjalög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. til l. um breytingu á lyfjalögum, nr. 49/1978, sem ég mæli hér fyrir hefur áður verið flutt hér á hv. Alþingi, en náði þá ekki fram að ganga. Veigamestu breytinguna er að finna í 7. gr. frv., þar sem lagt er til að veita megi undanþágu frá ákvæðum um hver skuli veita lyfjagerð um forstöðu, en í gildandi lögum er krafist sömu menntunar og af handhöfum lyfsöluleyfis.

Um 7. gr. segir svo í grg.:

„Heimildarákvæði þetta veitir möguleika til undanþágu frá skilyrðum þeim, er forstöðumenn lyfjagerða almennt þurfa að uppfylla, sé um að ræða framleiðslu á ofnæmisefnum handa mönnum eða dýrum, og má í þessu sambandi nefna framleiðslu tilraunastofnunar Háskólans í meinafræði að Keldum.“

Aðrar helstu breytingar þessa frv. eru þær, að lagt er til að lyfjanefndarmenn verði fimm í stað þriggja, en með því er horfið að verulegu leyti til fyrra fyrirkomulags.

Þá eru einnig ákvæði um að setja skuli reglugerð um prófanir á lyfjum, sem m. a. taki til ábyrgðar og bótaskyldu, en slík ákvæði hefur vantað tilfinnanlega í lyfjalögin.

Ég vil einnig vekja athygli hv. þd. á 2. gr. frv., en þar er fjallað um hvað teljast skuli vítamín. Þar er gerð tillaga um breytingu frá því, að öll vítamín skuli teljast lyf, ef magn þeirra í hverri mældri einingu er umfram 1.5 venjulegan dagskammt, og skulu mörkin nú nánar ákveðin í reglugerð samkv. þessu frv. í stað þess að nú er þetta ákvæði í lögum. Álitamál er hvort rétt sé að gildandi hámark, 1.5 dagskammtur, eigi að gilda ótvírætt fyrir öll vítamín. Með því að hafa þetta í reglugerð skapast aukið svigrúm og unnt er að taka afstöðu til hvers einstaks vítamíns.

Hér er um að ræða atriði sem hefur verið mjög umdeilt á liðnum árum og hafa ýmis samtök, að mínu mati með réttu, bent á að óeðlilegt sé að takmarka ákvæði um þessi atriði við lagasetningu og eðlilegra sé að heimilt verði að setja reglugerðir í þessu skyni. Mér er kunnugt um að hv. alþm. eru flestir sama sinnis. Þess vegna var það mjög miður að á síðasta þingi skyldi ekki takast að afgreiða þetta ákvæði frv., þó að það væri látið liggja á milli hluta að öðru leyti.

Ég vil benda á það, að þó að skammt lifi nú þings, ef að líkum lætur, er hugsanlegt að staldra við það að afgreiða einungis efni 2. gr., sem ég hygg að góð samstaða sé um hér í hv. Ed. og í þinginu, hvað svo sem líður öðrum ákvæðum frv.

Þar sem hér er um að ræða endurflutning, herra forseti, tel ég ekki ástæðu til að fara ítarlegar yfir efni frv. þessa og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.