08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

145. mál, votheysverkun

Helgi Seljan:

Herra forseti. Út af lánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins vildi ég taka það fram, að þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. ráðh. voru vitanlega í samræmi við það, sem lýst var yfir úr þessum ræðustól í fyrra, að stjórn Stofnlánadeildar mundi taka þetta mál til athugunar þá strax og leiðrétta á einhvern hátt það lánahlutfall sem þá var talið mjög ófullnægjandi miðað við þurrheyshlöðurnar. Ég tel það skref, sem við tókum þá, hafa verið nokkurs virði. Ég veit að hv. fyrirspyrjanda þykir það ekki nóg, hann hefði viljað taka það skref stærra en gert var, en ég tel þó, að í samráði við hæstv. landbrh. höfum við í stjórninni stigið þarna nokkurt skref til að ýta undir að menn færu frekar í votheysverkun en annars hefði orðið. sú spurning er nú um það, hvernig hinar nýju reglur á þessu ári verða, og ég efast ekkert um að ef við teljum það rétt og sjáum þess merki, að sú hækkun, sem varð á lánshlutfalli í fyrra, hafi ýtt þar undir, þá munum við taka það til velviljaðrar athugunar aftur hvort ekki eigi enn að ganga lengra með því að ýta undir votheysverkun enn frekar. Það er fullur vilji fyrir því í stjórn Stofnlánadeildar að gera það, sem ég held að hún hafi nokkuð sannað þó með þeirri ákvörðun sem hún tók í fyrra.