03.02.1983
Neðri deild: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Málið sem hér er til umr. er ekki nýtt af nálinni. Alþingi stendur enn einu sinni frammi fyrir því að samið er við sjómenn og útgerðarmenn um fiskverð með ávísun á að Alþingi fallist löngu síðar á eitt og annað. Í rauninni skuldbatt hæstv. sjútvrh. hið háa Alþingi með tillögu sinni um fiskverðsákvörðun um áramótin og lagði síðan fram það frv. sem hér liggur fyrir og felur það í sér að frá síðustu áramótum skuli taka sérstakt útflutningsgjald, olíugjald, af blönduðum afla á þessu ári.

Við sjálfstæðismenn höfum talið, eins og fram kom hjá hv. 1. landsk. þm., að nauðsynlegt væri að standa öðruvísi að atvinnumálunum í heild. Við teljum að hæstv. ríkisstj. hafi með óhóflegri skattheimtu, rangri gengisskráningu o. s. frv. í rauninni kippt grundvellinum undan atvinnurekstrinum og að við stöndum nú frammi fyrir því að æ fleiri fyrirtæki eiga við alvarlegan rekstrarfjárvanda að stríða vegna uppsafnaðs taps á síðustu árum. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að hann væri í þann veginn að skipa sérstaka — ég man ekki hvað hann kallaði það — rekstrartapsnefnd útgerðarinnar eða eitthvað slíkt. Ég hygg að hann hefði betur skipað þessa nefnd þegar hann settist í stól sjútvrh. heldur en nú þegar hann stendur upp úr honum, því að hann á ekki nema nokkrar vikur eftir í því sæti. Þá hefði kannske orðið von til þess að landinu yrði betur stjórnað þennan tíma og sjávarútvegurinn stæði betur í dag.

Sú niðurstaða hæstv. ráðh., að Fiskveiðasjóður standi vel á pappírnum, en eigi enga peninga til að ráðstafa, er í rauninni lýsing á ástandinu hér á landi núna. Hæstv. ráðh. hefur tekist að glepja menn með því að hlutirnir séu í lagi á pappírnum, en svo hrökkva menn upp við það, þegar til á að taka annað slagið, að ástandið er alls ekki eins gott og menn bjuggust við. Menn hrukku upp þegar þeir sáu hina svörtu skýrslu Seðlabankans, og ef við tökum Fiskveiðasjóð sérstaklega ætla ég samkv. þeim hugmyndum sem hæstv. ríkisstj. hefur um lánsfjáráætlun að nú hafi Fiskveiðasjóður ekki nema um 60–70 millj. til ráðstöfunar á því ári sem er að byrja, upphæð að þessu marki. Væri kannske fróðlegt að fá upplýsingar um það, úr því að minnst var á Fiskveiðasjóð, hvort við því megi búast að hann geti staðið við þau lánsloforð sem veitt voru á s. l. ári í fyrsta lagi og hvort í öðru lagi megi búast við því, að hann geti tekið á sig einhverjar skuldbindingar að marki vegna nýrrar fjárfestingar í fiskverkuninni, en eins og við vitum hafa fiskiskipin mjög setið fyrir í Fiskveiðasjóði þannig að margs konar hagræðing og endurnýjun í fiskverkun hefur setið á hakanum og ýmis fyrirtæki alls engrar fyrirgreiðslu notið úr Fiskveiðasjóði, sem þó eiga rétt á henni. En það þýðir lítið að segja við þá menn, sem nú standa frammi fyrir lánardrottnum sínum og eru kannske að missa fiskverkunarhús sín á uppboð eða skip af því að ekki er eyrir til í Fiskveiðasjóði, að Fiskveiðasjóður standi vel á pappírnum. Það er lítil huggun fyrir þessa menn. Þeir geta ekki veifað því framan í þá sem þeir skulda.

Ég vil fyrst segja það, að frv. það sem hér liggur fyrir endurspeglar í raun það ástand sem nú er í sjávarútveginum. Um síðustu áramót var hallarekstur fiskiskipastólsins orðinn slíkur, að til mjög róttækra ráðstafana varð að grípa. Frá 1. sept. hafði olían verið niðurgreidd annars vegar með því að gera upptækan Tryggingasjóð fiskiskipa með þeim afleiðingum að vátryggingakostnaður fiskiskipa verður meiri í framtíðinni en hann hefði ella orðið. Þessi tryggingasjóður átti að standa fyrir því að við gætum tekið endurtryggingar inn í landið í meira mæli, við gætum orðið sterkari í tryggingastarfsemi okkar en áður. Nú hefur þessu fé verið eytt, sóað í eyðslu. Það er afleiðing af vondri stefnu hæstv. sjútvrh. og ríkisstj., enda sagði hæstv. sjútvrh. í útvarpi í ágústmánuði s. l. að það væri erfitt að hugsa sér að stofna til skulda til að greiða niður olíuna á sama tíma og útvegsmenn ættu eitthvað í sjóði. En nú er sú tíð komin að útvegsmenn eiga hvergi neitt í sjóði svo að grípa verður til annarra ráða.

