03.02.1983
Neðri deild: 34. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. flytjum við þm. Vesturl., sem eigum sæti hér í hv. deild, frv. til 1. um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur lagt málið hér fyrir til umr. og ég hef ekki ástæðu til að bæta þar miklu við öðru en því, að ég vænti þess að hv. deild og sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar eftir að umr. er lokið hér í deild flýti því eins og kostur er svo að málið hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

En ég kom hér upp vegna þess að ég tel að það sé ástæða til þess, þegar hér liggur fyrir frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Ólafsvíkurhrepp, að velt sé upp þeim öðrum möguleika á uppbyggingu sveitarfélaga á utanverðu Snæfellsnesi. Mín skoðun er sú, að æskilegt sé þegar gengið er til breytinga á stöðu sveitarfélaga, reyndar hvort sem það er á Snæfellsnesi eða annars staðar, að litið sé til þess að það sé um ákveðna framþróun að ræða. Ég tel að þó að viss breyting eigi sér stað í sambandi við rétt þessa einstaka sveitarfélags, þá eigi sér lítil breyting stað í sambandi við önnur sveitarfélög þar í kring og jafnvel að um afturför verði þá að ræða. Ég tel að æskilegt hefði verið að nú hefði verið tekin upp umr. um það, að sveitarfélögin á utanverðu Snæfellsnesi — (Forseti hringir.) Herra forseti. Mér finnst dálítið óþægilegt að tala undir þessum stöðugu hringingum — nú þegar rætt er um breytingar á stöðu sveitarfélaga á utanverðu Snæfellsnesi, þá verði heldur farin sú leið að sveitarfélögin þar sameinist í eitt stórt og öflugt sveitarfélag. Þegar ég tala um það á ég við að Breiðavíkurhreppur, Neshreppur utan Ennis, þ e. sveitarfélagið sem Rif og Hellissandur eru í, Ólafsvíkurhreppur og Fróðárhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag. Með því væri byggð upp öflug þjónustueining á utanverðu Snæfellsnesi. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðmundur J., fyrrv. frambjóðandi á Snæfellsnesi, lítur svo á að ég sé að mæla hér fyrir föðurlandssvikum á utanverðu Snæfellsnesi. Ég vil mótmæla því, og jafnvel þó að hægt hefði verið að meta stöðuna þannig þegar Guðmundur J. var þar í framboði, þá hafa hlutir breyst það mikið á undanförnum áratugum, að þó að þessi skipan hafi verið talin ómöguleg og hrein fjarstæða fyrir 10–15 árum, þá er hún að mínu mati jafn sjálfsögð í dag.

Fyrir 10–15 árum voru sjávarþorp eins og Hellissandur og Ólafsvík að berjast fyrir tilverurétti sínum. Þar voru hafnir mjög ónógar, þar voru lélegar skólabyggingar og þjónustuaðstæður aðrar. Nú hafa þessir staðir byggt upp sína þjónustuaðstöðu og standa sjálfstæðir og tryggir fyrir framhaldi byggðaþróunar. Þeir eru ekki lengur að berjast fyrir tilveru sinni. Svona er þetta víða um landið. Slíkir staðir lögðu ekki í það að sameinast öðru sveitarfélagi vegna þess að þeir óttuðust á ákveðnu tímabili að við það mundi framþróun í þeirra eigin sveitarfélagi stöðvast. Sú hætta er ekki lengur fyrir hendi á utanverðu Snæfellsnesi. Staðir eins og t. d. Hellissandur og Ólafsvík eru byggðir upp félagslega á mjög svipuðum grunni í dag.

Enda þótt ég vilji láta þessa skoðun mína í ljós núna, þá er ég ekki að tala fyrir því að þetta mál tefjist í einu eða neinu. Ég taldi aðeins rétt að þessi skoðun kæmi hér fram. Ég tel að einhver stefna í þessa átt sé mjög nauðsynleg til þess að byggja upp öflugri og betri félagslegar einingar vítt um landið. Menn hafa kannske ekki átt von á að sú þróun byrjaði á utanverðu Snæfellsnesi, en ég veit að hugur margra í þessum byggðum stefnir að þessu. Því getur farið svo, jafnvel þó að það eigi sér ekki stað á næsta ári eða svo í tengslum við þetta frv., að ekki verði langt í land að við á utanverðu Snæfellsnesi sameinum sveitarfélög okkar í eitt öflugt og stórt sveitarfélag. Það verður nú ekki hægt að nefna það Neskaupstað — en jafnvel Snæfellskaupstað eða eitthvað þess háttar.