03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

53. mál, umferðarmiðstöð í Borgarnesi

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 54 er að finna till. til þál. um umferðarmiðstöð í Borgarnesi. Hv. flm. þessarar till. eru auk mín aðrir hv. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, Eiður Guðnason, Skúli Alexandersson, Jósef H. Þorgeirsson og Friðjón Þórðarson. Tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um athugun á breyttu skipulagi fólksflutninga með tilliti til þess að komið verði á fót umferðarmiðstöð í Borgarnesi.“

Ég vil fyrst segja það, að auðvitað hefur ýmislegt verið ritað og rætt og sem betur fer hefur ýmislegt verið gert, þótt meira hefði það mátt vera, að því er varðar málefni skyld því sem hér er til umfjöllunar. Ég vildi leyfa mér í upphafi míns máls að vitna til inngangsorða rits, sem kom út á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrir nokkrum árum og fjallar um samgönguþjónustuna á Íslandi, hugleiðingar og úrbætur í þeim efnum. Þetta rit er ekki mikið að vöxtum, en í ýmsu tilliti er vikið að því sem gæti heitið rökstuðningur — a. m. k. að hluta til — fyrir því máli sem hér er á dagskrá.

Umræddu riti er fylgt úr hlaði með þessum inngangsorðum, með leyfi forseta: „Í riti því, sem hér fer á eftir og fjallar um endurskipulagningu samgönguþjónustunnar á Íslandi, er ekki reynt að komast að neinum endanlegum niðurstöðum í ákveðnum tillögum um endurbætur á þeirri samgönguþjónustu, sem er í dag veitt hér á landi. Tilgangur þessa verks er að benda á þann vanda sem við er að etja og varpa fram nokkrum hugmyndum um lausn hans.“

Síðan segir: „Brýnt er að gerð verði heildarúttekt á samgönguþjónustunni og tekin verði ákvörðun um stefnumörkun og markmið.“

Ég vil ennfremur leyfa mér að vitna til þess hluta ritsins sem fjallar um flutningamiðstöðvar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Til eru lög frá árinu 1947, sem fjalla að takmörkuðu leyti um það málefni sem hér er til umr., þ. e. flutningamiðstöðvar. Lög þessi nefnast „lög um afgreiðslustöðvar fyrir áætlanabifreiðar“ og fjalla því ekki um alhliða flutningamiðstöðvar. Lög þessi gera ráð fyrir að ríkisstj. veiti sérleyfishöfum kost á að reisa og reka slíkar afgreiðslustöðvar með styrk úr ríkissjóði, er ákveðinn sé af fjárl. Í 4. gr. þessara laga er heimildarákvæði fyrir ríkisstj. að hafa frumkvæði í þessum málum og reisa og reka þessa gerð afgreiðslustöðva. Verði af því skal árlega verja helmingi sérleyfisgjalds til niðurgreiðslu byggingarkostnaðar.

Eins og áður hafði verið getið, segir ennfremur, „er nú þegar orðin viss samhæfing í fólksflutningum milli bifreiða og flugvéla og má þar til nefna Egilsstaði þar sem almenningsbifreiðar aka frá flugvellinum niður á firðina í næsta nágrenni Egilsstaða. Þannig má hugsa sér að í vissum byggðarlögum sé flugstöðvarbygging jafnframt aðalflutningamiðstöð héraðsins. Þar hefðu almenningsbifreiðar fasta viðkomu og þangað mætti skila og sækja varning sem vöruflutningabifreiðar flyttu. En þetta á þó aðeins við í undantekningartilfellum, þar sem flugvellir eru nær ætíð staðsettir utan þéttbýlis, og er það af ýmsum ástæðum.“

Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma. Hins vegar langar mig að síðustu, af því að ég er tekinn til við að vitna í þetta umrædda rit, að lesa örlítið lengra o ekki síst að því er varðar innanhéraðssamgöngur. Í þessu riti er nokkuð fjallað um margvíslega samhæfingu að því er varðar hina ýmsu þjónustuþætti samgangna, en einn er sá þáttur samgangna sem ekkert hefur verið minnst á í þessu umrædda riti fyrr en hér, og þar stendur:

„Áður en svokölluð tankvæðing mjólkur fór að tíðkast hér á landi sáu mjólkurbílar — ekki síst þeir — um innanhéraðssamgöngur. Oftast voru þessar bifreiðar svokallaðar „hálfkassabifreiðar“, sem byggðar voru til þess að flytja farþega jafnt sem mjólk, póst og annan varning. Bifreiðastjórar þessara bifreiða sinntu erindum fólks í kaupstað og veittu margháttaða þjónustu til mikils hagræðis þeim er í dreifbýlinu bjuggu. Eins og kunnugt er er þessi skipan aflögð og þarf ekki að rekja það nánar.

