03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það var ljúfur og laglegur drengur sem hér var að ljúka máli sínu, hv. þm. Garðar Sigurðsson, og miklum mun aðgætnari í orðavali en hann var við 1. umr. þessa máls, með hvaða hætti sem það á að taka. En víst fer honum þessi framganga, sem sást áðan, miklum mun betur en hin fyrri. Það hefði verið full ástæða til þess í ljósi þeirrar ræðu sem hann flutti við 1. umr. málsins að taka upp orðræður við hann í framhaldi af því. Ég skal ekki verða upphafsmaður að því nú, en lýsi mig að sjálfsögðu reiðubúinn að halda áfram í sama dúr og hann er hann upphóf mál sitt við 1. umr. málsins, ef til þess kann að koma.

Eins og hann tók fram klofnaði sjútvn. í afstöðu sinni til þessa máls og liggja fyrir þrjú nál. Hrósa mega þeir happi, hv. stjórnarsinnar, að ekki skyldu koma fjögur minnihlutaálit úr hv. sjútvn. Allt stefndi í það um tíma og gat svo farið, en bjargaðist á síðustu stundu.

Ég vil áður en ég kem að nokkrum meginatriðum míns máls aðeins rifja það upp, að við 1. umr. málsins talaði hv. þm. Vilmundur Gylfason mjög oft um að um samkomulagsmál væri að ræða varðandi ákvörðun fiskverðs og byggði afstöðu sína til þessa máls, sem var önnur en hann hafði áður til sams konar máls, á því að hér væri í raun og veru verið að framfylgja samningsgerð. Það er víðs fjarri að um þetta mál sé neitt samkomulag. Sjómannasamtökin hafa mótmælt því og eru engir aðilar að þessu samkomulagi um ákvörðun fiskverðs eða því sem hér er að gerast nú og lagt er til í þessu frv. Ég held að nauðsynlegt sé að menn geri sér ljóst að hér er ekki um það að ræða að staðfesta samninga í einu eða neinu formi, a. m. k. ekki að því er varðar sjómenn. Þessi afstaða hv. þm. Vilmundar Gylfasonar skýtur að vísu skökku við, bæði miðað við hans fyrri afstöðu til sams konar málefnis og einnig varðandi yfirlýsta afstöðu þessa hv. þm. til hinna margumtöluðu brbl., það að bæði þetta frv., sem hér um ræðir, og brbl. frá því í ágúst eru efnislega með þeim hætti að hér er verið að ógilda löglega gerða samninga.

Ég skal ekki á þessu stigi fara frekar út í það, en ég undirstrika enn frekar að það er misskilningur — á hverju byggður veit ég ekki — að hér sé um samninga að ræða og þess vegna sé ástæðulaust fyrir menn, sem vilja halda gerða og löglega samninga, að ljá því lið að mál sem þetta nái fram að ganga.

Hv. frsm. 1. minni hl. sagði áðan að hér væri kominn nafni olíusjóðsins sem brbl. frá því á s. l. hausti gerðu ráð fyrir, en nú væri hans hlutverki lokið. Það er að ég held misskilningur. A. m. k. hefur það ekki fengist upplýst, hvorki af hálfu hæstv. ráðh. né í sjútvn., með hvaða hætti á að greiða þann hluta af olíusjóðsgjaldinu sem til féll á síðari hluta ársins 1982. Um það skal ég ekki fullyrða, en muni ég rétt — það verður leiðrétt ef ég fer rangt með — er ekki gert ráð fyrir slíku t. d. við afgreiðslu fjárl. yfirstandandi árs. Það hefur verið ítrekað spurt um með hvaða hætti eigi að afla fjár til að standa undir þessari skuldbindingu. Það er ekki, að ég best veit, nokkurs staðar að finna stafkrók um það í þessu frv. og hefur ekki fengist upplýst. En ég ítreka þá spurningu til hæstv. ráðh., hvort það liggi ekki fyrir með hvaða hætti eigi að afla fjár til að borga þann hluta gjaldsins sem eftir var að borga á árinu 1982.

