08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

145. mál, votheysverkun

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en undrast þessi ræðuhöld, sem hér hafa farið fram. Það er sagt að ekkert hafi verið gert í þessu máli. Það er sagt af hálfu hv. 11. landsk. þm. að það hafi verið sett nefnd til að fjalla um lánareglur. Allt er þetta rugl, svo maður segi það í einu orði alveg hiklaust. Það hefur verið sett nefnd til að skila tillögum til ráðuneytisins um úrbætur í þessu máli í heild. Sú nefnd er skipuð mönnum frá þremur landbúnaðarstofnunum, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Búnaðarfélagi Íslands og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þessi nefnd á auðvitað að fjalla um meira en um lánareglur. Hún á að skila áliti um þetta mál og á hvern hátt því verði þokað til betri vegar. Ég kalla það ekki að það sé ekkert gert þó að ályktað hafi verið á Alþingi um þetta mál í apríl í fyrra og síðan beðið eftir áliti þessarar nefndar. Það segir einnig í niðurlagi bréfs Búnaðarfélags Íslands að að undanförnu hafi þess gætt að votheyshlöður séu nú byggðar í mun meira hlutfalli en áður hafi verið, og má vera að breyttar lánareglur Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafi átt þátt í því og ef til vill aukinn áróður í þessu efni, sem út af fyrir sig er rétt að hefur staðið í áratugi.

Ég undrast það einnig, að hv. fyrirspyrjandi virðist ætlast til þess að ég gangi persónulega út á völlinn og starfi meira að þessari heyverkunaraðferð. Ég tók það fram, og það er alveg hiklaust mín meining, að stjórnvaldsaðgerðir í þessum efnum verða ekki byggðar á fyrirmælum, heldur verða íslenskir bændur að fá að ráða hvaða heyverkunaraðferð þeir velja sér. Hitt er rétt, að skilyrðin sem þeim eru búin gagnvart einstökum heyverkunaraðferðum mega a. m. k. ekki vera lakari hvað votheysverkun snertir en þurrheysverkun. Og auðvitað er rétt, að þau skilyrði séu nokkru betri til þess að í þeim felist hvatning. Það verður síðan að ráðast hvort þau skilyrði duga til að bændur stundi þessa verkunaraðferð meira en áður, og sé það ekki verður það að vera þeirra mál. Það getur ekki orðið hlutverk Alþingis eða ríkisstj. að fyrirskipa um heyverkunaraðferðir.