03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

49. mál, framkvæmd skrefatalningarinnar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég sagðist áðan ekki ætla að hafa allt of mörg orð um þessa till. og sleppti ýmsu, sem ég hef fengið í hendurnar í sambandi við till., taldi það réttara. En ég heyri að hv. flm. kann því illa. M. a. segir í bréfi frá Pósti og síma um till.:

„Greinargerðin er að mörgu leyti hroðvirknislega unnin. M. a. er gefið í skyn að tölurnar í töflunni fyrir árin 1979–1982 séu heildarskref, enda þótt skýrt sé tekið fram í upplýsingum í bréfi sem sent var til frú Jóhönnu Sigurðardóttur alþm. að um innanlandsskrefasölu væri að ræða.

Ennfremur sendist afrit af bréfi Guðmundar Björnssonar forstjóra fjármáladeildar til frú Jóhönnu, þar sem hann leiðréttir missagnir og fleira í sambandi við umsagnir sem taldar eru eftir honum hafðar.“

Ég er líka með það bréf. Þar segir með leyfi forseta: „Í nýframkominni þáltill. um úttekt á framkvæmd skrefatalningarinnar, sem þér eruð 1. flm. fyrir, segir orðrétt í meðfylgjandi greinargerð:

„Samkv. upplýsingum, sem fjármálastjóri Pósts og síma gefur í Morgunblaðinu 20. júní s. l., er áætlað að tekjutap Pósts og síma vegna skrefatalningarinnar sé um 20 millj. kr. á ársgrundvelli eða um 13%.“

Þar sem ummæli mín eru í veigamiklum atriðum bæði rangtúlkuð og slitin úr samhengi og hafa því valdið misskilningi sendi ég meðfylgjandi ljósrit af fyrrnefndri blaðagrein og ósk um leiðréttingu við fyrsta tækifæri.

Í ummælum mínum í Morgunblaðinu kemur fram að það er hin mikla lækkun langlínutaxta, eða um 30% að meðaltali hinn 1. nóv. 1981, sem er ástæða tekjurýrnunar stofnunarinnar eftir að langlínutaxtar voru lækkaðir og skrefatalning sett á, en ekki skrefatalningin sem slík eins og gefið er til kynna í grg. þegar vísað er til ummæta minna. Eins og sagt er í bréfi til samgrn. 7. júlí 1982 — en til þess bréfs er vísað síðar í grg. — var talið að þessi breyting mundi þýða um það bil óbreyttar tekjur hjá stofnuninni, en mjög erfitt væri að gera nákvæma útreikninga varðandi hluti sem þessa“ o. s. frv.

Það er alveg rétt að ég lækkaði langlínutaxtana í samráði við Póst og síma nokkru meira en þeir gerðu till. um. Og ég gerði líka fleira. Ég felldi niður skrefatalningu frá kl. 7 á föstudögum og lengdi þannig þennan ómælda tíma töluvert mikið. Þannig gerði ég vissar breytingar, sem ég taldi að væru m. a. þéttbýlisbúum til hagsbóta, og það er kannske frekar það sem skerti tekjur stofnunarinnar. Ég fór ekkert leynt með það að skrefafjöldi í dreifbýlinu lækkaði frá árinu 1981 um 16.7% og vitanlega þýðir það tekjumissi, en ég gat þess að á móti komu verulega meiri tekjur en áætlað hafði verið af utanlandssímtölum. (JS: En hver er skýringin á tekjutapi Pósts og síma?) Tekjutapi? Sú beiðni sem kom fram hjá Pósti og síma um meiri hækkun var byggð á því að langlínutaxtarnir höfðu verið lækkaðir of mikið, eins og kemur fram í bréfi fjármálastjórans. Hann segir nákvæmlega af hvaða ástæðum þetta hafi orðið. Það má kannske kenna mér um það af því að ég lækkaði langlínusamtölin meira en þeir lögðu til. Hins vegar kom í ljós, þegar leið á árið, að aðrir tekjustofnar urðu hærri eins og ég nefndi. Sérstaklega urðu utanlandssímtölin miklu meiri en ráð hafði verið fyrir gert og tekjuaukning af þeim sökum vó að verulegu leyti upp á móti þessu títt umtalaða tekjutapi.

