03.02.1983
Sameinað þing: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

268. mál, fjarskiptasamband við skip á Breiðafjarðarmiðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að áherslu verður að leggja á að strandstöðvar Pósts og síma geti fullnægt þeirri skyldu sem á þeim hvílir samkv. lögum um tilkynningarskyldu. Á það hef ég lagt áherslu í öllum undirbúningi að framkvæmdum hjá Pósti og síma undanfarin ár, enda má segja að sem betur fer hefur ýmsum eyðum í því kerfi verið lokað eða mjög verið úr bætt. Engu að síður er það rétt, sem kom fram frá hv. fyrirspyrjanda, að eyður hafa verið við sunnanverða Vestfirði og út af Breiðafirði. Þess vegna var þegar í framkvæmdaáætlun Pósts og síma s. l. haust, sem var lögð til grundvallar fjárlagabeiðni stofnunarinnar, gert ráð fyrir stöð á Gufuskálum og sótt um fjárveitingu til fjmrn. og fjvn. Sú fjárveiting fékkst og þar mun verða sett upp stöð í samræmi við það. En mér er jafnframt tjáð að nú starfræki Póstur og sími þar bráðabirgðastöð. Ég geri mér því fastlega vonir um og hef ekki ástæðu til að ætla annað en að úr þessu verði bætt.