08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. spurt er um það, hvað ríkisstj. hafi látið framkvæma við undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum í Árneshreppi í Strandasýslu. Staðreyndin er sú, að athugun á frambúðarhöfn í Árneshreppi hefur staðið í allmörg ár og komu reyndar fyrir nokkrum árum út eins konar drög að byggðaþróunaráætlun Árneshrepps, þar sem möguleg hafnarframkvæmd var skoðuð á fleiri en einum stað. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að takmarka þetta við Norðurfjörðinn því þar er verslunarstaður hreppsins, eins og menn þekkja, og hafa athuganir síðan beinst að þeim stað.

Ég fékk niðurstöður af þessum athugunum 13. des. s. l. Ég held að réttast sé að ég lesi þær, með leyfi forseta. Þar segir í greinargerð frá Hafnamálastofnun:

„Undanfarin ár hefur það verið ósk íbúa í Árneshreppi að þar verði gerðar verulegar hafnarbætur. Það er nú eini staðurinn á landinu þar sem skipa verður upp vörum úr strandferðaskipum með bát. Í fjögurra ára áætlun um hafnargerðir hefur verið síðan 1975 gert ráð fyrir endurbótum á hafnaraðstöðu í Árneshreppi, en þessum áætlunum hefur sífellt verið skotið á frest, þó að settur væri vökvaknúinn krani árið 1980, sem getur tekið upp og sett á flot minni trillur og uppskipunarbáta heimamanna.

Lýsing hafnargerðaráætlunarinnar 1981–1984 á Árneshreppi er þannig:

„Í Norðurfirði er Kaupfélag Árneshrepps. Allar vörur til þess kaupfélags fara meiri hluta ársins um bryggjuna á Norðurfirði. Strandferðaskipin hafa viðkomu þar. Í Norðurfirði eru jarðhitamöguleikar. Dýpi við bryggjuna í Norðurfirði er svo takmarkað að uppskipun verður að fara fram með bátum. Á Gjögri er álíka bryggjustúfur og í Norðurfirði. Í Djúpuvík er trébryggja að falli komin. Komið hefur til mála að rækjuvinnsla verði sett upp í Árneshreppi. Á Gjögri eru möguleikar á að bæta hafnaraðstöðu með skjólgarði og lengingu hafnargarðs. Þar eru jarðhitamöguleikar og flugvöllur. Á þessum stöðum er nokkur trilluútgerð og í Djúpuvík er einn 12 tonna bátur. Aflinn er saltaður.

Vilji heimamanna er að hafnaraðstöðu verði komið upp í Norðurfirði, þar sem flestir hreppsbúar eru búsettir og kaupfélagið er. Athuganir Hafnamálastofnunar benda til þess, að þar sé hagkvæmast að byggja höfn. Á Norðurfirði var á árinu 1980 settur upp vökvaknúinn krani með 15 tonna lyftigetu. Þessi krani mun fyrst og fremst þjóna við uppskipun, en vonast er til að heimamenn geti einnig nýtt hann við að sjó- og landsetja trillur. Enn er eftir frágangur aðstöðu við kranann. Vöruflutningar um bryggjuna á Norðurfirði árið 1975 voru rúm 600 tonn. Íbúafjöldi í Árneshreppi í ársbyrjun 1981 var 176.“

Síðan þessi lýsing var skrifuð hefur byggð og útgerð í Djúpuvík að mestu leyti lagst niður. Heimamenn eru eitthvað farnir að komast upp á lagið með að nýta vökvaknúða kranann á Norðurfirði við trilluútgerð. Unnið hefur verið að því að finna hagkvæma lausn á hafnaraðstöðu í Árneshreppi. Fyrsta spurningin var hvar sú hafnaraðstaða ætti að koma. Fyrir liggur skýr ósk meiri hluta hreppsnefndar um að það verði í Norðurfirði. Tveir aðrir staðir koma til greina. Það eru Gjögur og Djúpavík.

Á veturna er ófært nema á bát milli Djúpuvíkur og Gjögurs ásamt Norðurfirði, en þar bjó stærsti hluti íbúa hreppsins. Nú er byggð að mestu lögð niður í Djúpuvík og kemur sá staður af þessum ástæðum ekki til greina sem hafnarstæði, þó þar sé gott hafnarstæði frá náttúrunnar hendi.

Gjögur og Norðurfjörður ásamt Trékyllisvík eru yfirleitt í vegasambandi á vetrum. Þar er einnig flugvöllur svo samgöngur við aðra landshluta eru tiltölulega góðar. Strandferðaskip hafa viðkomu á Norðurfirði, þó hafnaraðstaða sé lítil sem engin.

