28.10.1982
Sameinað þing: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

24. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. 10 þm. Sjálfstfl. hafa á þskj. 24 flutt till. til þál. um viðræðunefnd við Alusuisse og er till. svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu sjö manna nefnd til viðræðna við Alusuisse, þar sem m.a. verði fjallað um eftirfarandi atriði:

— Að leiða til lykta skoðanaágreining Alusuisse og íslenska ríkisins vegna samninga aðilanna um álbræðsluna í Straumsvík.

— Að vinna að endurskoðun á samningi um raforkusölu til ÍSALs í samráði við Landsvirkjun í því skyni að fá verulega hækkun á raforkuverði.

—Að vinna að endurskoðun á gildandi samningsákvæðum um framleiðslugjald ÍSALs.

— Að ræða möguleika á stækkun verksmiðjunnar.

— Að ræða önnur þau atriði sem máli skipta varðandi framtíðarsamvinnu Íslendinga og Alusuisse, þar á meðal framleiðslu rafskauta.

Viðræðunefndin skal hafa fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem þegar liggja fyrir um mál þetta. Enn fremur er nefndinni heimilt að leita samstarfs við hvern þann aðila sem hefur sérþekkingu á málum er varða störf hennar. Opinberum aðilum er skylt að veita nefndinni hverjar þær upplýsingar sem hún óskar. Kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þannig hljóðar þessi till., sem við þm. Sjálfstfl. höfum flutt.

Samningar um álverið í Straumsvík eru frá árinu 1966. Árið 1975 var gerður samningur við Alusuisse um endurskoðun á samningnum og leiddi sú endurskoðun til þess að samið var um verulega hækkun á rafmagnsverði auk þess sem breytt var reglum um framleiðslugjaldið sem ÍSAL greiðir í stað venjulegra skatta. Hækkun rafmagnsverðsins árið 1975 var studd þeim rökum að orkuverð í heiminum hefði hækkað verulega frá því að samningurinn var upphaflega gerður. Með endurskoðun samningsins árið 1975 var brautin rudd fyrir því að slík endurskoðun gæti farið fram við svipaðar aðstæður.

Þegar á árinu 1979 var ljóst að forsendur samningsins frá 1975 höfðu breyst, þar sem orkuverð í heiminum hafði enn hækkað verulega. Af hálfu núv. hæstv. iðnrh. var hins vegar látið hjá líða að hefja slíka endurskoðun samninganna fyrr en seint og síðar meir og þá með mjög sérkennilegum hætti. Ég vil nú rekja nokkuð þróun samskipta hæstv. iðnrh. við Alusuisse og ÍSAL því að það er nauðsynlegt til að varpa ljósi á þau vinnubrögð sem hæstv. iðnrh. hefur beitt í þessu mikilvæga hagsmunamáli Íslendinga. Ég mun rekja í tímaröð þau samskipti eftir þeim gögnum sem gerð hafa verið opinber, ýmist í fréttatilkynningum eða á annan þann hátt sem almenningur hefur haft aðgang að.

Þann 4. des. 1980 hélt hæstv. iðnrh. ræðu hér á hv. Alþingi þar sem segir m.a.:

„Í raun mætti leiða að því rök, þótt ég sé ekki að gera till. um það, að hagkvæmt væri að skrúfa fyrir þetta stóriðjuver, álverið, í áföngum og spara með því sem svarar heilli stórvirkjun. Slíkt væri raunar langsamlega ódýrasti virkjunarkostur landsmanna nú, þar sem þarna er ráðstafað um 1200 gígawattstundum af raforku, eða tæpum helmingi þess sem framleidd er í landinu, á sama tíma og orka frá nýjum virkjunum kostar um 6 kr. meira en álverið greiðir á hverja kwst.“

Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing og skýrir raunar margt varðandi meðferð hæstv. iðnrh. á þessu máli. Þann 9. des. sendi hæstv. iðnrh. skýrslu til ríkisstj. um viðskipti Alusuisse og ÍSALs varðandi súrálskaup frá Ástralíu. Þar segir m.a.:

„Iðnrn. hefur að undanförnu unnið að athugun á verðlagningu á súráli til Íslenska álfélagsins. Niðurstaða þessara athugana er sú, að innflutningsverð á súráli til Íslands er miklu hærra en eðlilegt má telja miðað við útflutningsverð frá Ástralíu.

Þegar borin eru saman sambærileg verð, fob-verð í báðum tilvikum, kemur í ljós að á tímabilinu jan. 1974 til júní 1980 hefur súrálsverðið hækkað í hafi um að meðaltali 54.1 % eða samtals um 47.5 millj. dollara.“

Síðar í þessari skýrslu eða í ályktunarkafla hennar segir:

„Með því hefur Alusuisse með sviksamlegum hætti leynt íslenska ríkið réttum skattstofni og á því óuppgerðan skatt fyrir þessi ár.“

Þessi skýrsla, þar sem orðið „sviksamlegur“ var notað, var send til Alusuisse með sérstökum sendiboða, sem fór til Sviss þann 11. des. 1980. Þann 16. des. 1980 sendir iðnrn. frá sér fréttatilkynningu, þar sem fram kom að rn. hefði frá því í júní þ.á. unnið að athugun á verðlagningu á súráli til Íslenska álfélagsins hf. Þar er getið þeirrar niðurstöðu sem að framan er vitnað til í skýrslu ríkisstj. Í fréttatilkynningunni kemur fram að á fundi ríkisstjórnar Íslands hinn 9. des. þ.á. hafi framangreindar samanburðartölur úr opinberum hagskýrslum og innflutningsgögnum verið lagðar fram og kynntar. Áskil ji ríkisstj. sér allan rétt í þessu efni og hafi jafnframt samþykki á þessum fundi sínum að hið fyrsta yrðu teknar upp viðræður á milli Alusuisse og hennar varðandi þetta mál og jafnframt til endurskoðunar á núverandi samningum íslenskra aðila og Alusuisse og að þær viðræður færu fram hérlendis. Væri í því sambandi sérstaklega höfð í huga endurskoðun á orkuverðinu.

