08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

137. mál, Sjóefnavinnslan

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er hér fsp. frá hv. 3. landsk. þm. í 10 liðum sem ég ætla að leitast við að svara. Ég vil geta þess, að varðandi svör við þessum þáttum hef ég leitað til Sjóefnavinnslunnar hf. eftir upplýsingum og byggi á framkomnum upplýsingum sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins hefur miðlað rn. Auk þess hefur það verið yfirfarið.

1. liður fsp. er: „Hvenær má vænta þess, að Sjóefnavinnslan hf. á Reykjanesi verði farin að framleiða þau 8000 tonn af salti, sem heimilað var, miðað við ársframleiðslu?“

Svar við þessum fyrsta þætti: Byrjunaráfangi verksmiðju Sjóefnavinnslunnar á Reykjanesi er við það miðaður að framleidd séu allt að 8000 tonn fisksalts á ári. Tilgangur þess áfanga er m. a. að vinna að markaðsþróun fyrir sölu fisksalts í stórum stíl. Ennfremur var heimilað með lögum um verksmiðjuna að bora nýja vinnsluholu á verksmiðjusvæðinu, undirbúa stækkun verksmiðjunnar í 40 þús. tonn með endanlegri hönnun og setja upp gufuhverfil til rafmagnsframleiðslu. Til þess hins vegar að stækka verksmiðjuna í 40 þús. tonna saltafköst þarf heimild Alþingis samkv. ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 62/1981. Umræddur byrjunaráfangi er nú í byggingu. Stefnt er að því að framleiðsla 8000 tonna fisksalts hefjist á þessu ári, hefjist framleiðsla í þessum byggingaráfanga á þessu ári, þ. e. 1983. Fsp. var borin fram á liðnu ári, en svar við henni hefur ekki komist að hér fyrr en nú.

Nú um miðjan febr. hefst rekstur sem mun skila um 5 tonna framleiðslu fisksalts á dag eftir að byrjunarvinnslu lýkur. Um mitt ár er gert ráð fyrir að framleiðslan verði aukin í liðlega 10 tonn á dag og í lok ársins í rösklega 25 tonn á dag, sem samsvarar þá 8000 tonna afköstum á ári. Reiknað er með að töluvert af fisksalti verði til reiðu til reynslu á þeirri vertíð sem nú stendur yfir vegna söltunar. Byggingu svonefnds pönnuhúss, þar sem meginhluti þessarar vinnslu fer fram, er nú að ljúka. Seinna á árinu lýkur tengingu borholu 8 á þessu jarðhitasvæði og eykst þá framleiðsla salts, jafnframt því sem 500 kw gufurafstöð tekur til starfa. Í lok ársins er síðan fyrirhugað að taka í notkun eima, sem auka munu fisksaltsframleiðsluna að þeim mörkum sem fyrirhugað var.

Borun á vinnsluholu nr. 9 á Reykjanesi var fyrirhuguð á árinu sem leið, en dróst vegna þess að ekki var tiltækur jarðbor. Nú er búist við að sú borun fari fram í mars/apríl n. k. Á þessu ári er ennfremur gert ráð fyrir að koma upp svonefndri fínsaltsdeild við verksmiðjuna, sem vinnur efni úr legi sem kemur fram við grófsaltsvinnsluna. Þar er fyrirhugað að vinna allt að 2000 tonn af fínsalti, nokkuð af svonefndu léttsalti, sem er kalíblandað borðsalt, og smávegis af kalíum og kalsíumklóríði. Á árinu 1984 er svo enn reiknað með að bæta nokkru við starfsaðstöðu varðandi kalsíumklóríð og byggja svonefnda klórvítissódadeild, sem frá upphafi var reiknað með sem einum lið sjóefnaverksmiðju. Allar þær framkvæmdir, sem nú er unnið að og þær sem fyrirhugaðar eru, eru við það miðaðar að geta fallið að þeim ramma, sem fullbúin 40 þús. tonna verksmiðja er miðuð við og geta þannig orðið þættir í byggingu hennar. Meginástæðan fyrir því að fyrirhugað er að byggja fínsaltsdeildina sem svo er kölluð og klórvítissódadeild í byrjunaráfanganum er sú, að slíkt er talið fjárhagslega hagstæð ráðstöfun, auk þess sem slíkt gefur starfsliði aukna reynslu á þessum framtíðarviðfangsefnum.