Auðvitað tek ég undir það með hæstv. sjútvrh., að sú leið að greiða niður sérstaklega rekstrarkostnað sjávarútvegsins af almannafé, en ekki annars atvinnurekstrar, gengur ekki. Þetta var reynt frá 1. sept. til ársloka með þeim afleiðingum að iðnaðurinn safnaði stórkostlegum skuldum, og væri fróðlegt fyrir hæstv. sjútvrh., nema hann hafi fengið það bréf sem formaður Framsfl., að fá þá úttekt sem iðnaðardeild SÍS sendi þm. Framsfl. núna um áramótin til að segja þeim hversu mörgum milljónum SÍS hefði tapað á þeirri ráðstöfun. Það voru ekki neinir smápeningar. Og sú aðferð að stofna sjóð sem hefur engar tekjur til þess að greiða niður olíu er auðvitað það sama og að vísa þeirri skuld á skattborgarana í landinu. Auðvitað mun þjóðin borga þessar niðurgreiðslur. Sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs þýðir að ríkissjóður verður að greiða þessa peninga. Það væri auðvitað miklu hreinlegra að ríkissjóður yfirtæki þessar skuldir strax sjálfur, en ekki væri farið í þennan feluleik til að láta ríkissjóð koma betur út um áramótin á pappírnum.

Hér er sem sagt valin sú leið að taka upp 4% útflutningsgjald, er renni í Olíusjóð fiskiskipa, sem stofnaður skuli að nýju hinn 1. jan. Eftir brbl. átti hann að vera til til 31. des., en mér sýnist að hér sé annar olíusjóður til orðinn, sem hefur í stórum dráttum sama markmið og sá fyrri, en tekur að sjálfsögðu ekki við skuldbindingum þess gamla. Ég vil að fram komi að sjútvn. varð sammála um að þær skuldbindingar yrðu ekki lagðar á þennan.

Eins og fram kemur í grg. með frv. var halli útgerðarinnar að meðaltali um 15% fyrir síðustu áramót. Með síðustu hækkun fiskverðs og með útflutningsgjaldinu metur Þjóðhagsstofnun það svo, að útgerðin sé að meðaltali rekin með 3% halla. Þessar tölur eru að sjálfsögðu miðaðar við það gengi sem þá var, en síðan hefur gengi krónunnar sigið þannig að halli útgerðarinnar er meiri en hér er sýnt. Sú aðferð, sem hér er höfð, byggist á því, að þau skip, sem mest afla, eru látin leggja mest í olíusjóðinn, en fá hins vegar greitt úr honum í samræmi við eyðslu. Auðvitað er þarna um millifærslu að ræða milli einstakra skipa. Mér hefði þótt eðlilegra að fara þá leið, að í staðinn fyrir að taka útflutningsgjald væri greidd uppbót á fiskverðið af svipaðri fjárhæð þannig að hvert skip nyti síns afla og fengi það sem því bæri. M. ö. o.: vel rekin skip, sem mikið afla, bæru meira úr býtum. En sú leið var ekki valin.

Um þetta má kannske deila. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál gagnvart sjómönnum, og ég skil það vel. Það hefur því miður verið haldið þannig á málefnum sjómanna undanfarin ár að það er náttúrlega ekki við því að búast að þeir hafi mikla biðlund gagnvart stjórnvöldum. Þeir hafa beðið lengi eftir sinni leiðréttingu og það hefur m. a. gert lausn útgerðarvandans torveldari en ella. Við skulum ekki vera að fara neitt í grafgötur með það. Olíugjaldið, svo að ég minnist á það, hefur verið talað um að ætti að vera til skamms tíma. Það hefur gengið upp og niður, en engin önnur leið hefur fundist sem gæti komið í staðinn fyrir það.

Kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, að efnahagsstefna ríkisstj. hefur á undanförnum árum miðast við að reyna að leysa efnahagsmál þjóðarinnar og þar með verðbólguvandann á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Hæstv. sjútvrh. benti rækilega á þetta í áramótagrein sinni í árslok 1981, þegar hann gerði upp mesta góðæri sem yfir okkur hefur gengið og var að reyna að átta sig á því hvernig á því stæði að útgerðin skyldi ekki hafa safnað í sjóði á þessum árum. Þá var niðurstaða hans sú, að á árinu 1982 yrði að brjóta í blað, lengra yrði ekki gengið á þessari leið. Það hefði sýnt sig að verðbólguvandinn yrði ekki leystur á kostnað atvinnuveganna. En þó að hann hefði komist svo viturlega að orði í Tímanum á síðasta degi ársins sýndi framhaldið, því miður, að hann hafði ekki pólitískt þrek til þess að fylgja því eftir.