Í tilefni þessarar fréttatilkynningar iðnrn. urðu allmiklar umr. um þetta mál á Alþingi utan dagskrár í Ed. þann 17. des. 1980. Þar var ráðh. gagnrýndur fyrir málsmeðferð, þ.e. að byrja á því eð fara með mál þetta í fjölmiðla án þess að kynna það sérstaklega á Alþingi. Talsmenn Sjálfstfl. í málinu, þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Þorv. Garðar Kristjánsson, lögðu áherslu á nauðsyn samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði m.a.: „Af Sjálfstfl. hálfu er þetta ekki einungis sjálfsagt mál, heldur beinlínis ósk, að hann fái að fylgjast með þessu máli. Stjórnarandstaðan í Alþfl. á líka heimtingu á að fylgjast með og fá spilin á borðið.“

Þann 13. des. þetta ár, 1980, kom fulltrúi frá Alusuisse hingað til lands til viðræðu við hæstv. iðnrh. Þar kom fram að nánari skýringar yrðu gefnar svo fljótt sem mögulegt væri, þó ekki fyrr en í byrjun febr. Þann 18. febr. 1981 svaraði Alusuisse með bréfi til hæstv. forsrh. Þar kom fram að fyrirtækið teldi gerðir sínar í samræmi við samninga.

Þann 16. júlí 1981 sendi iðnrn. frá sér fréttatilkynningu um meginniðurstöðu súrálsmálsins. Þar var getið samþykktar ríkisstj. frá 16. júlí 1981, en í henni kom fram að umfangsmikil rannsókn hefði farið fram á verðlagningu súráls til ÍSALs á tímabilinu 1974–1980 og væri þeirri rannsókn nú lokið. Niðurstöðurnar væru þær, að Alusuisse hefði ekki staðið við samningsskuldbindingar sínar samkv. aðstoðarsamningi og samningi frá 1966. Endurskoðunarfyrirtækið Coopers & Lybrand telji ljóst að ÍSAL hafi greitt Alusuisse of hátt verð fyrir súrál á tímabilinu frá ársbyrjun 1975 til miðs árs 1980, sem nemi samanlagt a.m.k. 16.2 millj. dollara miðað við verð í viðskiptum óskyldra aðila. Ríkisstj. áskilji sér allan rétt vegna ofangreindra málsatvika og vísar jafnframt til fyrri samþykktar frá 9. des. 1980 um að hið fyrsta verði teknar upp viðræður milli Alusuisse og Íslands um endurskoðun á núverandi samningum íslenskra aðila og Alusuisse. Það vekur strax athygli í þessu sambandi, að sú tala sem upphaflega var nefnd sem of hátt verð, þ.e. rúmlega 47 millj. dollara, er nú komin niður í 16.2 millj. dollara í þessari fréttatilkynningu iðnrn. Það kemur líka fram við athugun á skýrslum Coopers & Lybrand, sem þarna var vitnað til, að iðnrn. hafi takmarkað mjög umboð fyrirtækisins til rannsóknar.

Fljótlega eftir þetta, eða þann 20. júlí 1981, gerði þingflokkur Sjálfstfl. ítarlega samþykkt í súrálsmálinu. Sú samþykki er birt sem fskj. 1 með þessari þáltill., en aðalatriði samþykktarinnar eru þau, að þingflokkurinn gagnrýni málsmeðferð iðnrh. og að þingflokkurinn leggi áherslu á að samstaða náist um aðgerðir sem nauðsynlegar kunni að reynast. Þess vegna hefði flokkurinn þegar í des. boðið ríkisstj. samvinnu í þessu máli, en þessu boði hafi í engu verið sinnt fyrr en nú, er ríkisstj. falist eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna. Þingflokkurinn telji að fyrsta skrefið sé að ljúka alhliða athugun málsins og að síðar verði teknar upp viðræður við Alusuisse m.a. um hækkun raforku og skattgreiðslur fyrirtækisins. Jafnframt fari fram athugun á aðgerðum til að bæta rekstrarafkomu álversins, þar á meðal stækkun þess, svo og eignaraðild. Jafnhliða verði teknar upp viðræður við aðra aðila um samstarf og þátttöku í áliðnaði og öðrum orkufrekum iðnaði hér á landi. Til að vinna að framangreindum verkefnum telji þingflokkurinn nauðsynlegt að sett verði á stofn fagleg nefnd með aðild allra flokka undir forustu sem þeir geti sætt sig við.

