08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

114. mál, veðurfregnir

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni er rétt — ég kynnti mér það eftir þær umr. sem hér urðu fyrr á þessu þingi. — Þarna var um bilun að ræða á Klifi, sem hafði dregist mjög úr hömlu að gera við. Þar er radarbúnaður, hleðslubúnaður og rafgeymar fyrir nokkurn hluta af þeim tækjum sem til þurfti. Þar hafði bilað og verið beðið um tæki frá Reykjavík. En það dróst mjög úr hömlu, það er rétt. Auk þess eru ekki lengur til staðar þeir varasendar sem voru í Sæfelli. Það er líka rétt hjá hv. þm. Það var engan veginn nógu vel að þessu staðið.

Varðandi það slys, sem um er að ræða, á m/b Heimaey auðvitað að vera búin miðbylgjusendi. Það eru fyrst og fremst miðbylgjusendar sem stólað er á í sambandi við bjarganir og annað því um líkt og allir bátar hafa slíka senda nú. Gamla reglan var sú, að bátar yfir 12 tonn eiga að vera búnir miðbylgjusendum og hlusta og senda á ákveðnum neyðartíðnum. En minni bátana, trillurnar, skyldar enginn til þess að vera með svona senda. Þær eru með metrabylgjusenda, VHF, sem við köllum, afskaplega þægilega í notkun. Auðvitað á að hugsa um þjónustu við þá báta líka.

Sannleikurinn er sá, að það þarf sáralitla breytingu, ef þá nokkra til að hægt sé að tala í þessa senda báða í einu, sami maðurinn á sama tíma. Þá er þetta raunverulega enginn viðbótarkostnaður, nema raforkan. Ef þetta er ekki alls staðar hægt er afskaplega auðvelt að breyta því. Ég tek því mjög undir það, sem hér hefur komið fram, að þessi þjónusta er sjálfsögð og sjálfsagt að hafa þetta með, það á ekki að kosta neitt meira.

Svo má endalaust deila um hvort heildargreiðsla Veðurstofunnar er hæfileg eða ekki. Það kemur ekki þessu máli við.