Ég hef áður lýst afstöðu minni til máls af þessu tagi. Það má segja að efnislega sé um tvíþætt mál að ræða: annars vegar olíugjaldið margumrædda — og illræmda að áliti margra — og hins vegar stofnun nýs sjóðakerfis, upphaf að öðrum hringganginum frá því að lokið var við að afnema sjóðakerfi sjávarútvegsins frá því 1976.

Að því er varðar olíugjaldið, og raunar um bæði þessi efnisatriði, þarf ég raunar ekki að hafa langt mál. Ég hef verið og er andvígur því að sá vandi, sem skapaðist við hina gífurlegu hækkun olíu á sínum tíma og hefur verið við að stríða — það skal viðurkennt — allan þennan tíma, sé leystur einvörðungu á kostnað sjómanna. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og það hafa sjómannasamtökin líka verið, að þennan vanda beri að leysa á þann veg, að öll þjóðin axli þær byrðar, en ekki einvörðungu þessi eina stétt, þ. e. sjómenn. Sjómannasamtökin hafa, að því er ég best veit, lýst sig reiðubúin að taka þátt í störfum til að finna leið sem menn gætu sameinast um og væri með þeim hætti að ekki væru þessar byrðar áfram lagðar á sjómenn eina og sér. Til viðbótar við þetta minni ég á, að það hafa verið gefin fyrirheit af hálfu hæstv. sjútvrh. um að a. m. k. hann vilji og telji að afnema beri olíugjaldið. En í þessu sem og kannske mörgu öðru hafa hjá núv. hæstv. ríkisstj,. og hæstv. sjútvrh. ekki farið saman orð og gerðir. Á það vantar og ekki bara í þessu tilviki. Það er því augljóst mál að í ljósi þessarar afstöðu minnar er ég andvígur að leysa málið á þennan veg.

Að því er varðar hinn þátt þessa máls, sem er stofnun olíusjóðs með sérstöku 4% útflutningsgjaldi, vil ég a. m. k. lýsa því yfir, að ég tel þar afskaplega skakkt að farið í ljósi þess, að allir voru sammála um það, þegar farið var út í að afnema sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem gert var 1976, að það kerfi væri afleitt, þyrfti að afnema og bæri nauðsyn til að afnema. Með þeirri breytingu sem þá var gerð á þessum málum tóku sjómenn á sig kjaraskerðingu í einu eða öðru formi, keyptu sem sagt að hluta til þá lausn sem fékkst með niðurlagningu sjóðakerfisins. Ég sé ekki betur en hér sé verið að leggja grunn að öðrum þætti álíka máls, hér sé verið upp á nýtt að stofna til sjóðakerfis, sem sjómönnum verður síðan ætlað — spurning innan hversu langs tíma — að kaupa aftur í formi kjaraskerðingar. Ég hélt satt að segja, að burtséð frá pólitískum sjónarmiðum væru menn orðnir um það sammála að slíkt kerfi á ekki við. Og það hafa sjómannasamtökin einnig tekið fram, að þau eru reiðubúin að taka þátt í að leita að leið sem er farsælli og sem ekki upphefur aftur þennan sama gang, sem sjóðakerfið hafði á sínum tíma, sem allir urðu sammála um að nauðsynlegt væri að afnema. Í trausti þess, að stjórnvöld vildu í reynd skapa betri grundvöll fyrir sjávarútveginn og þar með bætt kjör sjómönnum til handa, féllust sjómannasamtökin á það 1976 að eiga aðild að því hvernig væri hugsanlegt að afnema það kerfi, sem þá var gert. Ég hugsa að hefði sjómannasamtökin órað fyrir því, að aftur ætti að byrja, 5–6 árum síðar, með sömu hringekjuna og sjóðakerfið var orðið og láta sömu aðila kaupa nýja lausn með kjaraskerðingu hefðu sjómannasamtökin ekki verið jafnliðleg í garð þess sem þá var gert með því að stokka upp kerfið eins og það var orðið. Ég tek því undir afstöðu og yfirlýsingar sjómannasamtakanna, sem ég veit að eru reistar á fullkominni hreinskilni. Auðvitað er sjómannasamtökunum ljóst að hér er um vanda að ræða. Og ég tek undir þær viljayfirlýsingar, sem sjómannasamtökin hafa látið frá sér fara, sem eru á þann veg, að þau lýsa sig reiðubúin að taka þátt í að finna raunhæfari og réttlátari leiðir til að leysa þann vanda sem flestir ef ekki allir viðurkenna að er fyrir hendi.