Þann 20. júlí má segja að svar hafi komið frá Alusuisse, en þó í því formi að framkvæmdastjórn ÍSALs boðaði til fundar með starfsmönnum ÍSALs þar sem lögð var fram skrifleg greinargerð framkvæmdastjórnar ÍSALs til starfsmanna sinna. Þar er svarað lið fyrir lið ýmsum þeim atriðum sem fram höfðu komið í fréttatilkynningu iðnrn. Þessi greinargerð er birt í heild í Morgunblaðinu þann 21. júlí 1981. Um þetta leyti urðu mjög mikil blaðaskrif um súrálsmálið, sem ekki er ástæða til þess að rekja hér.

Þann 21. júlí 1981 sendi Alusuisse telexskeyti til iðnrh., þar sem fram kemur að fyrirtækið vilji ekki ganga til samningaviðræðna um endurskoðun samninganna um álverið í Straumsvík, en sé á hinn bóginn reiðubúið til að ræða við fulltrúa ríkisstj. um niðurstöðu í skýrslu Coopers & Lybrand og þau sjónarmið sem fram höfðu komið í skýrslu frá Alusuisse í febr. 1981. Neitar Alusuisse öllum ásökunum hæstv. iðnrh.

Þann 22. júlí 1981 svarar hæstv. iðnrh. telexskeyti Alusuisse, þar sem fram kemur m.a. að fulltrúar iðnrn. séu að sjálfsögðu reiðubúnir til viðræðna við Alusuisse um hvernig eigi að fella niðurstöður súrálsrannsóknarinnar inn í reikninga ÍSALs í því skyni að reikna út réttar skattgreiðslur álversins til íslenska ríkisins.

Þann 23. júlí 198 1 svaraði Alusuisse enn, þar sem það lýsti sig reiðubúið til viðræðna við íslensk stjórnvöld um allt það er varðar skýrslu Coopers & Lybrand og skoðanaágreining milli aðila, en gerir m.a. fyrirvara um að þær viðræður bindi ekki aðila varðandi kröfugerð og endurskoðun samninga. Alusuisse nefnir 4. ágúst mögulegan fundardag.

Með bréfi dags. 31. júlí 1981 skipaði iðnrn. nefnd til þess að eiga viðræður við Alusuisse um skoðanaágreining fyrirtækisins og ríkisstj. vegna samninga aðilanna um álbræðslu í Straumsvík og endurskoðun á þeim samningum. Í nefndina voru skipaðir menn tilnefndir af iðnrh. frá aðilum að ríkisstj. og frá stjórnarandstöðunni. Í bréfinu eru tilgreind nokkur meginatriði sem leggja eigi áherslu á í viðræðum. Þessi atriði eru greiðslur á vangoldnum sköttum vegna of hárrar verðlagningar á aðföngum til ÍSALs, endurskoðun á gildandi samningsákvæðum um framleiðslugjaldið, endurskoðun á samningi um raforkusölu til ÍSALs í því skyni að fá verulega hækkun á raforkuverði, eignaraðild Íslendinga að fyrirtækinu með meiri hluta eign í áföngum að markmiði, bygging rafskautaverksmiðju hérlendis eða öflun rafskauta á annan hagkvæman hátt og breyting á samningum um ýmis önnur atriði, þ. á m. endurskoðunarákvæði. Af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna var Hjörtur Torfason hrl. skipaður í þessa nefnd.

Fundir viðræðunefndar og fulltrúa frá Alusuisse voru haldnir í ágúst 1981 og í des. 1981. Á síðari fundinum snerust umr. mjög um hvort ekki mætti leggja deilur um liðinn tíma til hliðar og taka þess í stað upp viðræður um framtíðarsamskipti, þ.e. breytingar á samningum. Varð niðurstaðan sú, að Alusuisse mundi veita svör við óskum ríkisstj. í því efni og gerði félagið það með bréfi til hæstv. forsrh. þann 1. febr. 1982.

Í bréfi Alusuisse frá 1. febr. kemur fram að félagið óski áframhaldandi samvinnu við ríkisstj. Hins vegar sé nauðsynlegt áður en raunhæfar viðræður geti hafist að deilumál þau, sem varpi skugga á samskipti aðila, verði leyst. Nefnir félagið þrjú atriði í þessu bréfi: 1. Of háa verðlagningu á súráli og leggur til að iðnrn. dragi annaðhvort ásakanir sínar til baka eða leiti óháðs úrskurðar með því að leggja deiluna í gerðardóm. 2. Varðandi verðlagningu á rafskautum leggur félagið til að það mál verði frekar upplýst og tjáði sig reiðubúið í samstarfi við ríkisstj. að leggja mat á hvort það hafi einhverja kosti í för með sér að reisa rafskautaverksmiðju í Straumsvík. 3. Varðandi deilu um skattlagningu vegna afskrifta leggur félagið til að þeim ágreiningi verði vísað í gerð á Íslandi. Síðan segir í bréfinu:

„Þegar búið er að leysa ofangreind deilumál erum við reiðubúnir að ræða við ríkisstj. um möguleika á því að stækka álverið ÍSAL í samstarfi við annan eignaraðila, svo og þar af leiðandi breytingar á aðalsamningi. Þar sem markaðsaðstæður eru mjög erfiðar um þessar mundir þarf ekki að taka fram að mjög væri æskilegt að fá meðeiganda sem sjálfur hefði not fyrir sinn hlut af álframleiðslu ÍSALs. Samt sem áður er fyrirtæki vort ekki og hefur aldrei verið á móti því að íslenska ríkið gerist eignaraðili að ÍSAL og erum við reiðubúnir að ræða með hvaða skilyrðum væri unnt að koma því í kring.“

