08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

145. mál, votheysverkun

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins minna á það, sem stendur í bréfi sem hæstv. landbrh. hefur lesið upp undirskrifað af Stefáni Pálssyni, að lánareglurnar eru til umfjöllunar í sérstakri nefnd. Ég sagði aldrei neitt um að ekki væri fjallað um fleira í þeirri nefnd.

Annað atriði, sem kom líka fram hjá hæstv. landbrh., var það, að það gæti vel verið að sú breyting sem hefði verið gerð á lánahlutdeildinni fyrir einu ári hefði aukið framkvæmdir í votheysbyggingum. Eftir því sem fyrir liggur núna hafa þær alls ekki aukist. Það sanna í málinu er það, að uppgjöri þar að lútandi er ekki lokið, ekki einu sinni enn, og það lá alls ekki fyrir þegar Búnaðarfélag Íslands svaraði þessari fsp. ráðh. Þetta er því hvort tveggja, svo að ég noti hans eigin orð, tómt rugl.