08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

271. mál, rækjuveiðar við Húnaflóa

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans skýr og greinargóð. Það kom í ljós í fyrsta lagi í máli hans að af þeim 471 millj. kr. sem reiknað var með til skuldabréfakaupa lífeyrissjóða af hinum opinberu fjárfestingarlánasjóðum færu nær 300 til þessara tveggja sjóða, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og því ekki nema eðlilegt að um þá væri sérstaklega spurt.

Ég vek athygli á því að um tiltölulega fáar undantekningar er að ræða, sjóði sem eru í vanskilum miðað við það sem reiknað var með í upphafi. Átta lífeyrissjóðir af þeim tæplega 80 sjóðum sem áætlunin nær til hafa keypt minna en gert var ráð fyrir í kaupáætlun. Hins vegar vek ég líka athygli á því, að þarna er um býsna stórar upphæðir að ræða engu að síður. Það stafar vitanlega af því, að þarna er t. d. um mjög öflugan lífeyrissjóð að ræða þar sem er Lífeyrissjóður verslunarmanna, en hann greiðir aðeins 20% af ráðstöfunarfé sínu í stað þeirra 40% sem allir aðrir sjóðir greiða. Það munar um minna en þær 18 millj. sem þar eru vanefndir á. Síðan koma nokkrir aðrir smærri sjóðir (Gripið fram í.) Já, það er aðeins varðandi árið 1982. Það skal líka skýrt tekið fram að það var aðeins varðandi árið 1982. (Gripið fram í.) Það voru tvöföld vanskil þar til viðbótar, segir fyrrv. formaður Landssambands verslunarmanna og veit áreiðanlega vel hvað til síns friðar heyrir í þessum efnum eða sinna manna fyrrverandi. (Gripið fram í: Sem og öðrum.)

Síðan kemur það einnig fram að lífeyrissjóðirnir hafa keypt af veðdeild Iðnaðarbankans fyrir 50 millj. kr. Það væri nú gott og blessað ef maður væri öruggur um að þessir fjármunir hefðu runnið til iðnaðarins í landinu. Það kann að vera, en ég dreg það stórlega í efa að veðdeild Iðnaðarbankans hafi lánað þá til iðnaðarins í landinu, ég dreg það stórlega í efa. Verslunarlánasjóðurinn hefur fengið 27.1 millj. Eflaust hefur það verið eitthvað til hagræðingar í öllu því verslunarbákni sem við búum við. Og Stofnlánadeild samvinnufélaganna hefur fengið 25.9.

Það er sérstaklega getið um það og ég vil líka benda á það hér að skuldabréfakaup til Stofnlánadeildar landbúnaðarins voru áætluð 9 millj. en urðu aftur á móti 18.3, þ. e. voru tvöfölduð. Þetta var háð ákveðnum skilyrðum. Lífeyrissjóður bænda lánaði Stofnlánadeildinni þetta með þeim skilyrðum að ákveðnir lánaflokkar yrðu tvöfaldaðir hjá Stofnlánadeild, sem svo var gert þannig, að það kom vissulega bændum eða verðandi bændum til góða sem fengu þarna mun hærri fyrirgreiðslu en annars hefði verið.

Ég segi það enn og aftur að það er mjög miður að sjá það, sérstaklega þegar um þá sjóði er að ræða sem svo viðkvæmir eru sem Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, að öflugum sjóðum skuli haldast uppi vanskil af því tagi sem þarna er um rætt, þó ég hins vegar hljóti að fagna því að svo margir lífeyrissjóðir standa fyllilega í skilum varðandi þetta. Um þetta hef ég raunar ekki meira að segja. Ég ætla ekki að rekja þetta frekar, því þetta kom allt hér skýrt fram í máli hæstv. fjmrh., en gjarnan vildi ég að kannað yrði hvort t. d. þeir peningar sem keypt voru skuldabréf fyrir af veðdeild Iðnaðarbankans renna til iðnaðarins í landinu (Gripið fram í) eða til almennra útlána, óskyldra á ég við. Ég hef svolítinn grun um það. En ég efast ekki um að framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar getur eitthvað þar úr bætt. Nei, hann fullyrðir að svo sé ekki. Engu að síður dreg ég það stórlega í efa og það er miklu miður einnig ef það er rétt að Verslunarlánasjóðurinn hefur þarna notið góðs af vanskilum Lífeyrissjóðs verslunarmanna.