Þann 25. febr. 1982 gaf iðnrn. út fréttatilkynningu, þar sem fram kom að ákveðið hefði verið að halda fund í fyrstu viku marsmánaðar, þ.e. 3. mars, í Kaupmannahöfn. Rn. hafði nú hins vegar borist skeyti frá Alusuisse, þar sem fyrirtækið tilkynnir að það geti ekki sent fulltrúa til umrædds fundar af óviðráðanlegum ástæðum, að ekki geti fulltrúi frá fyrirtækinu komið til fundar á næstu vikum. Síðan segir í fréttatilkynningu rn.:

„Staða málsins verður metin af hálfu rn. með tilliti til margendurtekinna frestana á viðræðum af hálfu Alusuisse.“

Allmikil blaðaskrif spunnust nú í framhaldi af þessu skeyti frá Alusuisse og þótti mönnum miður, að.þessi fundur skyldi hafa fallið niður.

Ráðherranefnd, sem skipuð var þremur ráðh., gerði ályktun um málið þann 26. febr. 1982. Fyrsti kafli þeirrar ályktunar er um eðli ágreiningsins og II. kafli er um meðferð deilumála. III. kafli ályktunar ríkisstj. er um endurskoðun samninga og þar segir:

„Þegar í stað hefjist viðræður um endurskoðun gildandi samninga með hliðsjón af bréfi iðnrn. frá 17. des. 1981, sem aðilar fallist á að rædd verði, m.a. eftirfarandi atriði: a) Hækkun raforkuverðs frá því sem nú er upp að kostnaðarverði við nýja raforkuöflun og gildi hækkunin frá 1. jan. 1982 með ákvæðum um óskerta tryggingu. b) Breyting á ákvæðum um skattgjald af álverinu þannig að gjaldið taki mið af veltu og hagnaði á einfaldan og ótvíræðan hátt. c) Meirihlutaeign Íslands í álverinu, sem hafi það í för með sér að fyrirtækið komist alfarið undir íslenska lögsögu, enda reynist unnt að takmarka mjög áhættu af slíkri eignaraðild.“

IV. kafli þessarar ályktunar fjallar um aðrar leiðir. Þar segir:

„Ef ekki reynist unnt að fá samþykki Alusuisse og hefja án tafar viðræður á ofangreindum grundvelli áskilur íslenska ríkisstjórnin sér allan rétt til að fara eigin leiðir til þess að ná fram nauðsynlegum breytingum á gildandi samningum.“

Dagana 25. og 26. mars 1982 var haldinn fundur með hæstv. iðnrh. og dr. Müller, forstjóra Alusuisse. Fundur sá var ekki undirbúinn af viðræðunefndinni og ekki haft samráð við hana um þá stefnu, sem taka skyldi í þeim umr., heldur var fundurinn undirbúinn af hæstv. ráðh. og nánustu aðstoðarmönnum hans. Á þeim fundi skiptust aðilar á tillögum að samkomulagsgrundvelli í málinu, en tillögurnar voru ósamhljóða og ekki varð sameiginleg niðurstaða. Ákveðið var að halda fund að nýju í byrjun maí.

Þann 5. maí 1982 rituðu formaður Sjálfstfl. og formaður þingflokks Sjálfstfl. bréf fyrir hönd flokksins til hæstv. iðnrh. um samskipti flokksins og ráðh. um álmálið. Þetta bréf er birt nú í fyrsta sinn sem fskj. með þessari þáltill. og ég tel rétt að lesa það hér upp, með leyfi forseta:

„Þann 31. júlí skipaði iðnrn. nefnd til þess að eiga viðræður við Alusuisse um skoðanaágreining fyrirtækisins og ríkisstj. vegna samninga aðilanna um álbræðslu í Straumsvík og endurskoðun á þeim samningum. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar tilnefndir af iðnrh., ríkisstj. og stjórnarandstöðuflokkunum.

Áður, eða 21. júlí 1981, hafði þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkt ítarlega ályktun um ágreininginn við Alusuisse, þar sem fram kom m.a. að þingflokkur sjálfstæðismanna legði áherslu á að samstaða næðist um þær aðgerðir sem nauðsynlegar kynnu að reynast. Þess vegna hefði flokkurinn boðið ríkisstj. samvinnu í máli þessu strax í des. 1980, en því boði hefði í engu verið sinnt fyrr en ríkisstj. falaðist eftir samstöðu við stjórnarandstöðuna í júlí 1981.

Í þeirri ályktun lýsti flokkurinn sig fúsan „til samstarfs um málefni álversins í Straumsvík, enda verði ríkisstj. reiðubúin til samvinnu á þeim grundvelli sem nauðsynlegur er.“

Þrátt fyrir þetta tilboð Sjálfstfl. um samstarf og þrátt fyrir skipun viðræðunefndar með aðild stjórnar og stjórnarandstöðu fer því fjarri, að eðlileg og nauðsynleg samráð hafi verið höfð við Sjálfstfl. í máli þessu. Viðræðunefndin hefur aðeins haldið tvo beina viðræðufundi við Alusuisse, og ekkert liggur fyrir um það að svo stöddu, hvort um framhald verði að ræða á slíkum fundum eða hvenær.

