03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

53. mál, umferðarmiðstöð í Borgarnesi

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrst örfá orð um þáltill. almennt. Um þær mætti ræða allítarlega, en ég vil taka fram í upphafi, til að valda ekki misskilningi, að þó að þessari sé vísað til samgrh. gildir það ekkert frekar um það rn. eða þann hæstv. ráðh. sem því gegnir nú, heldur er ég bara að tala um meðferð þáltill. yfirleitt. Einhver mundi segja að það væri nokkuð misjafnt hvernig meðferð þær fengju hjá stjórnvöldum, sjálfsagt er það eitthvað, en meiri hluti þáltill., þá er þetta plagg gott eða sæmilegt eða lélegt, ef það fær afgreiðslu hér á þingi, fer í skúffu einhvers rn., ég geri ekki upp á milli þeirra, og meginreglan er sú, að það er að engu haft. En oft og tíðum geta einstakir þm., og ég er ekki að gera lítið úr hv. flm. þessa máls, sagt frá því heima í héraði að þeir hafi fengið samþykkta þáltill. um eitt og annað.

Benedikt Gröndal fyrrv. þm. flutti um þetta fróðlegt erindi í útvarp, sem birtist síðar á prenti og var mjög athyglisvert, þ. e. um þáltill. yfirleitt og hvaða tilgangi þær þjóna og hvað gildi þeirra virðist sífellt minnka, því miður. Ég vildi bara — ég hef gert það hér áður — benda á að slag í slag eru hérna ágætar þáltill. samþykktar. Þær sökkva í skúffurnar í rn. og sjá svo ekki dagsins ljós fyrr en þær eru teknar hér aftur upp á þingi. Það væri hægt að nefna þáltill. sem samþ. hafa verið hérna þrisvar, fjórum sinnum og að engu hafðar og það oft í brýnum málum.

Hins vegar sýnist mér þetta um þessa ágætu till., sem ég ætla ekkert að fara að beita mér á móti: Mér virðist þessir ágætu flm. vera að leita að rökunum fyrir henni. Þá leitar á mann: Hefur þessi ósk komið frá viðkomandi sveitarfélagi? Ég er ekkert að leggjast á móti þessari umferðarmiðstöð. Hefur komið ósk frá sérleyfishöfum, frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum? Það kom ekki fram. Það var bent á að bifreiðastjórar hefðu slæma aðstöðu og þeir sem biðu eftir áætlunarbílum o. s. frv. hefðu slæma aðstöðu. Það má vel vera að þetta megi eitthvað endurskipuleggja. Ég er ekkert viss á því. Sjálfsagt má skoða málið. Ég er nokkurn veginn viss um að það verður ekkert skoðað af hv. samgrn. — og er ég ekkert að beina frekar skeytum mínum að því en öðrum rn. E. t. v. er heppilegt að umferðarmiðstöðvar séu eins og skiptistöðvar Strætisvagna Reykjavíkur. T. d. sé hægt að taka áætlunarbifreið vestur á Snæfellsnesi, fá skiptimiða í Borgarnesi og bíða þar eftir öðrum bíl.

Ég veit að þeim virðulegu þm., sem flytja þessa þáltill. gengur ekkert nema gott eitt til, en ansi gengur þeim illa að tína einhver sæmileg rök fram um að þetta sé brennandi nauðsyn. Þeir gefa meira í skyn að þetta gæti orðið til bóta. Og 4. þm. Vesturl. kemur hreinlega með þá till. að þarna sé skiptistöð fyrir alla áætlunarbíla sem fara lengra vestur o. s. frv. Ég dreg mjög í efa að það sé nokkur vilji fyrir þessu eða nokkur hagkvæmni í þessu. Það má vel vera að það sé.

Ég efa ekki að þeim gengur gott eitt til og þeir vilja láta sína kjósendur í Borgarnesi vita af því, úr öllum flokkum, að þeir séu vakandi og þeir séu framúrstefnumenn. Þeir eru hér með alls konar mál sem aldrei hafa komið upp í héraði einu sinni. Þetta eru framúrstefnumenn, benda á hvað betur megi fara o. s. frv. En ég vil bara benda á að svona skipulagsbreytingu, eins og 4. þm. Vesturl. er að leggja til, hefði þá átt að reifa í grg. sem allsherjarskipulagsbreytingu á fólksflutningum til Vesturlands og víðar.

Það fara góðar þáltill. í skúffur rn. og rykfalla þar. Mér er sagt að öll rn. séu full af skýrslum frá sérfræðingum og samþykktum þáltill. En mér virðist vanta einhvern veginn neistann í þessa þáltill. Fyrst góðar þáltill. rykfalla í skúffum rn. held ég, jafnvel þó að þessi verði samþykkt, að hún eigi eftir að liggja ansi lengi í skrifborðsskúffum rn. Og ef það á að fara að breyta algerlega skipulagi fólksflutninga á að taka það fram í grg. en ekki að flagga því eins og einhverri meinleysis örlítilli hagræðingu.