13.10.1982
Sameinað þing: 2. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

Embættisfærsla sýslumanns á Höfn í Hornafirði

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er frá mínum bæjarhóli séð dapurlegt að horfa á þm., sem ég sé að skiptast nokkuð flokkslega, þm. Sjálfstfl. og Framsfl., umhverfast hér í kerfismennsku í versta og einfaldasta skilningi orðsins til þess að meina að fram sé borin fsp. til hæstv. dómsmrh. um embættisfærslu eins af undirmönnum hans. Þeirri fsp., sem hér hefur verið varpað fram, er hægt að svara með einföldu neii, ef dómsmrh. svo kýs, en hann meinar að fsp. komi fram. Hér var flutt í fyrra fsp. um launakjör bankastjóra. Hvers eiga þeir að gjalda? Þeir eru ekki staddir hér til þess að bera hönd fyrir höfuð sér, eins og þeir drenglyndu menn núna þykjast vera að tala um. Hér var borin fram fsp. af Matthíasi Bjarnasyni um kostnað við skrifstofuhald Alþingis. Skrifstofustjóri hefur ekki málfrelsi enn þá. Hvers eiga menn að gjalda nú, þegar lagakerfið í landinu hefur orðið sér til skammar eina ferðina enn og þessir ábyrgðarmenn lagakerfisins í áratugi standa hér og stöðva umr.? (Forseti: Ekki efnislegar umr.)

Herra forseti. Þú hefur að minni hyggju tekið ranga ákvörðun og hugðist því trausti sem þér var sýnt með miklum meiri hluta hér í gær. Hér er verið að stöðva umr., stöðva fsp. Það er það sem þetta mál snýst um og það er auðvitað skelfilegt. Ég læt vera að ræða prinsippálin, sem að baki búa, réttindi minnihlutahópa sem urðu fyrir aðkasti á s.l. sumri og á sumrinu þar á undan.

Ég fæ ekki að ræða það hér. Ég fæ ekki að ræða Rannsóknarlögreglu ríkisins og aðkast sem minnihlutahópur varð fyrir frá henni. Ég fæ ekki að ræða sýslumanninn og aðkast annars minnihlutahóps, sem hann varð fyrir í sumar. Þessa umr. á að stöðva. Mér er óskiljanlegt, en ég treysti því að þjóðin fái fulla vitneskju um það, hvað er að gerast hér í þessum sal í dag. Það var forsetafundur í morgun. Þar var svo ákveðið með öllum atkv. gegn einu. Forseti Nd., minnar deildar þar með, íbúðarkaupandinn á Akureyri, vill stöðva málfrelsi í þinginu. Og ég segi, herrar mínir, að í dag hafið þið orðið ykkur til skammar. Í dag hafið þið verið að reyna að koma í veg fyrir að málin fáist rædd hér á þinginu. Störf ykkar eru nú ekki til mikils sóma, eins og sést um þjóðfélagið allt. Þetta er röng ákvörðun. Þetta er skaðleg ákvörðun fyrir Alþingi, þetta er vont fordæmi. Ég er minnihlutamaður hér, við erum það augljóslega, en ég segi já.