08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

145. mál, votheysverkun

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það hafa ekki mörg mál sem snerta íslenskan landbúnað verið samþykkt á þessu kjörtímabili. Sérstaklega hafa þau ekki verið mörg af því tagi sem þáltill. Þorvalds Garðars fjallaði um. Þá á ég við að þar var virkilega leitast við að treysta undirstöðu landbúnaðar á Íslandi. Nú hefur hins vegar fengist nokkurt svar við því hvernig þessari till. hefur verið tekið af hendi ríkisstj. og á hvaða stigi framkvæmd hennar er. Það hefði verið miklu skýrara og þægilegra fyrir hæstv. landbrh. að segja berum orðum að það hefði ekkert með þessa till. verið gert.

Svar Búnaðarfélags Íslands, sem hér er framreitt, er út í hött. Það hefur átt sér stað svo lengi sem ég man eftir áróður fyrir votheysgerð. Menn hafa flutt um hana erindi og menn hafa skrifað um hana greinar. En sá tillöguflutningur, sem hér er sérstaklega fjallað um, átti að verða nýtt átak í þessum málum. Flutningur þeirrar till. byggðist á því að ekki hafði enn náðst árangur. Þá koma þessar skýringar, blaðaskrif og erindi eins og búið er verið að flytja í 20–30 ár, og sá þátturinn sem snertir Stofnlánadeild landbúnaðarins er í nefnd. Það er svarið á þeim bæ.

Ég held að það hafi tæpast verið borin fram fsp. hér á Alþingi á þessu kjörtímabili sem hafi fengið eins skýrt svör — um að ekkert hafi verið gert í máli — og fengust hjá hæstv. landbrh. áðan. Og vegna þess að hæstv. landbrh. var að tala um að það hefði verið ýmislegt gert til að efla fóðuröflun í landinu — (Forseti hringir.) Já, herra forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu, — vil ég bara benda á hvað er hægt að gera og hvað er gert þegar ríkisvaldið á í hlut. Það er verið að byggja upp og það hefur verið lagt mikið fjármagn í að byggja graskögglaverksmiðjur, þótt allar skemmur séu núna fullar af graskögglum sem fyrir voru. Það hafa reynst nægir peningar til þess háttar verkefna og það hefur ekki þurft að setja margar nefndir á laggirnar í kringum það.

Þetta er kannske á vissan hátt dæmigert fyrir stjórnarfarið, en ég vil að lokum aðeins segja það, að hafi verið ástæða til að leggja á það áherslu þegar Þorvaldur Garðar flutti sína till. að efla fóðuröflunina í landinu, þá er svo vissulega núna. Fyrir liggur, að ef Áburðarverksmiðjan á að fá eðlilegt verð fyrir þá vöru sem hún selur bændunum á vori komanda þarf það að hækka um 120%. Þá geta menn séð hvers virði það er fyrir bændur að hafa sæmilega aðstöðu til að nýta það hráefni sem þarf í fóðurframleiðslu.