Þá hefur viðræðunefndin ekki átt aðild að þeirri stefnumörkun, sem væntanlega hefur verið unnið að til undirbúnings þeim fundum sem ráðherrar hafa átt við fulltrúa Alusuisse síðan í febr. s.l.

Nú er t.d. fyrirhugaður viðræðufundur með fulltrúum Alusuisse í Reykjavík í dag. Boðað hefur verið að iðnrh. muni mæta á þeim fundi ásamt aðstoðarmönnum. Ofangreind viðræðunefnd hefur ekki verið kölluð til í sambandi við stefnumörkun varðandi þann fund. Jafnframt er ljóst að iðnrh. hefur getað hagað því eftir geðþótta sínum, hvaða verkefni nefndin hefur fengið.

Af þessu tilefni vill Sjálfstfl. láta í ljós mikla óánægju yfir að ekki hefur af heilindum verið efnt til þess samstarfs við stjórnarandstöðuna, sem nauðsynlegt verður að teljast í svo mikilvægu máli. Forsenda þess, að hægt sé að ná þjóðarsamstöðu í slíku máli, er full samráð og samvinna stjórnar og stjórnarandstöðu um alla stefnumótun og um undirbúning og þátttöku í öllum viðræðufundum.

Sjálfstfl. minnir á að hann tilnefndi fulltrúa sinn í viðræðunefnd fyrst og fremst til að eiga viðræður við Alusuisse vegna skoðanaágreinings um túlkun samninga og til að fá úr því skorið, hvort Alusuisse hafi brotið samninga eins og iðnrh. hefur borið fyrirtækinu á brýn. Að þessu verkefni hefur síður en svo verið unnið sem skyldi. Um önnur atriði, eins og t.d. endurskoðun raforkuverðs, breytta eignaraðild og stækkun álvers, er nauðsynlegt og eðlilegt að stefnan sé mörkuð í samstarfi við alla þingflokka og sérstök nefnd sé skipuð til að annast þær viðræður. Sjálfstfl. er að sjálfsögðu reiðubúinn fyrir sitt leyti að taka þátt í slíku samstarfi. Núverandi starfsþættir eru hins vegar óþolandi, þar sem iðnrh. hefur ekki staðið við fyrirheit um samstarf við stjórnarandstöðuna eða sinnt boði Sjálfstfl. um samvinnu í þessu efni, eins og að framan hefur verið rakið.“

Hér lýkur þessu bréfi, en það var afhent hæstv. iðnrh. persónulega og afrit sent hæstv. ríkisstj. og þess jafnframt getið að bréf þetta væri ekki ætlað til birtingar að svo stöddu. Hefur Sjálfstfl. ekki birt þetta bréf fyrr en það er birt sem fskj. með þessari till. Ástæðan fyrir því að bréf þetta var ekki birt á sínum tíma var sú, að flokkurinn vildi á engan hátt spilla fyrir hæstv. iðnrh. í mikilvægum samningaviðræðum, sem þá stóðu fyrir dyrum, en hins vegar var talið nauðsynlegt að hæstv. ráðh. fengi þessa aðvörun um stefnu flokksins og að flokkurinn léti óánægju sína í ljós.

Rétt er að taka fram að hæstv. iðnrh. hefur í engu sinnt þessu bréfi. Haldið hefur verið áfram uppteknum hætti. Álviðræðunefndin hefur verið notuð eftir geðþótta hæstv. ráðh. og engir tilburðir sýndir í þá átt að taka upp heils hugar samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu mikilvæga máli.