Um brtt. þeirra fjórmenninga úr sjútvn., hv. 4. þm. Suðurl., 1. landsk. þm., 1. þm. Norðurl. v. og 6. landsk. þm., vil ég segja það að ég er andvígur þeirri brtt. Ég tel að þau skip sem landa afla sínum erlendis eigi ekki að vera sér á báti, eigi ekki að sitja við betra borð en aðrir hvað snertir útflutningsgjaldið. Það mundi verka sem hvatning bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn eins og væri. Ég vil vekja athygli á því, að samkv. upplýsingum, sem nm. í sjútvn. hafa borist frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, er verðlag á olíu í helstu löndunarhöfnum íslenskra fiskiskipa erlendis nú í kringum 5 kr. lítrinn, en niðurgreiddrar olíu, eins og gert er ráð fyrir í frv., um 4,58 kr. lítrinn. Þetta mundi m. ö. o. þýða að fiskiskipin mundu reyna að komast hjá löndunum erlendis, sigla heim með tóma tanka og fylla svo skipin með olíu, sem niðurgreidd yrði með afla annarra fiskiskipa. Slíkt getur að sjálfsögðu ekki gengið. Auðvitað er sparnaður fólginn í því að skipin fylli tanka sína erlendis. Það dregur úr flutningskostnaði á olíu og olía fæst erlendis oft, eins og hér kemur fram, við góðu verði.

Í upplýsingum frá Landssambandi ísl. útvegsmanna kemur m. a. fram, að á árunum 1980–1982 hafi íslensk fiskiskip landað 300 sinnum erlendis hvort árið. Lauslega má ætla að við hverja löndun erlendis taki meðalskip um 35 þús. lítra. Samtals má því ætla að íslensk fiskiskip taki um 10-11 millj. lítra af olíu erlendis á ári. Miðað við framangreindar forsendur um verð munu íslensk fiskiskip alfarið hætta að taka olíu erlendis, þar sem niðurgreidda olían hérlendis er lægri en niðurgreidd olía erlendis. Það merkir að þau skip er landa innanlands muni í gegnum útflutningsgjald greiða niður olíu til þeirra fiskiskipa er landa erlendis, segir í bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Miðað við að framangreindir 11 millj. lítrar, sem ella yrðu teknir erlendis, séu keyptir hér heima er heildarkostnaður um 78 millj. kr. Niðurgreiðsla um 27 millj. kr. Þessi niðurgreiðsla er, eins og áður sagði, greidd af þeim skipum sem landa hér á landi. Ef þessar 11 millj. lítra hefðu verið keyptar erlendis á verðum sem þar gilda væri kostnaður þessara 11 millj. lítra um 55 millj. kr. Raunverulegur mismunur er um 23 millj. kr., sem er umframkostnaður þjóðfélagsins við að nýta sér ekki ódýrari olíu, sem fæst á lægra verði í fiskihöfnum erlendis. Þetta er niðurstaða Landssambands ísl. útvegsmanna.

Landssamband ísl. útvegsmanna lýsir útflutningsgjaldi sem tekið sé erlendis og nemur 3% af brúttósölu andvirði. Þegar í frv. er talað um 4% útflutningsgjald miðast það við fob-verð, en er í raun 3%. Það er viðurkennd reikningsregla í sambandi við slíkt. Hugmynd LÍÚ er sú, að tekið verði útflutningsgjald af sölum erlendis sem nemur 3% af brúttósöluandvirði og jafnframt að sú olía sem tekin verði sé greidd niður um 35%, þ. e. jafnt og hér heima, en þó megi niðurgreiðslan aldrei nema hærri fjárhæð en framangreint 3% útflutningsgjald nemur. Þessi aðferð tryggir þrennt: 1. Þjóðfélagið í heild hagnast þar sem þessar 11 millj. lítra af olíu verða teknar erlendis á 23 millj. kr. lægra verði en hérlendis. 2. Kemur í veg fyrir að skip er landa erlendis fái hérlendis niðurgreidda olíu án þess að leggja nokkuð af mörkum í olíusjóðinn. 3. Verðhlutföll á olíu hér á landi og erlendis raskast ekki frá því sem verið hefur.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ítreka að ég er andvígur því að fella útflutningsgjald niður af afla sem landað er erlendis.

Ég skal svo ekki hafa miklu fleiri orð um þetta. Eins og þessum málum er komið treysti ég mér ekki til að vera andvígur frv. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu þess, en með því er ég engan veginn að lýsa yfir stuðningi við þá aðferð sem hér er viðhöfð til þess að halda flotanum gangandi.