Gjögur hefur komið til greina sem staður fyrir nýja hafnarframkvæmd. Boranir við bryggjuna þar og athugun hafa leitt í ljós að erfitt er að dýpka vegna klapparbotns og hafnarstæðið er ekki fýsilegt til byggingar hafnar fyrir stærri skip og báta.

Boranir og athuganir á Norðurfirði hafa leitt í ljós að þar er botn sem leyfir rekstur stálþils svo og dýpkanir eins og má ætla að nauðsynlegt verði. Hugmyndin er sú, að þar verði byggður tæplega 200 m langur grjótgarður með 50 m stálþili innan á. Möguleiki yrði á að dýpka í 6 m dýpi við þetta þil. Þessi nýi hafnargarður yrði staðsettur um 60 m fyrir utan núverandi bryggju og mundi hann skýla henni fyrir utanöldu og gera mögulegt að nýta hana sem viðlegu fyrir smábáta. Í hinni nýju höfn ættu strandferðaskip að geta athafnað sig við flestar aðstæður og einnig yrði þar aðstaða og viðlega fyrir útgerð fiskiskipa, en Norðurfjörður liggur í seilingarfjarlægð frá góðum fiskimiðum. Æskilegt er að gerðar verði ítarlegri athuganir á botni og öldu, en ólíklegt er að þær breyti þessum niðurstöðum.

Sumarið 1982 var gerð könnun á grjótnámi. Í Norðurfirði var opnuð náma í fáeinna km fjarlægð frá hafnarstæðinu og virðist hún lofa góðu. Unnir voru nokkur þúsund rúmmetrar af grjóti, sem bíða þar flutnings í væntanlegan garð.

Hugmyndir um þessa hafnargerð voru ræddar á fundi með hreppsnefnd Árneshrepps og fulltrúa Hafnamálastofnunar. Var það samþykkt að stefna að byggingu hafnargarðs á Norðurfirði, sem þjónað gæti strandferðaskipum og bátum. Yrði sú höfn talin heyra undir lög um almennar hafnir. Stefnt er aftur á móti að því að bryggjan á Gjögri yrði talin ferjubryggja og haldið við sem slíkri.

Kostnað við hafnargerðina á Norðurfirði má áætla miðað við þessar hugmyndir á verðlagi ársins 1983: Grjótgarður 25 þús. rúmmetrar 5 millj. kr., stálþil 50 m 4 millj. kr., dýpkun 5 þús. rúmmetrar 1 millj. kr. eða alls 10 millj. kr.“ — Svo löng er greinargerðin frá Hafnamálastofnun.

Kostnaðaráætlun hefur með öðrum orðum verið gerð, en ekki hefur enn þá verið aflað fjármagns til að hefja þessar framkvæmdir. Ástæðan er sú, að við gerð fjárlaga fyrir áramótin var þröngt fyrir dyrum og ekki talið fært að taka inn neinar nýjar hafnir. Niðurstaðan varð sem sagt sú, að í hafnaáætlun fyrir árið 1983 voru ekki teknar inn neinar nýjar hafnir og var því höfnin í Árneshreppi út undan ásamt ýmsum fleiri höfnum sem eru í svipaðri stöðu.

Ég hef hins vegar látið kanna og haft samband við Skipaútgerð ríkisins um það, hver nauðsyn er á því að hraða hafnargerð í Árneshreppi vegna tilkomu nýrra strandskipa. Gömlu skipin, Esja og Hekla, verða hætt siglingum að mestu leyti líklega fljótlega á þessu ári og eftir það taka ný skip við, sem eru með töluvert öðruvísi útbúnað til upp- og útskipunar. Þessi skip hafa langtum hærri borðstokk. Það er að vísu unnt að skipa út í báta, en það er miklu óhagkvæmara en á hinum minni skipum sem fyrir voru. Af þessari ástæðu telur forstjóri Skipaútgerðar ríkisins að vísu ekki útilokað að þjóna Árneshreppi áfram á sama hátt og gert hefur verið, en stórum erfiðara og langtum háðara veðri en nú er, og af þeirri ástæðu ákaflega brýnt að hafnaraðstaða fáist í Árneshreppi.

Ég mun leggja þetta mál fljótlega fyrir ríkisstjórnina með tillögu um að þetta verði afgreitt sem forgangsverkefni á næsta ári, þ. e. árinu 1984, og mun rökstyðja það m. a. með þeirri niðurstöðu, sem ég hef nú nefnt, frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins.