03.02.1983
Neðri deild: 34. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi á þskj. 178. Flm. auk mín eru þm. Vesturl. í hv. deild, hv. 2. landsk. þm., Jósef H. Þorgeirsson, hv. 4. þm. Vesturl., Skúli Alexandersson og hv. 2. þm. Vesturl., hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson.

Frv. þetta er flutt af þingmönnum Vesturlandskjördæmis samkv. eindregnum tilmælum hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps. Samkv. fskj. er fylgir frv. hljóðar þessi samþykkt hreppsnefndar þannig:

„Á fundi í hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps 11.11.82 var eftirfarandi tillaga samþykkt af öllum hreppsnefndarmönnum:

„Hreppsnefnd Ólafsvíkurhrepps samþykkir að fara þess á leit við alþingismenn Vesturlandskjördæmis, að þeir flytji á Alþingi frv. að lögum um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi. Kaupstaðurinn nái yfir allan núverandi Ólafsvíkurhrepp og stofnsett verði sérstakt bæjarfógetaembætti kaupstaðarins.“

Ástæður hreppsnefndar Ólafsvíkurhrepps til þess að sækja um kaupstaðarréttindi eru þær hinar sömu og annarra hreppa sem undanfarið hafa fengið kaupstaðarréttindi.

Hinn 22. maí fór fram skoðanakönnun meðal kjósenda í Ólafsvíkurhreppi um kaupstaðarmálið. Á kjörskrá voru 714, þátt tóku í skoðanakönnuninni 558, eða 78% kjósenda, 538 af þeim sem atkv. greiddu voru fylgjandi því að Ólafsvíkurhreppur fengi kaupstaðarréttindi, en 9 andvígir.“

Íbúar Ólafsvíkur eru í dag rúmlega 1200. Umsvif eru mikil í atvinnulífi staðarins, enda er Ólafsvík meðal stærri útgerðar- og framleiðslustaða í fiskiðnaði landsins. Þar eru gerðir út tveir skuttogarar og 20–30 fiskibátar. Ársafli á land s. l. ár var um 20 þús. tonn af bolfiski og útflutningsverðmæti pr. íbúa með því hæsta hér á landi. Íbúar hafa aðalatvinnu við framleiðslustörf í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Vinnuálag er mikið. Við slíkar aðstæður gerir fólk auknar kröfur um opinbera þjónustu.

Samkv. skilagrein hreppsnefndar kemur fram að aðeins einu sinni í viku milli kl. 13 og 17 er opin afgreiðsla frá sýslumannsembættinu á staðnum, sem á að fullnægja þjónustu við íbúana á sviði almannatrygginga, við sjúkrasamlag, innheimtu opinberra gjalda og afgreiðslu vottorða auk annarrar embættisrækslu. Þessi stutti afgreiðslutími fullnægir engan veginn brýnustu þörfum fólks í opinberum samskiptum, enda er stór hluti þessa fólks bundinn við atvinnu sína þessar fáu klukkustundir.

Í Ólafsvík er útibú frá Landsbanka Íslands og starfandi sparisjóður. Með tilkomu ríkisbanka færðust heim í hérað öll lánaviðskipti varðandi allan atvinnurekstur . Hraði í viðskiptum eykst og því er nauðsyn að opinber skjöl, svo sem veðmálabækur, séu á staðnum til daglegrar notkunar. Það er afar mikilvægt atriði.

Um langt árabil hafa sveitarstjórnir í Ólafsvík farið fram á aukna þjónustu á þessu sviði, en án umtalsverðs árangurs. Kröfu íbúanna um aukna þjónustu, álíka og sambærilegir staðir hafa fengið, hefur sveitarstjórn því ákveðið að fylgja eftir með því að leita til Alþingis með ósk um kaupstaðarréttindi. Ég tel ástæðu til að taka sérstaklega fram að sveitarstjórn í Ólafsvík mun eftir sem áður taka virkan þátt í samvinnu og samstarfi með öðrum sveitarfélögum í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu um sameiginleg verkefni og taka jákvæða afstöðu til fjárhagslegra skuldbindinga hvað slík sameiginleg verkefni varðar.

Frv. þetta hljóðar þannig: „

1. gr.

Ólafsvíkurhreppur skal vera kaupstaður og sérstakt lögsagnarumdæmi. Nær umdæmið um allan núverandi Ólafsvíkurhrepp og heitir Ólafsvíkurkaupstaður. Heyrir umdæmið til Vesturlandskjördæmi.

2. gr.

Stofnsetja skal sérstakt bæjarfógetaembætti í kaupstaðnum.

3. gr.

Sýslunefnd Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og bæjarstjórn Ólafsvíkurkaupstaðar skulu semja sín á milli um skiptingu þeirra sjóða, sem við gildistöku laga þessara eru í eign eða vörslu Snæfellsness- og Hnappadalssýslu. Einnig skulu sömu aðilar semja um fjárskuldbindingar, ábyrgðir og önnur atriði er þá varða og upp kunna að koma vegna laga þessara. Nái þessir aðilar ekki samkomulagi skal félmrh. úrskurða hvernig með skuli fara.

4. gr.

Að öðru leyti fer um málefni kaupstaðarins samkv. sveitarstjórnarlögum nr. 58 29. mars 1961 og samþykktum settum samkv. þeim lögum.

5. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til næstu sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram skal núverandi hreppsnefnd fara með stjórn kaupstaðarins.“

Ég þarf ekki að rökstyðja frekar þessa ákveðnu beiðni hreppsnefndar. Rökin fyrir málinu eru nákvæmlega þau sömu og fram hafa komið hjá þeim sveitarfélögum er fengið hafa kaupstaðarréttindi á undanförnum árum. Ég nefni hér til Dalvík, Grindavík, Bolungarvík, Eskifjörð, Seltjarnarnes, en öll þessi sveitarfélög fengu kaupstaðarréttindi árið 1974 eftir umfjöllun hér á hv. Alþingi, og Selfoss sem fékk kaupstaðarréttindi 1977. Opinber þjónusta við íbúana er of lítil, miðað við vaxandi umsvif og íbúafjölda, sem fæst leiðrétt að verulegu leyti með kaupstaðarréttindum.

Um langt árabil hafa sveitarstjórnarmenn á landsþingum og fundum samtaka sveitarfélaga bent á nauðsyn þess, að réttarstaða sveitarfélaga í landinu yrði sú sama. Því miður hefur hægt miðað og hefur þróunin orðið sú að fjölmörg fjölmennari sveitarfélög hafa sótt þessa leiðréttingu með því að sækja um kaupstaðarréttindi.

Herra forseti. Það er því farið fram á að Alþingi samþykki þessi réttindi til handa Ólafsvíkurhreppi og treysti ég á hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, að hraða afgreiðslu þess.

Ég vil óska eftir að frv. verði að lokinni þessari umr. sent til 2. umr. og hv. félmn.