03.02.1983
Neðri deild: 34. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

149. mál, kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í hinum fámennu sýslum landsins gerist það æ oftar að fjársterkustu sveitarfélögin óska eftir kaupstaðarréttindum. Afleiðingin verður sú, að þau sem eftir eru eru verr undir það búin að sinna sameiginlegum útgjöldum, m. a. sýsluvegum og fleiri greiðslum sem þau inna af hendi. Þetta leiðir hugann að því, að í rauninni er það fráleitt fyrirkomulag sem við höfum í þessu landi, að við séum með sveitarfélög jafn misrétthá og þau eru. Ég tel að undir mörgum kringumstæðum komi þetta þannig út að gjaldandi opinberra gjalda, t. d. í nágrannasveitarfélagi, þarf að keyra framhjá innheimtumanni opinberra gjalda miklu lengri veg til síns gamla staðar vegna þess að sveitarfélag er rifið út úr samhengi.

Ég get ekki lagst gegn því að Ólafsvíkurhreppur fái kaupstaðarréttindi. Hann hefur til þess fullan rétt eins og önnur sveitarfélög sem það hafa fengið. En ég tel að þessi þróun sé ákaflega varhugaverð og að það hljóti að verða verkefni félmrn. að leggja til breytingar á sveitarstjórnarlögum, sem tryggi öllum sveitarfélögum jafnan rétt, þannig að sveitarfélög sjái sér ekki hag í því af fjárhagsástæðum, til að komast undan greiðslum í sameiginlega sjóði sýslnanna, að segja skilið við þau sveitarfélög sem þau hafa verið í samstarfi við.