03.02.1983
Efri deild: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

174. mál, lyfjalög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið tókst ekki að afgreiða þetta frv., sem hér er til umr., á liðnu þingi. Að mínum dómi lá til þess einkum ein ástæða. Hún var sú, að eins og hæstv. ráðh. kom inn á eru fjölmargir áhugaaðilar í þjóðfélaginu, sem jafnvel hafa myndað með sér samtök, — áhugaaðilar um margvísleg fæðubótaefni, þ. e. vítamín. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar um málið á liðnum vetri, að þeir aðilar, a. m. k. sumir þeirra, eru mjög áhugasamir um að öll meðferð vítamína eða fæðubótaefna verði nánast frjáls. Og ég hygg að öllu samanlögðu, að ástæðan fyrir því að frv. náði ekki fram að ganga hafi einmitt verið sú, að við treystum okkur ekki til þess að sinna óskum þeirra í hvívetna eins og þær voru lagðar fyrir okkur nm. Ég vildi aðeins koma þessu að hér.

Að sjálfsögðu er ekkert hægt að fullyrða um hvort þetta frv. fær afgreiðslu á þessu þingi. Það skilja allir menn að um það verður ekki sagt hér. Hins vegar geri ég ráð fyrir að nefndin taki það til umfjöllunar eins og öll önnur mál sem til hennar er vísað.