Dagana 5. og 6. maí 1982 varhaldinn viðræðufundur hæstv. iðnrh. og fulltrúa frá Alusuisse. Þær viðræður fóru út um þúfur. Báðir aðilar sendu frá sér fréttatilkynningu um lok viðræðnanna. Í fréttatilkynningu iðnrn. segir að iðnrh, hafi lagt fram á fundinum málamiðlunartillögu um lausn á deilumálum aðila, þar sem krafist var raforkuverðshækkana hið fyrsta og lagt til að deilumál fyrri ára færu í gerð. Þar sem Alusuisse hefði hafnað alfarið raforkuverðshækkun hafi eigi verið unnt að halda viðræðum áfram og þeim því lokið án samkomulags og ekkert hafi verið ákveðið um framhald. Alusuisse sendi einnig frá sér fréttatilkynningu, þar sem fram kom að í lok viðræðnanna hafi iðnrh. lagt fram nýja yfirlýsingu um samkomulag og óskað eftir að Alusuisse samþykkti hana. Þess hafi þá jafnframt verið getið, að gæti Alusuisse ekki samþykki þessa yfirlýsingu þann sama dag væru sáttahugmyndir þær sem fram komu í yfirlýsingunni niður fallnar. Þannig hafði ráðh. sett Alusuisse úrslitakosti. Alusuisse telji þessar hugmyndir nothæfan grundvöll fyrir frekari viðræðum. Ráðh. hafi hins vegar ekki verið á sama máli og lýst því yfir að hann áskildi sér allan rétt. Í lok tilkynningarinnar segir að Alusuisse sé enn þeirrar skoðunar, að haldi báðir aðilar áfram að ræða ágreiningsmálin með opnum huga muni reynast unnt að finna lausn sem aðilar geti sætt sig við. Upplýst hefur verið að tilboð hæstv. iðnrh. á fundinum i maí var í aðalatriðum sem hér segir: Deilum um verð á súráli og anóðum fyrir tímabilið 1975–1979 sem og niðurstöðum endurskoðunar fyrir 1980 sé vísað í gerð. Hinn 1. júlí 1982 hækki raforkuverð til álversins í Straumsvík úr 6.45 mills í 9.5 mills. Raforkuverð hækki í 12.8 mills, þegar frjálst markaðsverð á áli í London hefur náð 80% af skráðu alkanverði. Samið verði um endurskoðun á raforkusölusamning milli Landsvirkjunar og ÍSALs með það fyrir augum að laga orkuverðið til langs tíma að framleiðsluverði og því verði sem álver í Evrópu og Norður-Ameríku greiða fyrir orku. Verði við endurskoðunina tekið tillit til þess, að ÍSAL greiðir ekki toll af útflutningi til Efnahagsbandalags Evrópu. Hið nýja verðkerfi sé vísitölutryggt. Stefnt verði að að ljúka endurskoðun orkuverðs fyrir 1. nóv. 1982. Skattareglur ÍSALs verði endurskoðaðar. Ríkisstj. Íslands verði veitt heimild til að kaupa meiri hluta eign í ÍSAL frá og með 1. jan. 1984 á sanngjörnu verði miðað við eignir fyrirtækisins og niðurstöður sjálfstæðra matsmanna. Sameiginlega kanni aðilar samkomulagsins, ríkisstj. og Alusuisse, arðsemi ÍSALs miðað við mismunandi forsendur að því er varðar afurðarverð, hráefnisverð, orkuverð og framleiðslumagn og einnig hvort hagkvæmt sé að framleiða anóður á Íslandi. Tilboði hæstv. iðnrh. lýkur með þeim orðum, að hafi ekki náðst samkomulag um þessi atriði við Alusuisse fyrir 1. nóv. 1982 sé það á valdi íslensku ríkisstjórnarinnar að kaupa allar eignir ÍSALs frá og með 1. jan. 1984 á verði er miðist við nettóeign og mat sjálfstæðra matsmanna, sem aðilar komi sér saman um.

Miklar umr. urðu á Alþingi utan dagskrár þann 6. maí 1982, þegar þessar niðurstöður lágu fyrir, þ.e. þegar ljóst var að viðræðunum hafi lokið án þess að árangur næðist. Það er athyglisvert að í þeim umr. skýrði hæstv. iðnrh. Alþingi ekki frá þessu tilboði sínu, sem hann hafði afhent á fundinum við Alusuisse. Hann minntist aðeins á að talað hefði verið um verð á bilinu 15–20 mills, en hann skýrði ekki frá því í smáatriðum hvernig hann hefði hugsað sér það og hann skýrði ekki frá því, að hann hefði lagt til að raforkuverðið hækkaði til að byrja með í 9.5 mills og síðan upp í 12.8 mills. Þetta ber að sjálfsögðu ekki vott um samningsvilja hæstv. iðnrh. við Alþingi, að hann skuli ekki telja sér fært á þessum fundi, þegar þetta mál var rætt, að skýra frá því tilboði sem hann hafði afhent Alusuisse fyrr þennan dag. Raunar skýrði hæstv. iðnrh. rangt frá hér á Alþingi um efni þessara viðræðna, því að hann gat þess einungis að hann hefði óskað eftir verði sem væri á bilinu 15–20 mills. Auðvitað er þetta verulega gagnrýnisvert. Þetta er enn eitt dæmi af mörgum um hvað hæstv. iðnrh. vill fara mikið einförum í þessu máli og hvað hann hefur lítinn áhuga á því að leita samstarfs eða samvinnu við hv. alþm. og þá meira að segja jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Það kom fram í þessum umr. þann 6. maí hér á Alþingi, að hvorki hæstv. forsrh.hæstv. sjútvrh., þ.e. forustumenn þeirra aðila sem eru í stjórnarsamstarfi við hæstv. iðnrh., höfðu fengið í hendur eða fengið að sjá það tilboð sem hæstv. iðnrh. lagði fram á þessum fundi þann 6. maí.

Þann 2. sept. s.l. gaf iðnrn. út fréttatilkynningu, þar sem dregnar eru saman helstu niðurstöður tveggja starfshópa, sem starfað hafa á vegum iðnrn., þ.e. starfshóps sem fjallaði um raforkuverð og annars sem fjallaði um skattamál. Um þetta urðu enn nokkur blaðaskrif í tilefni af þessari málsmeðferð hæstv. iðnrh. og skal ekki um það fjallað frekar hér.

Ég hef nú í mjög grófum dráttum rakið það sem fram hefur komið um samskipti hæstv. iðnrh. og Alusuisse. Vafalaust hefur eitthvað orðið út undan, sem þá má fylla upp í síðar. Ég hef sérstaklega spurst fyrir um hvort ekki hafi farið fram neins konar viðræður, annaðhvort á vegum álviðræðunefndar eða iðnrn., um endurskoðun samninganna frá því að fundurinn í byrjun maí var haldinn milli hæstv. iðnrh. og fulltrúa Alusuisse. Mér hefur verið tjáð, að enginn slíkur fundur hafi verið haldinn og enginn slíkur fundur sé fyrirhugaður. Málið er því í eins vonlausri stöðu og hægt er að hugsa sér.

