03.02.1983
Efri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir 159. máli, sem er frv. til l. um Olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o. fl. Þetta mál er flutt í framhaldi af fiskverðsákvörðun og því sem þeirri ákvörðun var tengt um áramótin s. l.

Eins og hv. þm. er kunnugt hafa verulegir erfiðleikar steðjað að íslenskri útgerð á síðasta ári. Þessa erfiðleika má fyrst og fremst rekja til þess, að aflaverðmæti dróst saman á árinu um 16%. Þar nefni ég fyrst loðnubrest. Á árinu voru loðnuveiðar ekki stundaðar, enda talið tvímælalaust nauðsynlegt að friða loðnuna og freista þess að loðnustofninn fengi styrkst að nýju, eins og allir hv. þm. þekkja. Óvænni varð þó sá brestur sem á þorskveiðum varð, en þar varð verulegur samdráttur. Gert var ráð fyrir að þorskafli yrði á árinu 450 þús. lestir. Það var það magn sem fiskifræðingar höfðu gert tillögur um. Hins vegar reyndist þorskafli, þegar upp var staðið, verða um það bil 370 þús. lestir. Samtals nemur þetta um 16% samdrætti í aflaverðmæti, eins og ég rakti áðan.

Við þessum vanda var að nokkru brugðist með bráðabirgðaaðgerðum í sambandi við efnahagsaðgerðir 21. ágúst s. l. og síðan nánar í ýmsum aðgerðum sem framkvæmdar voru í sept. og liggja reyndar fyrir hv. Alþingi í öðru frv. Við aðgerðirnar í sept. var talið að afkoma útgerðar væri að meðaltali um það bil -2% ef afli glæddist að nýju og yrði svipaður og hann var á árinu 1981, en um það bil -5% ef aflabrögð glæddust ekki. Ekki var talin ástæða þá til að ganga lengra í aðgerðum vegna útgerðarinnar vegna þeirrar óvissu sem ríkti um aflabrögð. Þessi mál skýrðust þegar að áramótum leið. Í ljós kom þá, að ekki er unnt að gera ráð fyrir betri aflabrögðum á því ári sem nú er hafið en reyndust á árinu 1981, og er því afkoma útgerðar verri en þær skárri tölur gefa til kynna sem ég nefndi.

Á tímabilinu frá því í sept. til áramóta hefur jafnframt orðið mjög mikil hækkun á ýmsum rekstrarliðum útgerðarinnar, sérstaklega á olíu, viðhaldi og veiðarfærum. T. d. hafði olía hækkað á bilinu frá 19–26% á því tímabili. Nokkur munur var á hækkun gasolíu og svartolíu. Því var við verulegan vanda að stríða í sambandi við fiskverðsákvörðun um áramótin. Þetta kemur greinilega fram í aths. við lagafrv. þetta og töflu, sem þar er birt, um hreinan hagnað sem hlutfall af tekjum. Þar kemur fram, að samtals var þá talið að tap útgerðarinnar væri um 14.7%.

Við ákvörðun um fiskverð náðist ekki samkomulag í Verðlagsráði þannig að málið kom til yfirnefndar. Mjög ítarlega var þá um málið fjallað, bæði í viðræðum innan yfirnefndarinnar og á fjölmörgum fundum sem ég átti með hagsmunaaðilum, m. a. í nefnd sem þeir sátu í og hóf að líta á þennan vanda þegar um mánaðamótin nóv.-des.

Segja má að málinu hafi verið þannig hagað að ákveða fyrst hver fiskverðshækkun gæti orðið. Í því sambandi var m. a. skoðað hvernig tekjur sjómanna hefðu skerst með aflabrestinum og samanburður gerður á tekjum sjómanna og manna í landi. Í ljós kom, að við þann aflabrest sem hafði orðið höfðu tekjur sjómanna samkv. þessum samanburði skerst mjög verulega. Lögð var til grundvallar talan 100 árið 1977 í þeim samanburði. Eins og kemur fram í töflum, sem einnig fylgja í aths. með frv., var hlutfall fiskverðs og kauptaxta í okt. 1982 komið niður í 87 af því sem það var 1977, en hlutfall af tekjum sjómanna og annars vegar verkamanna og hins vegar iðnaðarmanna komið niður í annars vegar 90, en hins vegar 99 af því sem það var 1977, þ. e. 100. Þjóðhagsstofnun taldi því að fiskverð mætti a. m. k. hækka um um það bil 10% til að náð yrði fullum jöfnuði að nýju. Niðurstaðan var þó sú að hækka fiskverð um 14%. Má segja að þá hafi verið lagt til grundvallar annars vegar hlutfall kauptaxta og fiskverðs og svo samanburður á tekjum, sem ég nefndi áðan.

