03.02.1983
Sameinað þing: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

126. mál, skipulag fólks- og vöruflutninga

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þessa till.

Ég get verið sammála hv. 1. flm. um að það er full ástæða til að ýta á eftir ýmiss konar vinnu í sambandi við þessi mál. Ég orðaði það víst svo um aðra till. hér, þegar þessi mál bar á góma, að ég sæi að hv. 1. flm. væri býsna ötull að rumska við ráðh. sínum hæstv. í sambandi við samgöngumál, og er ekki nema gott um það að segja, því sannast sagna hefur mér þótt yfir honum allmikil deyfð í þessum efnum. Vitnaði ég þá um leið til þess, að á sínum tíma var starfandi nefnd sem vann talsvert verk að því að reyna að samhæfa allar samgöngur á landi, lofti og sjó og m. a. fjallaði sérstaklega um umferðarmiðstöðvarnar sem voru á dagskrá áðan. Þessi nefnd var einmitt leyst upp af hæstv. núverandi samgrh. Ég efast ekki um að sú vinna sem sú nefnd vann sé þarna upp í ráðuneyti og eitthvað af henni muni verða notað, því þar voru komnar fram ýmsar gagnlegar upplýsingar og ýmsar hugmyndir, enda mjög margir aðilar sem áttu hlut að því starfi sem þar var unnið, m. a. allir þeir sem áttu sérstakra hagsmuna að gæta.

Ég hef hér fyrir framan mig nál. sem ég veit að hv. 1. flm. hefur einnig, varðandi skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, þ. e. endurskoðun á þeim lögum, sem nú gilda, frá 1966, um þetta efni — nál. til hæstv. samgrh. þar sem auðvitað er farið býsna mikið inn á það svið sem þessi till. gerir ráð fyrir, en þó allt of þröngt, að mínu viti, þannig að það er í raun og veru eingöngu um endurskoðun á gömlu lögunum að ræða. Ég get þess vegna verið sammála hv. 1. flm. um að það er mikilvægara að ná heildartökum á öllu málinu og reyna að vinna það sem heildstæðast í staðinn fyrir að taka þetta út úr — sérstaklega þegar maður les að allar meiri háttar aðgerðir skuli, eins og við erum farnir að gera allt of mikið, fetast í reglugerð, sem við sjáum svo ekki hér niður í þingi neitt frekar. Ég sé það hins vegar, að sumt af því sem er í þessum till. n., sem Ólafur Steinar Valdimarsson hefur haft forystu fyrir, er til bóta frá því sem nú er, en tekur hreinlega ekki á þeim meginmálum sem t. d. koma fram í þeirri till. sem hv. 1. flm. var að mæta fyrir áðan.

Nú er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson genginn úr salnum. Ég ætlaði ekkert að ræða við hann sérstaklega um þetta, því við hann var rætt svo duglega áðan af hv. 4. þm. Norðurl. e. og hann hefur ekki tekið heldur til máls í þessari umr., svo það er ástæðulaust að gera það, en rétt aðeins, vegna þess að mér fannst hann víkja máli sínu mjög til hv. 4. þm. Vesturl., Skúla Alexanderssonar, hér áðan í sinni ræðu, langar mig að geta um að ég man það glöggt að fyrsta þingmál sem hv. þm. Skúli Alexandersson flutti hér inn sem varaþm. var einmitt varðandi skipulag fólks- og vöruflutninga, í mjög svipuðum dúr og hér er verið að tala um. Mér heyrðist einmitt hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson vera að kvarta undan því að þarna væri um of einangrað mál að ræða og menn ættu að horfa á málið allt saman í heild. Það hafði hv. þm. Skúli Alexandersson sannarlega gert og það gera þeir flm. einnig í þessu efni. Ég tek sem sagt undir till. og það meginmarkmið sem hún hefur að geyma.

Ég held að við eigum að horfa til þess fyrst og fremst að samhæfa samgöngur sem allra mest. Ég viðurkenni að vísu, að aðstæður eru misjafnar varðandi hina ýmsu landshluta. Það er auðvitað alveg glöggt að við getum ekki verið með flug, áætlunarbifreiðar og svo aftur samgöngur á sjó, þó þær séu náttúrlega veigaminni, allt hvað út af fyrir sig án nokkurra tengsla hvað við annað. Þess vegna held ég að, eins og ég skil till., nauðsynlegt sé að skoða þessi mál öll í réttu samhengi.

Þessa álits, sem ég hef hér fyrir framan mig, vitnaði ég sérstaklega til af því að ég vildi geta þess, sakir þess að ég hafði í ræðu hér fyrir áramótin talað um það, að þessi vinna mundi kannske alveg hafa lagst af. Það hefur ekki gerst í ráðuneytinu. Mér finnst vinnan allt of þröng. Hún er aðeins um mjög afmarkaðan þátt þessa, mikilvægan að vísu, en tekur ekki á aðalvandamálum, heldur vísar þeim yfir í reglugerð, eins og sífellt er verið að gagnrýna okkur þm. fyrir að gera allt um of.