03.02.1983
Neðri deild: 34. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 3. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Á brtt. á þskj. 298, sem flutt var af mér og hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur og Halldóri Blöndal og dregin var til baka við 2. umr., hefur verið gerð nokkur breyting í samráði við sjútvrh. Hann telur sig um leið geta verið meðflm. að till. með okkur. Þessi breyting er í þá veru, að í stað þess að Alþingi kjósi 5 menn í nefnd verði þeir fjórir og við bætist: „sjútvrh. skipar samkv. tilnefningu þrjá fulltrúa sjómanna, útgerðar og fiskvinnslu, einn frá hverjum.“ síðan verði óbreytt 1. mgr. till., en 3. mgr. verði nokkur orðalagsbreyting. Hún hljóði á þann veg eins og ég les nú:

„Nefndin skal eiga aðgang að athugun þeirri sem fram mun fara á vegum sjútvrn. á leiðum til að bæta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins.“

Síðan verði till. óbreytt eins og hún kom fram við 2. umr. Því miður hefur ekki unnist tími til að láta prenta till. svo breytta og því legg ég hana fram skriflega til hæstv. forseta.