Út af þeirri brtt., sem hér var gerð grein fyrir af hálfu hv. formanns sjútvn. í sambandi við 4% gjaldið við löndun í erlendri höfn, er rétt að það komi fram og raunar nauðsynlegt, að á fundi nefndarinnar var upplýst að það ákvæði hefði komið eftir að gengið var frá fiskverðinu. A. m. k. vissu fulltrúar sjómanna ekki um þann þátt mála fyrr en eftir gamlársdagsfundinn, eins og menn hafa kallað hann, þegar fiskverð var ákveðið. Það eru auðvitað ekki eðlileg vinnubrögð að koma með slíkt eftir á. Ef á annað borð er gert ráð fyrir að þeir aðilar sem máli skipta fjalli um eitthvert mál, þá eiga þeir að fá vitneskju um alla þætti málsins á hvaða stigi sem það er.

Að því er það varðar að leggja 4% á þegar landað er erlendis. Það er, eins og hér kom fram áðan, ekki ákvörðun sjómannanna sem ræður því hvort siglt er eða siglt ekki. Auk þess hagnast útgerðin verulega meira ef framkvæmdin yrði með þessum hætti en ef landað yrði hér heima.

Enn ein spurning í sambandi við það sem kom fram hjá formanni Sjómannasambandsins á nefndarfundi. Ég held að það hafi verið við síðustu fiskverðsákvörðun eða fyrir um ári sem lýst var yfir af hálfu hæstv. sjútvrh. að hann vildi að kannaður yrði vinnutími sjómanna og í það yrði lögð vinna að kanna slíkt. Ég held að ég fari rétt með, en bið aðra nm. að leiðrétta ef ég geri það ekki, að Vinnuveitendasamband Íslands hafi neitað á vissu stigi málsins að taka frekari þátt í störfum sem kynnu að upplýsa hver vinnutími sjómanna er. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. upplýsti þetta, því að sé þetta rétt finnst mér furðuleg afstaða Vinnuveitendasambandsins. Ég hélt að það væri öllum til góðs að komast að raun um með eðlilegum hætti og á hlutlausan hátt hver er vinnutími sjómanna.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð, og er ekki ástæða til að teygja þennan lopa.

Það skal viðurkennt að kannske er það heldur hrátt sem hér er flutt, nál. líka, en ástæðan er sú, að í skyndingu í gærkvöld var um það beðið að mál þetta yrði tekið hér til umr. í dag. Annars var ekki gert ráð fyrir að það yrði gert fyrr en síðar. En ég er allur af vilja gerður til þess að þóknast hæstv. forseta í öllu sem hann biður um, sem mögulegt er og innan réttlátra og skynsamlegra takmarka. Yfirlýst er einnig af hálfu Alþfl. að hann er reiðubúinn að greiða fyrir afgreiðslu mála hér með þinglegum hætti og á eðlilegan máta og hefur á engu stigi, mér vitanlega, gert tilraun til að bregða fæti fyrir afgreiðslu mála þó að hann sé andvígur þeim að einhverju eða öllu leyti.

Nokkur orð út af brtt. á þskj. 298 frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, Sigurlaugu Bjarnadóttur og Halldóri Blöndal. Ég leit þetta fyrst augum þegar ég kom í þingsal áðan og hef ekki í öllum atriðum gert mér alveg grein fyrir því hvað hér er um að vera. Mér sýnist þó fljótt á litið, að það gæti verið skynsamlegt að gera það sem hér er lagt til. Það er mat allra, sem að einhverju leyti hafa um þessi mál fjallað, að það þurfi að finna nýjar leiðir til að leysa þau mál sem hér er um að ræða á betri og farsælli veg en hefur verið gert og nú er, að því er best verður séð, verið að gera, verði þetta mál afgreitt með þeim hætti sem hér er lagt til að gert verði af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég er því, a. m. k. við fyrstu sýn, mjög jákvæður í garð þessarar till., sem hér er flutt af hv. þm., og tel að það gæti a. m. k. verið skynsamlegt að skoða málið með þeim hætti sem hér er lagt til.