Að sjálfsögðu hafa komið til á seinni tíð margs konar samgöngutæki, sem nýta mætti og í ríkari mæli heldur en gert er. Í því sambandi er ekki síst vert að minnast á skólabíla, sem væri vissulega hægt að nýta í ríkari mæli til flutninga heldur en gert er.“.

Ég ætla ekki að vitna frekar í þessa skýrslu. Það er auðvitað ljóst, að hún fjallar um málið á breiðari vettvangi en sú till. sem hér er til umfjöllunar, þ. e. um umferðarmiðstöð í Borgarnesi. Þó skarast þetta mál að meira eða minna leyti.

Það er mála sannast, að umfjöllun á meðal fólks að því er varðar umferðarmiðstöð í Borgarnesi hefur orðið æ háværari eftir því sem tímar hafa liðið. Þetta er á margan hátt mjög skiljanlegt. Eins og menn vita er á grundvelli allmargra sérleyfa ekið um Borgarnes. Þar skilja leiðir, eins og kunnugt er, og gefur það þeirri hugsun að sjálfsögðu undir fótinn að það kynni nú að vera æskilegt að reisa umferðarmiðstöð í Borgarnesi.

Ég vil taka það fram að gefnu tilefni, að þeir sérleyfishafar, sem hafa sinnt þeim leiðum sem hér er vikið að, þ. e. sérleyfishafarnir sem aka í Borgarnes og Akranes reyndar jafnframt, á Snæfellsnes, á Vestfirði, á Strandir og Norðurleið, hafa staðið sig með ágætum hver á sinn hátt og ég hef í sjálfu sér ekkert út á þeirra störf að setja. En till. sem þessi felur það ekki síst í sér að gerð verði athugun á því og það verði reynt að draga fram í dagsljósið hvaða möguleikar búa í viðkomandi starfsumhverfi vegna þeirra sem eiga að sinna þessari þjónustu og ekki síður vegna þeirra sem þurfa og eiga að njóta þessarar þjónustu.

Nú geri ég mér grein fyrir því, að á grundvelli reynslunnar hafa orðið breytingar á undanförnum árum á ýmsum þjónustuþáttum sérleyfishafa. Hins vegar er það deginum ljósara, að á grundvelli reynslunnar hafa þeir ekki gengið til þess verks að stofna til umferðarmiðstöðvar í Borgarnesi, a. m. k. hefur ekki heyrst mikið frá ágætum sérleyfishöfum í því efni. Ég tel því mjög æskilegt að sú könnun, sem till. gerir ráð fyrir, verði gerð. Ég er viss um að könnunin muni leiða í ljós að sérleyfishafarnir muni sjá sér hag í því að stofna til samvinnu í þessum efnum.

Ég ætla ekkert að fullyrða um það hér, með hvaða hætti slík umferðarmiðstöð risi eða hver mundi kosta hana eða hvernig hún yrði rekin að öllu leyti. Mér fyndist þó eðlilegt að lokinni þessari könnun, sem ég er, eins og ég sagði áðan, viss um að leiðir í ljós að umferðarmiðstöð mun þykja góður kostur í þessu tilfelli, að sérleyfishafarnir yrðu langsamlega atkvæðamestir í að kosta slíkt fyrirbæri.

Ég ætla ekkert að fjölyrða um þetta frekar. Eins og kunnugt er hafa samgöngur aukist allverulega. Ég held að það megi fullyrða að skilyrði til bættrar þjónustu hafi batnað. Það er auðvitað deginum ljósara að hagræðingar er þörf á mörgum sviðum samgöngumála, ekki aðeins að því er varðar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, heldur — og ekki síður — að því er varðar nýtingu þeirra til hagsbóta fyrir samfélagið.

Herra forseti. Undanfarin ár hafa farið allt að 50 þús. manns með sérleyfisferðum um Vesturland á ári hverju. Með tilkomu brúar yfir Borgarfjörð fara allflestir farþeganna um Borgarnes. Meðalnýting hjá sérleyfum hefur verið misjöfn eða frá um það bil 20–80% eftir árum og árstímum. Eins og ég sagði áður eru fimm sérleyfishafar sem aka frá Reykjavík og um Borgarnes. Þau sérleyfi, sem þessi till. varðar, mynda nokkuð samfellt umferðarnet og hljóta því að leiða hugann að aukinni hagkvæmni með tilliti til þeirrar till. sem hér er flutt.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umr. legg ég til að till. verði vísað til atvmn.