03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

79. mál, jarðsig á Siglufjarðarvegi

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Ingólfi Guðnasyni leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 81 um jarðsig á Siglufjarðarvegi. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta þegar á næsta sumri fara fram ítarlegar jarðfræðilegar og verkfræðilegar rannsóknir um úrbætur vegna jarðsigs á Siglufjarðarvegi á Almenningum. Einnig að gerð verði nákvæm kostnaðaráætlun um flutning vegarins á öruggan stað.“

Þannig var, að fyrir nokkrum árum var lagður vegur til Siglufjarðar og sprengd göng í gegnum fjallið Stráka. Þessi vegur var lagður norður vestan í Tröllaskaga og um Mánárfjall og Mánárskriður og síðan um Úlfsdali og Sauðanes í gegnum Stráka til Siglufjarðar. Þá lagðist af hinn mikli farartálmi, vegurinn um Siglufjarðarskarð. Fljótlega kom í ljós — strax á fyrsta vetri reyndar, sem menn vissu áður og sáu fyrir, að vegurinn um Mánárskriður yrði mjög mikill farartálmi að vetrinum vegna þess að þar er snjóþungt. Vegurinn um Mánárskriður hefur nú verið færður og er kominn á miklu betri stað og þar hafa orðið mjög verulegar samgöngubætur. Að vísu er eftir frágangur, en þarna er um verulegar vegabætur að ræða og talsvert dýrar.

Það kom nú fleira í ljós á þessum nýja Siglufjarðarvegi. Það kom í ljós að þarna var jarðsig, sem menn að vísu vissu um, en höfðu held ég ekki mælingar á hvað væri mikið. Þetta var ekki mjög ört í fyrstu, en virðist aukast skriðhraðinn eftir því sem tímar líða. Eftir því sem meira er bætt í veginn, eftir því virðist manni vegurinn síga meira. Vegurinn sígur þarna um svo metrum skiptir á ári og hefur jafnvel á sólarhring sigið um kannske 50–60 cm. Þegar menn koma þarna akandi er að sjálfsögðu af þessu stórkostleg slysahætta. Satt að segja getur maður búist við því að þarna verði stórslys hvenær sem er. Merki um þetta jarðsig sjást á stóru svæði í fjallshlíðinni og þó er það langmest á einum stað.

Vegagerð ríkisins hefur látið taka saman greinargerð um þetta jarðsig og jarðfræðilegar aðstöður, svona forrannsóknir. Þessi jarðfræðikönnun var unnin s. l. sumar af Hafliða Hafliðasyni jarðfræðingi. Mig langar til, með leyfi forseta, að drepa á örfá atriði úr þeirri skýrslu, sem þar var gerð, því hún lýsir ástandi þarna. Ég vil reyndar taka fram að þetta er ekki endanleg rannsókn, en þó góður grunnur til að byggja á.

Um jarðfræði svæðisins segir í skýrslu Hafliða Hafliðasonar, með leyfi forseta:

„Berggrunnurinn hefur hlaðist upp af reglulegum blágrýtislögum, að meðaltali 30–50 cm þykkum setlögum milli einstakra hraunlaga. Halli laganna er óvenjumikill eða 7–10° uppi í fjöllunum og 20–22° á Almenningum. Hallinn er alls staðar í átt til sjávar, þ. e. í vesturátt. Rof og mótun berggrunnsins í dali og fjöll átti sér aðallega stað á ísöld, sem hófst fyrir 2–3 millj. ára. Er henni lauk fyrir 10 000 árum og jöklar hurfu af svæðinu skildu þeir eftir sig leirkenndan þéttan jökulruðning í dalbotninum, 3–5 m, og utan í fjallshlíðinni. Þegar aðhalds jökla gætti ekki lengur hlupu fram bergskriður og berghlaup undan jarðlagahallanum í átt til sjávar. Stærsta berghlaup á Íslandi mun einmitt vera á þessu svæði og hefur fjallshlíðin hrunið fram nær óslitið á 25 km kafla frá Almenningsnöf og inn í Stíflu. Mestur hluti berghlaupsins á Almenningum, sem skipta má í fjögur aðskilin hlaup, hefur legið óhreyfður síðan í ísaldarlok, en einstaka afmörkuð svæði hafa hreyfst síðan. Það er einkum nyrsta hlaupið, sem nær frá Almenningsnöf og um 2 km til suðurs, sem ekki hefur verið stöðugt og þar hefur í nokkrum stöðum verið töluvert sig á vegstæðinu. Bergklöppin nær þar alls staðar fram í sjó og myndar 40–50 m háa sjávarbakka úr tiltölulega lausu efni.“