Ég vil leyfa mér að segja, að sú fiskverðshækkun er nokkuð rífleg. A. m. k. benda þær tölur sem fram komu í töflunum til þess, að fullum jöfnuði og aðeins meira hafi verið náð. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu, að samanburður af þessu tagi er alltaf mjög erfiður. Vinnuskilyrði eru önnur, vinnutími annar o. s. frv. Ég er einnig þeirrar skoðunar að leggja beri áherslu á að sjómenn hafi sæmilegar tekjur. Sjómenn hafa hins vegar alltaf tekið fram, að þeir væru tilbúnir að taka á sínar herðar byrðar eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Það tel ég að þeir geri með þessu.

En þrátt fyrir þessa fiskverðshækkun var langt frá því að vandi útgerðarinnar væri leystur eða rekstrargrundvöllur fundinn, sem gæti talist viðunandi.

Í ítarlegum viðræðum um þau mál má segja að tvær leiðir hafi verið taldar koma til greina. Annars vegar hækkun olíugjalds úr 7% í 17%, sem hefði þá skapað útgerðinni að meðaltali um það bil -3% rekstrargrundvöll, eða hins vegar hækkun á olíuniðurgreiðslum í 35% eða á bilinu frá 28–35%, eins og rætt var um í þessum viðræðum. Eftir mikla vinnu og fundi varð niðurstaðan sú að gera ráð fyrir 35% niðurgreiðslu á olíu. Að þeirri samþykkt stóðu fulltrúi útgerðar og oddamaður í yfirnefnd, en fulltrúar vinnslu sátu hjá. Fulltrúar vinnslu gáfu þá skýringu á hjásetu sinni, að þeir teldu óæskilegt að afla tekna til olíuniðurgreiðslu með útflutningsgjaldshækkun, en í því samkomulagi sem gert var við útgerðarmenn varð sú leið fyrir valinu.

Ég viðurkenni, að það orkar vissulega tvímælis að greiða niður olíu. Það kann að leiða til þess að ekki sé gætt sama sparnaðar og þyrfti. Staðreyndin er þó sú, að olían á fiskiskip er verulega miklu dýrari hér en í nágrannalöndum okkar og munar þar um 40%. Einnig vil ég vekja athygli á því, að sú niðurgreiðsla sem hér um ræðir er hvergi nærri eins mikil og varð meðan olíusjóður fiskiskipa starfaði á árunum 1973–1975. Þá var olíuniðurgreiðsla orðin, þegar mest varð, um 3/4 af olíuverði og var þá talið að um misnotkun gæti verið að ræða. Ég tel að með þessari niðurgreiðslu sé vart um það að ræða, enda hefur olíunotkun mjög dregist saman, önnur en til fiskiskipa, og því minni ástæða til að óttast slíkt. Engu að síður vil ég leggja áherslu á, að ég lít svo á að hér sé um aðgerð að ræða sem nauðsynleg reynist til að koma útgerðinni yfir þá erfiðleika sem aflabresturinn veldur.

Ég vil geta þess hér, sem kom fram í hv. Nd. við afgreiðslu málsins, að ég er að undirbúa skipun nefndar til að skoða rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og leiðir til að bæta hann, skoða alla mögulega þætti í því sambandi, en að sjálfsögðu vonast menn mjög til þess að aflabrögð hér á landi muni glæðast að nýju. Ýmislegt bendir til þess að loðnustofninn sé á uppleið og vonandi hressist þorskstofninn þá jafnframt. Vel má vera að þarna séu nokkur tengsl á milli. En engu að síður er nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að bæta rekstrargrundvöllinn.

