08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

114. mál, veðurfregnir

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Tryggvi Gunnarsson, varaþm. Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi, flutti á haustdögum litla fsp. til hæstv. samgrh. um lestur veðurfregna.

Þannig vill til, að fyrir nokkrum árum fékkst því framgengt að hafinn var lestur veðurfregna á metrabylgju frá strandstöðvum Landssímans og varð af þessu mikil bót og til mikils öryggis fyrir minni báta. Eins og mönnum er e. t. v. kunnugt um er það ekki skylda að búa opna báta og þilfarsbáta af stærðinni allt að 30 smálestir öðru en metrabylgjutækjum og þegar þann veg stendur á að aðeins er útvarpað veðurfregnum frá einum stað í Reykjavík, en ekki frá strandstöðvunum, þá eru oft afar erfið hlustunarskilyrði hjá þessum litlu bátum. En svo bregður við, að eftir tveggja ára góða reynslu af þessu berst strandstöðvunum á Hornafirði, Ísafirði, Neskaupstað, Siglufirði og Vestmannaeyjum skeyti frá tæknirekstrardeild Landssímans þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undanförnu hefur veðurfréttum til skipa verið dreift um strandstöðvarnar utan útvarpstíma á bæði milli- og metrabylgju. Stofnunin hefur og óformlega óskað eftir viðbótargreiðslu frá Veðurstofunni vegna notkunar á metrabylgjusendum.

Veðurstofan hefur nú tilkynnt að hún óski ekki eftir að veðurfréttir verði sendar um metrabylgjustöðvarnar að svo stöddu. Strandstöðvunum ber því að senda út veðurfréttir eingöngu á millibylgju frá og með þriðjudeginum 6. júlí 1982. Að sjálfsögðu má afgreiða þau skip sem biðja um veður á metrabylgju á hvaða tíma sem er, en þó aðeins gegn greiðslu samkv. gjaldskrám.“

Um hvað skyldi þetta mál snúast? Mér er sagt að þetta snúist um að kalla megi örfáar krónur, sem deilt er um milli tveggja ríkisstofnana, að Landssíminn fer fram á aukagreiðslu frá Veðurstofunni vegna þessarar sjálfsögðu þjónustu og um það geta menn ekki orðið sammála. En hverjir skyldu nú mest þurfa á veðurfregnum að halda? Auðvitað þurfa togarar á veðurfregnum að halda, en þó öllu helst hin smærri skip, sem með stuttum fyrirvara kunna að þurfa að leita vars þegar svo ber undir.

Ég vænti þess að fsp., þegar hún var flutt, hafi kannske gefið tilefni til þess að þessu hafi verið kippt í liðinn. En til þess nú að fullvissa sig um að svona smávandamál séu ekki látin óleyst, þegar upp kemur að þau fyrirfinnast, er þessi fsp. flutt hér, enda þótt langt sé um liðið síðan henni var útbýtt á hinu háa Alþingi. Hún hljóðar svo:

„Hvers vegna er loftskeytamönnum á strandstöðvum Landssímans bannað að lesa veðurfregnir á metrabylgju?“