Varðandi 2. lið. Þar er spurt: „Hvað safnaðist mikið hlutafé til fyrirtækisins í framhaldi af auglýsingaherferð um s. l. áramót; a) frá sveitarfélögum, b) frá einstaklingum?“

Svarið er að frá sveitarfélögum fékkst 1 millj. kr., frá einstaklingum 169 200 kr. og frá félagasamtökum eða frá félögum eins og hér stendur, rúmlega 105 þús. kr.

Þriðja spurning: „Hvað kostaði umrædd auglýsingaherferð?“

Svar félagsins er á þá leið, að erfitt sé að skilgreina kostnað þannig, að flokka beint aðeins það sem tilheyrir umræddri hlutafjársöfnun. Inni í þeim kostnaði, sem nam 91 737.05 kr., eru hlutafjárauglýsingar og stofnfundarboð meðtalin. Þá voru einnig útbúin gögn,. sem voru send hluthöfum og væntanlegum hluthöfum fyrir stofnfund, með ýmsum upplýsingum varðandi félagið, framleiðslumöguleika o. fl. Eins og þessar auglýsingar og upplýsingaefni var unnið var hvoru tveggja ætlað að vera kynningarþáttur sem talið er að nýtist félaginu til lengri tíma. Telur félagið að náðst hafi þetta kynningarmarkmið, en starfsemin hafði verið takmarkað kynnt áður. Þá var unnið að því að vinna upp hugmyndir að merki fyrir félagið og mun það vera í þessum kostnaði meðtalið.

Liður 4 í fsp.: „Hvernig hefur sá búnaður, sem nota átti við framleiðsluna, reynst?“

Það er nú ekki, hv. fyrirspyrjandi, auðvelt að svara þessari fsp. beint, eins og hún er fram sett, því að þessi framtíðarbúnaður er ekki kominn í rekstur og reynsla því ekki fengin, en nú er sem sagt unnið að byggingu þessa byrjunaráfanga. Ef hins vegar er átt við það í fsp. hvernig búnaður tilraunaverksmiðjunnar hafi reynst, þá er því til að svara, að hann reyndist mjög að vonum. Með honum fékkst mikilvæg reynsla og á þeirri reynslu byggjast hönnunarforsendur þeirrar verksmiðju sem nú er unnið að uppsetningu á.

Varðandi spurningu 5: „Hvað hafa framkvæmdirnar kostað til þessa: a) á þessu ári, b) frá upphafi?“ er því til að svara, að þetta tekur til áranna frá 1977, þegar fyrst var byrjað á framkvæmdum, og til nóvemberloka 1982. Ef við tökum árin 1977–1981, framkvæmdakostnað á verðlagi hvers árs, þá nam hann 10 628 716 kr. Til nóvemberloka 1982 var framkvæmdakostnaður til viðbótar talinn 16 696 042 kr. eða samtals framkvæmdakostnaður á verðlagi hvers árs 27 324 758 kr. Fjármagnskostnaður til ársloka 1981 nam 9 363 912 kr. og á fyrstu 11 mánuðum ársins 1982 17 967 929 kr., eða samtals 27 331 841 kr. Hvort tveggja samanlagt, framkvæmdakostnaður og fjármagnskostnaður til ársloka 1981 nam 19 992 628 kr. og til viðbótar til nóvemberloka 1982 34 663 971 kr., eða samtals heildarkostnaður til loka nóv. 1982 54 656 599 kr.

6. liður fsp.: „Hvað er fyrirhugað að verja miklu fé til framkvæmda á þessu ári?“

Þá er átt við árið 1982. Svarið er: Um 30 millj. kr. Ég vil bæta því við, að fjárfestingarútgjöld og fjárþörf á árinu 1983 er áætluð á verðlagi þessa árs, þar sem miðað er við byggingarvísitöluna 1600, um 70 millj. kr. samtals, þar af fjármagnað með lánsfé röskar 53 millj. kr. Þessi fjárfestingarþörf var kynnt fjmrn. vegna undirbúnings fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar þessa árs.