Í sambandi við það samkomulag sem var gert var fallist á að fella niður stimpilgjald af skuldbreytingalánum útgerðarinnar, sem nú er verið að framkvæma, og sömuleiðis var fallist á að leita eftir því við viðskiptabankana að ekki yrði tekið lántökugjald. Ástæðan til þess er m. a. sú, að þarna er ekki um nýtt fjármagn að ræða. Viðskiptabankarnir leggja skuldbreytingabréfin inn á yfirdrátt sinn í Seðlabankanum. Þeir liggja m. ö. o. ekki með þessi lán. Reyndar er skuldbreytingin þar með þeim mjög til hagsbóta. Þeir lækka yfirdrátt sinn við Seðlabankann og þá refsivexti sem þeir hafa orðið að greiða þangað. Því er ekki óeðlilegt að bankinn gefi eftir lántökugjaldið. Ákvæði um stimpilgjaldið er í 5. gr. frv.

Herra forseti. Ég gæti að sjálfsögðu flutt alllanga ræðu um sjávarútvegsmálin og þá mörgu erfiðleika sem þar er við að stríða, m. a. um aðrar aðgerðir, sem í gangi eru, eins og skuldbreytinguna og fleira. En á þessum sérstaka fundi deildarinnar sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. um of nema hv. þm. óski eftir upplýsingum. Þá mun ég að sjálfsögðu veita þær.

Ég vil hins vegar geta þess, að ég met það mikils að hv. Ed. hefur fallist á að taka málið til skjótrar meðferðar. Staðreyndin er sú, að ég hafði samið við olíufélögin um að veita greiðslufrest til síðustu mánaðamóta. Sá tími er liðinn og mjög nauðsynlegt fyrir sjávarútveginn að vita að hverju er gengið og hvernig þessum málum verður skipað. Því er það einlæg von mín, að hv. nefnd geti afgreitt þetta mál mjög fljótt.

Ég vil geta þess, að í meðferð hv. Nd. urðu tvær breytingar á þessu frv. Nefndin felldi niður 3. mgr. 2. gr., um útflutningsgjald af fisksölu fiskiskipa í erlendri höfn. Þetta atriði hefur verið mjög umdeilt á milli sjómanna og útgerðarmanna. Það var sett inn í frv. eins og um samdist á milli útgerðarmanna og fiskvinnslunnar. Sjómenn tóku ekki þátt í því frekar en öðru sem varðar frv. eins og það var ákveðið í yfirnefndinni. Ég lagði því áherslu á að hv. sjútvn. Nd. skoðaði þetta mál vandlega. Það gerði nefndin og meiri hl. hennar lagði til að 3. mgr. 2. gr. yrði felld niður. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst það ekki svo róttæk breyting að neinum sérstökum vandræðum valdi, en hún er vissulega umdeilanleg. Það má vitanlega deila um hvort líka á að greiða niður olíu sem tekin er erlendis. Mér sýnist vafasamt að greiða niður olíu sem tekin er erlendis og ekki síst eftir að útflutningsgjaldið af fisksölu þar er fellt niður. Sjómenn hafa hins vegar haldið því mjög ákveðið fram, að í gildi séu samningar milli þeirra og útgerðarmanna sem takmarki það sem taka má af ísfiski. Að vísu er um deilt hvort þeir samningar binda slíkt svo að engu verði breytt. Af sölu erlendis er tekið æðimikið af óskiptu eða um það bil 30%.

Jafnframt varð samkomulag um það milli mín og flm. ákvæðis til bráðabirgða í Nd. að taka inn það ákvæði til bráðabirgða, sem ég er að vísu ekki með hér í höndunum, en fjallar um að Alþingi kjósi fjóra menn og sjútvrh. skipi þrjá fulltrúa hagsmunaaðila í nefnd til að endurskoða lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ég gat þess í Nd. að þetta hefur verið í undirbúningi um nokkurra mánaða skeið, en hagsmunaaðilar hafa verið mjög hikandi við að fara í slíka endurskoðun og sumir óttast að farið yrði úr öskunni í eldinn ef Verðlagsráð yrði t. d. lagt niður í núverandi mynd. Ég tel hins vegar, eftir þau átök sem hafa verið í Verðlagsráði, svo sannarlega skaðlaust að þetta sé athugað. Með nokkurri breytingu frá mér var ákvæði til bráðabirgða samþykkt.

Herra forseti. Ég vil að þessari framsögu lokinni leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.