Jarðsigið er í framangreindri skýrslu talið verða fyrir áhrif a. landslags undir berghlaupinu, b. grunnvatnsstreymis, c. mikils halta berggrunnsins, d. fínefnaryks skriðusets, auk þess má svo nefna einn mikilvægan þátt til viðbótar, þ. e. sjávarrof við ströndina. Vatn sem hripar niður úr tiltölulega gljúpu skriðuefninu rennur líklega aðallega fram á þéttum jökulruðningnum undir skriðunni. Það bleytir upp leirkennt efni hans og getur þannig myndað ákjósanlegan skriðflöt.

Ég vil skjóta því hér inn í um þessa skýrslu, að við vissar aðstæður er, og þegar örast hleypur sjórinn litaður af jarðvegi langt út frá ströndinni. — Ég vitna aftur til skýrslunnar:

„Jarðsig sem valdið hefur vegarskemmdum er á fjórum köflum, alls u. þ. b. 800 m, á þessu tveggja km berghlaupi. Það er þó aðeins 100 m langur vel afmarkaður kafli utan í svo nefndu Kóngsnefi sem hefur sigið eitthvað að ráði og sem venjulega er átt við þegar rætt er um jarðsig á Siglufjarðarvegi. Grunnvatnsstraumar sveigja inn að því sigsvæði og töluverðar vatnslindir koma fram á sjávarbakkanum við sigsprunguna sitt hvoru megin sigsins. Þetta var hafið áður en vegur var lagður um Almenninga. Allra síðustu ár hefur það numið 2 m á ári, en var mun minna áður. Skriðflöturinn er brattur og að öllum líkindum ekki á jökulruðningi eða bergi, heldur innan skriðumassans. Í jarðfræðiskýrslu eru gerðar tillögur um eftirfarandi úrbætur: 1. á um það bil 200 m löngum kafla sunnan við Almenningsnöf verði vegurinn færður 15–20 m inn í landið. 2. Á slæma kaflanum við Kóngsnef verði vegurinn fluttur 50–60 m. 3. Breyta afrennsli úr tjörnum uppi í dalnum ca. 1–11/2 km frá vegi.“

Læt ég lokið lestri úr skýrslu Vegagerðarinnar.

Það er þörf ítarlegra framhaldsrannsókna á þessum stað. Það er líka þörf á að gera þarna nákvæmar kostnaðaráætlanir, því það er mjög mikið í húfi, og það er nauðsynlegt að spara ekki til undirbúningsins, þannig að þetta verkefni megi vinna með þeim hætti að að gagni megi koma. Sú viðgerð, sem unnin hefur verið til þess, er einungis bráðabirgðaviðgerð. Það er keyrt og keyrt, að vísu með miklum kostnaði, efni ofan í veginn eftir því sem hann sígur, og nú er vegarstæðið orðið allt annað en það var fyrir 4–5 árum.

Þessi till. er flutt til að vekja athygli á þessu verkefni og til að reyna að vinna að því að ekkert verði til sparað að úrbætur lánist sem best og menn viti að hverju þeir ganga þegar hafist verður handa.

Ég endurtek að þarna er um hættukafla mikinn að ræða og þarna getur orðið slys. Við flm. viljum ekki bíða eftir að þarna verði slys, heldur viljum við reyna að bæta úr því og fyrirbyggja það.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þessa till. verði frestað og hún verði fengin hv. fjvn. til athugunar.