Í þessu máli hafa verið rangar áherslur. Auðvitað ber ÍSAL að greiða rétta skatta eins og öðrum og til að tryggja það eru ákvæði í samningum um að Íslendingar geti látið endurskoða ársuppgjör ÍSALs. Bæði núv. og reyndar fyrrv. hæstv. iðnrh. létu undir höfuð leggjast að láta framkvæma slíka endurskoðun allt frá árinu 1975. Það var ekki fyrr en 1981 að núv. hæstv. iðnrh. birti að hluta niðurstöður endurskoðunar fyrir árið 1980. Síðar hefur verið farið í endurskoðun lengra aftur í tímann og er ekki nema gott um það að segja og betra seint en aldrei. Hins vegar hefur hæstv. iðnrh. gert þessa endurskoðun og þessi skattamál að aðalefni málsins. Segja má að hann hafi verið í stöðugum „bófahasar“ við Alusuisse allt frá því í des. 1980 um þennan þátt málsins. Hann hefur týnt aðalatriðinu, sem er hærra rafmagnsverð og endurskoðun samninga að öðru leyti. Það sjáum við best með því að athuga þær fölur, sem búa að baki því sem helst er talað um. Sá viðbótarskattur sem verið er að tala um að unnt sé að leggja á ÍSAL samkv. skýrslum Coopers & Lybrand fyrir öll þau ár sem verið hafa í endurskoðun er rúmlega 6 millj. dollara, sem þó kemur ekki til greiðs(u nema að hluta vegna skattinneignar ÍSALs. Sennilega mundi dæmið að lokinni þessari skattálagningu þýða, að íslenska ríkið ætti um 1.8 millj. dollara hjá ÍSÁL. Á það ber þó að lita, að Alusuisse hefur uppi lögfræðilegan ágreining um ýmsa þætti þessa máls þannig að enginn veit hvort öll kurl eru komin til grafar í því sambandi.

En hvernig líta nú þessar tölur út samanborið við það sem rætt er um í hærra rafmagnsverði? Ef rafmagnsverðið hefði verið hækkað um 1 mill á árinu 1981 hefði það þýtt í auknar tekjur vegna rafmagnssölu 1.2 millj. dollara. Hækkun rafmagnsverðs um 6 mills í 12.5 mills hefði m.ö.o. þýtt í auknar tekjur á einu ári vegna rafmagnssölu 7.2 millj. dollara, sem er hærri upphæð en þeir viðbótarskattar sem hugsanlega geta fengist frá Alusuisse og frá ÍSAL og sem öll orka og allt púður hæstv. iðnrh. hefur farið í.

Af þessu má sjá hversu algerlega skakkan pól hæstv. iðnrh. hefur tekið í þessu máli og hversu rangar áherslur hann hefur haft í málinu. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir og staðfest það reyndar hér á hv. Alþingi, að hann telji að ágreiningur um skattana sé smámál í samanburði við hækkun raforkuverðs. Þó hefur hæstv. iðnrh. lagt alla áherslu á ágreininginn um skattamálin og haldið þannig á því máli, að sá ágreiningur hefur stórspillt öllum öðrum samningaumleitunum.

Hæstv. iðnrh. hefur sýnt að hann er ekki mikill samningamaður og honum er ósýnt um að fara með viðkvæm deilumál. Allur gangur viðræðnanna við Alusuisse sýnir það. Hæstv. ráðh. hóf þetta mál með miklu offorsi í des. 1980 og ásakaði Alusuisse um að hafa með sviksamlegum hætti leynt réttum skattstofni. Í því sambandi er rétt að benda á, sem ég gat um áðan og ítreka, að í umr. hér á hv. Alþingi þann 6. maí s.l. lýstu bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. yfir því að þeir teldu ekki að um sviksamlegt athæfi væri að ræða og ríkisstj. hafi ekki haft uppi ásakanir í þessa átt. Þessi stóru orð hæstv. ráðh. í upphafi voru því síður en svo heppileg, ef stefna átti að árangri í samningaviðræðum. Ég segi ef, því að það hlýtur oft að koma upp í huga manna vafi um að hæstv. ráðh. hafi í rauninni nokkurn tíma ætlað sér að ná samningum í þessu máli. Það er ekki aðeins upphaf þessa máls af hans hálfu sem vekur þennan grun, heldur öll meðferð málsins. Engum dettur annað í hug en að hér séu á ferðinni erfiðir og flóknir samningar. Alusuisse er viðskiptafyrirtæki, sem vafalaust reynir að halda á öllu sínu. Þess vegna átti hæstv. ráðh. að ganga til þessara samninga með þau vopn sem góður samningamaður beitir, þ.e. með góðan málstað, með festu og með lagni. Viðkvæm deilumál af þessu tagi leysast ekki á fundum eins og þeim sem hæstv. ráðh. hélt hér í maí s.l. með fulltrúum Alusuisse, þar sem öllu á að hespa af á stuttum tíma í sviðsljósi fjölmiðla. Allir sem staðið hafa í erfiðum samningum, og þeir eru margir hér á hv. Alþingi, vita, að þannig ná menn ekki árangri.