Liður 7: „Hvað er áætlað að 8 000 tonna verksmiðja muni kosta fullbúin?“

Svarið er að byrjunaráfangi miðað við 8 000 tonna fisksaltsframleiðslu er fullbúinn áætlaður miðað við verðlag 1. okt. 1982, þ. e. byggingarvísitölu 1331, kosta samtals 85.8 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir byggingu fínsaltsdeildar og til álita hefur komið að byggja klórvítissódavinnslu eins og getið var hér áðan. Byggingaráfanginn yrði þannig á grundvelli sama verðlags að þessu meðtöldu og hönnunarkostnaði 40 þús. tonna áfanga samtals um 150 millj. kr. Þar kemur til hækkun vegna nýrrar tækni og nokkuð breyttrar útfærslu. Vert er að taka fram að fínsaltsvinnslan, sem hér hefur verið rætt um, samsvarar aðeins þeim legi sem til fellur við fisksaltsvinnsluna.

Liðir 8 og 9: „Hverjar eru markaðshorfur og fyrirhugaður markaður fyrir framleiðslu verksmiðjunnar sundurliðað?“

Herra forseti. Ég er senn búinn að veita úrlausn þessari löngu fsp. Varðandi grófsalt: Ekki er talið vandamál að selja framleiðslu þessa áfanga sem eins og fram hefur komið er áætlað að verði 8 000 tonn af þessari tegund. Ársnotkun hérlendis nam 1981 70–80 þús. tonnum, þar af á Suðvesturlandi um 27 þús. tonnum. Varðandi fínsalt, þá fellur framleiðslan að þörf innanlandsmarkaðar. Varðandi kalí. Í áætlunum um 40 þús. tonna saltverksmiðju er gert ráð fyrir framleiðslu á 4 000 tonnum af kalí, en æskilegasti markaður fyrir þá framleiðslu er í Áburðarverksmiðjunni, án þess að um það hafi nokkuð verið samið enn sem komið er, en Áburðarverksmiðjan notar 6–7 þús. tonn á ári. Einnig flytja nágrannalönd okkar inn mikið af kalí. Varðandi kalsíumklóríð, þá er gert ráð fyrir 9 000 tonna framleiðslu af því í fullbúinni 40 þús. tonna saltverksmiðju. Vegagerð ríkisins notar lítils háttar til rykbindingar eða 500 tonn á ári, en markaður er talinn vera í Noregi og Norður-Ameríku til ýmissa þarfa.

Þá er spurt um ýmis sölt í neytendapakkningum. Neysla slíkra salta, svonefnds léttsalts eða heilsusalts, hefur mjög rutt sér til rúms að undanförnu. Er talið að kalíblandað salt sé heppilegra fyrir fólk með háan blóðþrýsting. Ekki vil ég nú votta það læknisfræðilega, en þetta er mat félagsins og víða er í gangi setning reglugerða um samsetningu á söltum sem falla að þessum notum.

Og svo að lokum varðandi lið 10: „Byggjast arðsemisútreikningar fyrir verksmiðjuna á traustum upplýsingum um markaðsverð afurða?“

Félagið svarar því þannig, að frá því að áætlunargerð um byggingu verksmiðjunnar hófst hafi ýmsar kannanir verið gerðar varðandi markað og söluverðmæti. Þær hafa verið unnar af ýmsum aðilum, sem til hafa verið kvaddir, svo sem Iðntæknistofnun og einnig af nefnd, sem skipuð var til þess af iðnrn. að meta hagkvæmni þess að reisa og reka saltverksmiðju á Reykjanesi, svo og er um að ræða eigin athuganir félagsins. Þessar niðurstöður hafa verið endurskoðaðar nokkuð reglulega, m. a. allítarlega s. l. vor, og var að því vikið í skriflegu svari sem lagt var fram við fsp. og beiðni um skýrslu um þessa verksmiðju hér á Alþingi s. l. vor. Talið er af hálfu félagsins að heildarforsendur, sem byggt hefur verið á í sambandi við þetta, séu traustar.

Að öðru leyti vísa ég til skýrslu sem veitt var að beiðni hér s. l. vor á hv. Alþingi varðandi ýmsa þætti þessarar verksmiðju, svo sem um stofnkostnað, arðsemi og framkvæmdaáætlun.