08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

145. mál, votheysverkun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið.

Hann greindi frá umsögn Búnaðarfélags Íslands um þessa fyrirspurn og lét þess getið, að þeirri umsögn fylgdi skrá yfir margar ritgerðir og greinar um þessi efni og mörg fylgigögn. Ég efast ekki um það. Það kom fram í ræðu ráðh. að margt hefði verið gert til að kynna bændum reynsluna af votheysverkun og líka að nýjungar hefðu verið kynntar í votheysverkun og það væri kafli í Handbók bænda um þessi efni. Ég efast ekkert um að þetta sé allt rétt, sem hæstv. ráðh. greinir hér.

Svo sagði hann, að það væri núna starfandi stjórnskipuð nefnd til að kanna málið frekar. Mér virtist þetta væri aðalatriði í svari hæstv. ráðh. Og ég skildi hins vegar hæstv. ráðh. þannig, að hann hefði áhuga á að vinna að framgangi þessa máls, þ. e. að bændur hagnýti sér votheysverkunina í ríkari mæli en verið hefur.

Ég tek undir það, sem hv. 11. landsk. þm. sagði, að í raun og veru felur þetta ekki í sér að nokkrar aðgerðir hafi verið gerðar. Og ég legg áherslu á það, sem hann sagði, að það væri ekki átt við að haldið yrði áfram aðgerðum í þessu efni í líkingu við það sem talið hefur verið að hafi verið gert á undanförnum árum, heldur að nú hæfist nýtt átak í þessum efnum.

Ég heyrði líka það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um aðgerðir Stofnlánadeildarinnar. Og það er rétt, sem hann gat sér til, að ég tel að Stofnlánadeildin hafi ekki gengið nógu langt í því efni að stuðla að aukinni votheysverkun.

Ég segi þetta ekki að tilefnislausu. Ég læt liggja að því að nokkur uggur sé í mér fyrir því að nægilega vel sé haldið á þessum málum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur fyrir Alþingi. 1975 bar ég fram þáltill. hliðstæða þeirri sem var samþykkt í apríl s. l. Hún var samþykkt af Alþingi þá. Ég gerði mér vonir um að þar sem svo ákveðið hefði komið fram vilji Alþingis yrði gert sérstakt átak í þessum efnum. Eftir 2–3 ár bar ég fram fsp. um hvað hefði skeð. Þá sagði sá ráðh. sem þá var úr þessum ræðustól, að það væri unnið að þessu og það væri gert allt sem hægt væri og það mætti búast við árangri. Ég hef því heyrt hér góð orð í þessu máli áður. Ég lét mér detta í hug að ég hefði, og þeir sem studdu mig og Alþingi í heild, gert gott verk með því að samþ. þál. 1975 um þetta efni og að árangurinn mundi koma í ljós. En ég segi ykkur, að þó við höldum stundum að við séum að gera gagn hér á Alþingi komst ég að þeirri niðurstöðu að árangurinn hafði bara enginn orðið.

Árið 1975 voru verkuð í vothey 8.4% af heyfeng landsmanna. Hver var nú árangurinn af þessari þál.? Hann var sá, að árið 1980 eru verkuð 8.6%, eftir allar þær aðgerðir sem sagt er að hafi verið gerðar. Það munar 0.2%. Við drögum þá ályktun af þessu að það miði raunar ekkert áfram, hafi ekkert miðað áfram í þessu efni. Því er það, að ég skora á hæstv. landbrh. að gera meira en fá skýrslur, skrár og fylgiskjöl frá Búnaðarfélagi Íslands og skipa nefnd til að athuga málið, sem ég vil ekki gera lítið úr. Ég skora á hann sem forustumann íslensks landbúnaðar að ganga persónulega fram sem baráttumann í þessu einu mesta hagsmunamáli íslensks landbúnaðar í dag.