Ég sagði áðan að ráðh. hefði sýnt að hann væri ekki mikill samningamaður og það hefur sýnt sig í fleiri málum. Þegar Alþingi fékk Blöndumálið til meðferðar hér á s.l. vetri var það mál komið í algeran hnút. Hroki og hótanir hæstv. iðnrh. höfðu hleypt illu blóði í menn fyrir norðan. Það var fyrst hér á hv. Alþingi sem málið leystist. Margir þm., ég vil segja úr öllum flokkum, sumir með mikla reynslu í samningum og áhugamenn um framgang þessa máls, náðu í samráði við ýmsa heimamenn þeirri lausn sem dugði og þeirri lausn sem tryggði frið heima í héraði. Í viðræðunum við Alusuisse þarf nú að söðla um á sama hátt. Í stað stærilætis og hroka þarf að koma lagni og festa. Í stað stöðugra árása þurfa að koma ítarlegar samningaviðræður, ekki í einn og tvo daga eins og ráðh. hefur tíðkað. Í stað upphlaupa þarf að koma þolinmæði. Í stað fjölmiðlastríðs og auglýsingaáráttu þarf að koma þrotlaus samningavinna manna sem gera sér grein fyrir því að engir samningar leysast í fjölmiðlum.

Við Íslendingar bítum nú í það súra epli, að mjög gott tækifæri til endurskoðunar samninga létum við úr greipum okkar ganga 1980. Þá lá ljóst fyrir að orkuverð hafði hækkað svo mikið frá 1975 að forsendur rammasamningsins höfðu breyst verulega og knýja átti á um hækkað rafmagnsverð. Þá voru ytri aðstæður og mjög heppilegar. Rafmagnsverðið hafði hækkað, eins og ég gat um, og verð á áli var mjög hátt eða um 2000 Bandaríkjadollarar á tonn. Nú hefur álverðið lækkað í um þúsund dollara á tonn. Ytri aðstæður hafa því snúist okkur í óhag þannig að líkurnar fyrir góðum árangri eru ekki eins góðar og þá. En þrátt fyrir það er nauðsynlegt að halda áfram af meiri alvöru en gert hefur verið til að ná fram endurskoðun á þessum samningum.

Hæstv. iðnrh. hefur látið að því liggja, að það geti verið góður kostur að loka álverinu. Það leiðir hugann að því hversu mikilvægt þetta fyrirtæki er fyrir íslenskt þjóðarbú. Það hefur áður verið rifjað hér upp á hv. Alþingi, að þrátt fyrir hið lága rafmagnsverð greiði ÍSAL upp á 19 árum allan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar og tilheyrandi mannvirkja, þ.e. Þórisvatnsmiðlunar, tveggja háspennulína frá Búrfelli að Geithálsi og þaðan til Straumsvikur, spennistöðvar við Geitháls og gufuaflsstöðvar í Straumsvík. Auk þess standa þessar tekjur undir öllum rekstrarkostnaði þessara mannvirk ja á sama tíma. Þetta sýnir að þessir samningar voru góðir á sínum tíma, þó að þeir þurfi endurskoðunar við nú og hafi reyndar þurft endurskoðunar við 1975. Ég mundi reyndar taka ofan hattinn fyrir hverjum þeim iðnrh. sem gerði núna slíka samninga um nýtt stóriðjuverð í tengslum við nýja virkjun.

Hvaða gjaldeyristekjur höfum við af álverinu? Hversu mikilvægt er þetta fyrirtæki fyrir okkar þjóðarbú? Gjaldeyristekjur okkar af ÍSAL árið 1981 voru sem hér segir — ég rek þetta bæði í millj. kr. og millj. dollara, en í þessum reikningum, sem eru frá Seðlabanka, er reiknað með meðalgengi dollars árið 1981 7.24: Orkukaup 57 millj. kr. eða 7.9 millj. dollarar, skattar 11.2 millj. kr. eða 1.55 millj. dollarar, laun 125.1 millj. kr. eða 17.3 millj. dollarar, annað, t.d. ýmiss konar þjónusta sem fyrirtækið kaupir af innlendum aðilum, 72.5 millj. kr. eða 10 millj. dollara. Samtals vegna reksturs 265.8 millj. kr. eða 36.75 millj. dollarar. Fjárfesting upp á 57.3 millj. kr. eða 7.9 millj. dollara. Samtals voru gjaldeyristekjur okkar af þessu fyrirtæki árið 1981 323.1 millj. kr. eða 44.65 millj. dollara. Til samanburðar má geta þess, að útflutningsverðmæti loðnuafurða okkar á árinu 1981 voru 575 millj. kr. og minnkun teknanna af loðnu er nú talinn meiri háttar héraðsbrestur, þannig að sjá má að hér munar auðvitað verulega um.

Það skiptir því miklu máli fyrir þjóðarbú okkar hvernig á þessu máli er haldið og að þessum rekstri sé ekki stofnað í hættu með óheppilegum aðferðum og vinnubrögðum. Það á ekki að vera komið undir sérvisku eins ráðh. eða sérvisku eins stjórnmálaflokks, sem er andvígur stóriðnaði hér í landinu, hver framtíð verður í þessum mikilvæga rekstri. Hæstv. iðnrh. hefur haft tækifæri í þessu máli. Nú verður hv. Alþingi að taka við eins og það reyndar gerði í Blöndumálinu á s.l. vetri, og leiða þessa samninga til lykta. Þess vegna er þessi tillagir flutt.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og til atvmn.