08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

114. mál, veðurfregnir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. út af orðum hv. fyrirspyrjanda vil ég láta það koma ljóst fram að í bréfi frá Veðurstofu Íslands frá 6.12.82 segir í 3. lið:

„Veðurstofunni hafa engar óskir borist um útvarp veðurfregna til sjófarenda á öðrum tíðnum eða bylgjulengdum en að framan eru taldar.“

Ég skil þetta svo, að Veðurstofunni hafi ekki borist þessar óskir beint þótt Pósti og síma hafi borist þær og Póstur og sími síðan boðið Veðurstofunni þessa þjónustu með 25% hærra gjaldi.

Hér kom áðan fram um Póst og síma að hann hefði ekki verið settur á fót til að bera sig. Það er mál út af fyrir sig, ef maður vildi fara að ræða það. Póstur og sími er B-hluta stofnun. Því er mjög stranglega fylgt eftir, ekki bara af núv. hæstv. fjmrh. heldur af öllum sem ég hef kynnst og fjvn., að B-hluta stofnun standi undir sér. Við það höfum við verið að burðast þennan tíma sem ég hef verið þarna og hefur það slarkað, ekki meira. En það hefur vitanlega leitt til þess, að orðið hefur að gefa alls konar fyrirmæli um niðurskurð á hlutum sem óskir hafa komið fram um og oft bitnað á þjónustu sem hér hefur verið rætt um.

En um leið og ég segi þetta, er ég alls ekki að halda því fram, að þetta ríði baggamuninn. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að mennirnir sitja þarna. Hins vegar gefur Póstur og sími út gjaldskrá fyrir alla sína þjónustu og það er alltaf spurningin hvenær á að falla frá þeirri gjaldskrá og hvenær á ekki að falla frá henni. Ég held því að menn verði að setja sig í spor þessarar stofnunar, sem er að reyna að standa við það, sem henni er uppálagt, að ná endum saman.

En þetta mál er í athugun. Ég get nefnt fleiri tilfelli um svona þjónustu, sem vel má halda fram að kosti ekki neitt, en þær verða nokkuð margar undantekningarnar ef alltaf er orðið við óskum um fría þjónustu. (StJ: Öryggismál.) Já, öryggismál ganga fyrir. Það eru skýr fyrirmæli um það. Þess vegna er veittur þarna 50% afsláttur. Ég vona að þetta mál leysist. Það er í athugun.

Ég þarf engu að bæta við það sem sagt hefur verið um þennan leiðindaatburð í Vestmannaeyjum. Ég athugaði það strax og fyrirmæli hafa verið gefin um að svona lagað komi ekki fyrir aftur og þess verði vandlega gætt að rafhlöður verði hlaðnar eins og þarf. Þarna varð bilun, sem af einhverjum ástæðum var ekki kippt í lag á stundinni, að því er mér skildist, en slíkt má ekki koma fyrir. Ég er alveg sammála því.