Ég er líka með upp á einar þrjár síður ítarlega leiðréttingu á alls konar misskilningi eða rangfærslum sem fram koma í grg. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur fengið bréfið, en mér sýnist ekki ástæða til að fara að lesa það allt hér, vil þá heldur afhenda hv. þm. það, það er ekki skemmtilegur lestur út af fyrir sig, en hér segir í lokin að rök með skrefatalningu umfram aðrar leiðir séu með leyfi forseta:

„1. Aðeins 14–16% símnotenda geta samtímis notað sjálfvirku símstöðvarnar. Kostnaður við sjálfvirk símtöl er nánast í beinu hlutfatli við tímalengd þeirra. Gjaldtaka eftir notkunartíma er því réttlátari en gjaldtaka eftir fjölda símtala.

2. Skrefatalningin nær á hagkvæmari hátt til gagna- og myndasendingar innanbæjar sem nú fer ört vaxandi. Þessi nýja notkun talsímakerfisins skapar auknar umferðartekjur sem koma til með að létta gjaldbyrði hins almenna símnotanda.

3. Skrefatalning innanbæjar veldur jafnari dreifingu símaumferðar aðallega með því að létta á símaumferð að degi til, þegar atvinnu- og verslunarfyrirtæki þurfa mest á síma að halda, og á þann hátt sparar stofnunin fjárfestingu í vélabúnaði, sem nýtist einungis á stuttum tíma á mesta annatíma.“

Loks það sem er e. t. v. allra mikilvægast: með skrefatalningunni hefur náðst sá árangur eins og kemur fram í tölum um umframskref, sem ég las áðan, að þau eru orðin jöfn. Þau er loksins orðin jöfn, en voru 36 millj. skrefum fleiri á árinu 1981 í dreifbýlinu en í þéttbýlinu. Það sýnir að skrefatalningin hefur náð sínum tilgangi. Og það er það sem til var ætlast. Ég endurtek því að ég er mjög ánægður með framkvæmd skrefatalningarinnar. Íbúar þéttbýlisins hafa svo sannarlega aðlagað símtöl sín skrefatalningunni, sem kemur fram í því, að umframskref í þéttbýlinu eru nákvæmlega þau sömu og þau voru áður, þ. e. 11 millj. á mánuði, sem sýnir að menn eru þá farnir, eins og ég sagði áðan, að stytta sín símtöl og nota fremur þann tíma þegar verslanir og fyrirtæki alls konar eru ekki með eins mikla símanotkun, og því lengri símtöl einkaaðila hentugri á þeim tíma. Ég hef heldur aldrei heyrt nokkurn mann minnast á það, sem var svo títtnefnt hér áður, að stórlega væri skert öryggi símnotenda, því menn gætu ekki notað símann í öryggisskyni o. s. frv., eins og áður var, t. d. gamalt fólk hefði ekki sama aðgang að síma. Ég hef heyrt sjálfur persónulega frá ýmsu eldra fólki að þegar upp er staðið þá finnur það nánast ekkert fyrir þessu. Sumir hafa litið á klukkuna og lagt á áður en tíminn var orðinn of langur. Það hefur vakið athygli mína að margt eldra fólk sem ég þekki, sem var mjög hrætt við þetta áður fyrr, hefur sagt mér persónulega að þetta hafi reynst allt öðruvísi og miklu skárra í framkvæmd en því hafði verið talin trú um. Ég held því að þyrlað hafi verið upp um skrefatalninguna allt of miklu moldryki. Ég tel að hún hafi náð tilgangi sínum. Ég tel að þetta um tekjutapið sé á töluverðum misskilningi byggt. Það hefur bæst upp eftir öðrum leiðum að verulegum hluta. Ég tel því enga ástæðu til að skipa nefnd til að fara að grafa í þessi mál, en að sjálfsögðu er bæði hv. frsm. og öðrum þm. frjálst að afla sér allra upplýsinga frá Pósti og síma. Þær verða látnar í té. Og ef menn óska að þetta póst- og símamálaráð sem ég nefndi áðan skoði þetta mál þá getur það vitanlega tekið það til meðferðar.